Árni Tómasson
Árni Tómasson
Eftir Þórð Snæ Júlíusson thordur@mbl.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@mbl.is

„Ég hef sagt við kröfuhafa bankans að ef þeir eru ósáttir við uppgjörið finnist mér það vera réttmæt krafa hjá þeim að geta óskað eftir því að eignast hlut í bönkunum,“ segir Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis.

Hann segir kröfuhafana þegar líta svo á að þeir eigi nýju bankana ef þeir vilji.

Árni telur að vinna þeirra ráðgjafa sem skilanefndirnar eru búnar að ráða til semja við íslenska ríkið um uppgjör við þá muni að mestu snúast um að lenda þessu máli. „Menn hafa verið að bíða eftir að ríkið ráði sér sinn ráðgjafa svo að það yrði til staðar mótaðili til að ræða við. Þetta eru flókin úrlausnarefni.“

Ríkisstjórnin mun á allra næstu dögum semja við erlendan ráðgjafa til að sjá um uppgjör föllnu bankanna þriggja við erlenda kröfuhafa. Ráðgjafinn mun þá semja við þá aðila sem skilanefndir Kaupþings, Landsbanka og Glitnis hafa ráðið til að gæta sinna hagsmuna.

Skuldabréfin munu lækka

Samkvæmt kynningum gömlu bankanna þriggja á eignum og skuldum sínum reikna þeir allir með að fá skuldabréf frá nýju bönkunum. Landsbankinn áætlar að skuldabréfið verði upp á 284 milljarða króna, Glitnir telur sitt verða upp á 422 milljarða króna og Kaupþing telur sitt verða upp á 170 milljarða króna.

Árni segist óttast að sú upphæð sem muni standa eftir þegar búið er að meta eignir og skuldir nýju bankanna verði lægri. „Ég óttast að skuldabréfið verði lægra og sagði það skýrt á kröfuhafafundinum að menn skyldu hafa allan fyrirvara á þessari tölu, 422 milljarðar króna. Ég á von á því að þegar menn fara nákvæmar í matið muni það lækka meira en þetta.“

Byggt á gömlu mati

Þær upphæðir sem miðað er við að fari á milli nýju og gömlu bankanna byggjast á bráðabirgðastofnefnahagsreikningi nýju bankanna sem var birtur í nóvember síðastliðnum.

Síðan það mat var unnið hafa eignir færst á milli nýju og gömlu bankanna sem munu hafa áhrif á virði skuldabréfsins.

Til dæmis var mikið af lánum fært úr nýja Landsbankanum yfir í þann gamla um miðjan desember síðastliðinn þar sem þau voru flokkuð sem „lán í verulegri tapáhættu“. Meðal þessara lána voru lánveitingar til BG Holding og önnur tengd Baugi. Hefðu lánin verið áfram inni í nýja bankanum hefði það skert getu hans til að starfa eðlilega. 6