Í SEPTEMBER 2008 voru lögð fram fjárlög á Alþingi og voru útgjöld ríkisins 2009 þá áætluð um 460 milljarðar króna og ríkissjóður nær skuldlaus. Í sambandi við fjárlögin var mikið rætt um að auka þyrfti opinberar framkvæmdir í samgöngumálum, m.a. með vegagerð og jarðgangagerð vítt og breitt um landið. Eftir bankahrunið hafa fjárlög ríkisins verið endurskoðuð, en óljóst er hvernig þau verða eftir afgreiðslu Alþingis.
Eitt þeirra samgönguverkefna sem ráðast átti í var bygging nýrrar hafnar við Bakka á Landeyjasandi, ásamt smíði nýrrar Vestmannaeyjaferju. Áætlað hefur verið að þessar framkvæmdir myndu kosta um 10-12 milljarða króna. Ég hef alltaf haft efasemdir um ákvörðun um Bakkafjöruhöfn og á hvern hátt hún var tekin. Fyrir nokkrum árum lét áhugamannahópur undir forystu þingmanns Sunnlendinga gera athugun á samgöngubótum til Vestmannaeyja og einn kostur var neðansjávargöng milli lands og Eyja. Hugmyndin um jarðgöng til Eyja er áhættusöm og ekki tímabær vegna skorts á nauðsynlegum forrannsóknum og áætlaður kostnaður því of hár. Annar kostur var ný og stærri ferja í stað Herjólfs. Þessir kostir voru athugaðir af Vegagerðinni og samgönguráðuneytinu og niðurstaða þeirra var sú, að besta lausnin væri ný ferjuhöfn á Bakka og ferja sem hentaði þeirri höfn. Við þetta lengdist landvegurinn frá Reykjavík úr 50 km til Þorlákshafnar í 120 km að Bakka. Á móti kemur að siglingin til Eyja styttist verulega. Það hefur lengst af verið talið óráð að reyna hafnargerð fyrir opnu Atlantshafi á sandströndunum sunnanlands, sem myndast hafa við framburð stórfljótanna og strandlengjan er síbreytileg. Hætt er við að höfn þarna fyllist af sandi í væntanlegu Kötlugosi. Meginforsenda þess að talið er mögulegt að byggja höfn við Bakka er, að skammt undan landi er rif á 3,3 m dýpi, sem úthafsaldan brotnar á og ver höfnina gegn briminu. Sérbyggða, grunnskreiða ferju þarf fyrir þessa höfn.
Fregnir hafa verið um að flestar hafnir utan Faxaflóahafna eigi við verulegan rekstrarhalla að stríða og þurfi á fjárhagsaðstoð að halda. Leiða má að því líkur, að ný Bakkafjöruhöfn bætist í hóp þeirra hafna sem ekki standi undir rekstrarkostnaði. Þorlákshöfn er aðalhöfn Sunnlendinga og þar í nágrenni er að rísa margháttaður útflutningsiðnaður. Efla þarf Þorlákshöfn sem stórskipahöfn og það skaðar afkomumöguleika hafnarinnar að leggja ferjusiglingar þaðan niður. Nú hafa framkvæmdir við gerð grjótvarnargarða fyrir Bakkafjöruhöfn verið boðnar út og er grjótvinnsla hafin í Seljalandsheiði, í 20 km fjarlægð frá á Bakka. Grjótvinnslan er rétt ofan við Seljalandsfoss og í óþökk heimamanna og umhverfis- og ferðamálasamtaka. Samið hefur verið við þýska skipasmíðastöð um smíði sérhannaðrar ferju fyrir Bakkafjöruhöfn, en vegna efnahagsástandsins í landinu hefur ríkið ekki getað lagt fram viðunandi smíðatryggingu fyrir skipið.
Vestmannaeyingum leist ekki á tillöguna um Bakkafjöruhöfn og söfnuðu undirskriftum til að fá nýja ferju í stað Herjólfs. Munu um 3000 eyjaskeggjar af 5000 hafa skrifað undir þetta skjal. Á Íslandi tíðkast ekki að hlusta mikið á vilja fólksins, íbúalýðræði er aðeins í orði, ekki á borði. Gerð Bakkafjöruhafnar er fullmikil áhætta og mér virðist eini álitlegi kosturinn til frambúðar sé ný, stór og hraðskreið ferja í stað gamla Herjólfs. Einnig þarf að losa ríkið frá rekstri ferjusiglinga og koma henni í hendur Vestmannaeyinga sjálfra. Það er því enn tími til að hætta við það glapræði sem Bakkafjöruhöfn er, gegn hæfilegum bótum til þess trausta verktaka sem tók að sér grjótvinnsluna.
Nú er mikilvægt að reyna með öllum ráðum að draga úr atvinnuleysi í verktaka- og byggingariðnaði. Grjótvinnsla er ekki mannaflsfrek, það er aðallega tækjavinna. Byggingariðnaðinum verður ekki bjargað þar sem byggt hefur verið á undanförnum árum svo mikið umfram eftirspurn, að núverandi íbúðar-, skrifstofu- og atvinnuhúsnæði fullnægir þörfinni til næstu fimm ára. Til að viðhalda atvinnu í verktakaiðnaði er aðeins einn möguleiki fyrir hendi og það er að stórauka framkvæmdir í vegagerð. Þetta er ráð sem aðrar þjóðir, t.d. Bandaríkin, grípa til vegna heimskreppunnar sem nú er að leggjast yfir með sívaxandi þunga. Vegurinn yfir Hellisheiði austur að Selfossi var lagður á árunum 1970-76 og þá með láni frá Alþjóðabankanum og samkvæmt gæðakröfum hans. Tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar eru brýnustu verkefnin í vegagerð, sem koma allri þjóðinni til góða. Eðlilegt er að leita til alþjóðlegra fjármálastofnana og fjárfestingasjóða til að fjármagna þetta átak. Aðeins eitt verkefni er réttlætanlegt í jarðgangagerð í næstu framtíð, en það er Vaðlaheiðargöngin. Þau göng koma allri þjóðinni til góða. Við höfum ekki ráð á fleiri gæluverkefnum eins og Héðinsfjarðargöngum, sem nú eru í byggingu.
Höfundur er verkfræðingur, palloth@simnet.is