* Þórhallur Gunnarsson , ritstjóri Kastljóss, viðurkenndi í viðtali við DV að hann hefði gert mistök í inngangi að viðtalinu sem Sigmar Guðmundsson tók við Davíð Oddsson seðlabankastjóra í fyrrakvöld.

* Þórhallur Gunnarsson , ritstjóri Kastljóss, viðurkenndi í viðtali við DV að hann hefði gert mistök í inngangi að viðtalinu sem Sigmar Guðmundsson tók við Davíð Oddsson seðlabankastjóra í fyrrakvöld. Þórhallur sagði þá að Davíð hefði þráfaldlega neitað að yfirgefa Seðlabankann en þetta leiðrétti Davíð í viðtalinu og sagðist aðeins hafa gert það einu sinni í bréfi til Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Þórhallur gerðist þarna sekur um nokkuð sem æ oftar sést í fjölmiðlum á Íslandi þar sem atburðir og hlutir eru ýktir úr hófi fram, væntanlega með það í huga að auka áhuga fólks á efninu. Þessi tilhneiging á upptök sín í auglýsingaiðnaðinum eins og svo margt annað og er hvað algengust í kvikmyndaauglýsingum nú til dags þar sem kvikmyndir og leikarar eru mærð án þess að nokkur innstæða sé fyrir oflofinu.

Nærtækasta dæmið er auglýsing sem nú gengur í sjónvarpinu þar sem nýjasta kvikmynd Clints Eastwoods, Gran Torino , er sögð marg verðlaunuð.

Myndin hefur hlotið ein verðlaun. Þau fékk Eastwood fyrir leik í aðalhlutverki af hendi Landssambands kvikmyndagagnrýnenda í Bandaríkjunum.