Unglist á Seyðisfirði Hópurinn er orðinn mjög samheldinn.
Unglist á Seyðisfirði Hópurinn er orðinn mjög samheldinn.
Eftir Birgi Örn Steinarsson biggi@mbl.is UNDANFARNAR tvær vikur hafa sex útskriftarnemendur úr LHÍ, auk tveggja gestanemenda frá Valand í Gautaborg, dvalið á Seyðisfirði til þess að verða fyrir áhrifum frá fólki og umhverfi bæjarins.

Eftir Birgi Örn Steinarsson

biggi@mbl.is

UNDANFARNAR tvær vikur hafa sex útskriftarnemendur úr LHÍ, auk tveggja gestanemenda frá Valand í Gautaborg, dvalið á Seyðisfirði til þess að verða fyrir áhrifum frá fólki og umhverfi bæjarins. Á morgun verður svo opnuð sýning á þeim listaverkum sem orðið hafa til meðan á dvölinni hefur staðið en hún hefur hlotið nafngiftina löngu (Listaháskólaseyðisfjarðarbókabúðarvinnustofulykla)-Kippuhringur.

„Sýningin er í kjölfar námskeiðs sem þessir listnemar hafa sótt hér, en þetta er samvinnuverkefni milli LHÍ og Dieter Roth-akademíunnar,“ útskýrir Þórunn Eymundsdóttir, framkvæmdastjóri Skaftfells, þar sem sýningin verður opnuð kl. 16.

Hópurinn hefur búið saman allan tímann og fengið að kynnast vinnustofum og því listafólki sem er á staðnum. Hópurinn mætti algjörlega óundirbúinn og öll verkin á sýningunni eru unnin á Seyðisfirði. „Hughrifin sem þau verða fyrir hér á staðnum verða mjög mikill hluti af verkum þeirra. Þau eru mörg að vinna með eitthvað sem þau upplifðu hér á staðnum, hvort sem það tengist fólki sem þau hafa kynnst hér eða gömlum þjóðsögum, náttúrunni eða bara húsum bæjarins. Bærinn er rauði þráðurinn í verkum þeirra.“

Listamennirnir ungu eru Bergdís Hörn Guðvarðardóttir, Erla Silfa Hordvik Þorgrímsdóttir, Haraldur Sigmundsson, Kolbrún Ýr Einarsdóttir, Malina Cailean, Marie Louise Andersson, Steven Ladouceur og Una Baldvinsdóttir.