Garðar Hlíðar Guðmundsson blikksmiður fæddist í Túngarði á Fellsströnd í Dalasýslu 16. maí 1962. Hann varð bráðkvaddur 13. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans eru Esther Kristjánsdóttir, f. 11. júní 1938 og Guðmundur Jónsson, f. 9. maí 1932. Systkini Garðars Hlíðars eru: 1) Jón, f. 28. júní 1956, maki Ragnheiður Þórarinsdóttir, 2) Valgeir Kristján, f. 7. apríl 1958, maki Elísabet Guðrún Birgisdóttir, 3) Friðjón, f. 25. mars 1959, maki Kristín Heiðbrá Sveinbjörnsdóttir, 4) María Kristín, f. 9. apríl 1965, maki Jón Helgi Eiðsson, 5) Guðni Hannes, f. 20. október 1972, maki Inda Björk Gunnarsdóttir, og 6) hálfbróðir Garðars Hlíðars, samfeðra, Kristinn Helgi, f. 5. nóvember 1962, maki Hafdís Bjarnadóttir.
Fyrri kona Garðars Hlíðars var Máney Kristjánsdóttir, f. 16. maí 1962, d. 29. júní 1996. Foreldrar hennar voru Rósa Kristín Stefánsdóttir og Kristján Röðull. Þau eru bæði látin. Börn Garðars og Máneyjar eru: 1) Sigmundur Bjarki, f. 9. mars 1981, sambýliskona Magdalena Sylvía Magiera, og 2) Rósa Kristín, f. 24. október 1985, sambýlismaður Pétur Rúnar Guðmundsson, sonur þeirra Guðmundur Hlíðar, f. 18. apríl 2007.
Seinni kona Garðars Hlíðars er Kristín Alfhild Ákadóttir, f. 21. janúar 1964. Foreldrar Kristínar eru Sigurlín Ellý V. Thacker og Åke Långermyr, þau skildu. Börn Garðars og Kristínar eru Hilmir Örn, f. 19. júní 2003, og Sylvía Tara, f. 21. september 2004. Dóttir Kristínar og stjúpdóttir Garðars Hlíðars er Sigurlín Ellý Sigvaldadóttir, maki Björgvin Þorsteinsson.
Garðar Hlíðar fluttist til Reykjavíkur 1980 og fór að vinna í Blikksmiðjunni Vogi. Færði sig síðan til Blikksmiðjunar Funa og vann hann þar lengst af og lauk námi í blikksmíði. Garðar Hlíðar var nýfarinn að vinna hjá blikksmiðjunni Vík þegar hann lést.
Útför Garðars Hlíðars fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi kl. 13.
Elsku Garðar. Nú ertu horfinn frá okkur langt fyrir aldur fram og maður er varla farinn að trúa því ennþá, enda er maður allur svo dofinn. Við söknum þín sárt, öll sem eitt, úr fjölskyldunum, við höfum verið að rifja upp minningar frá liðnum tímum með þér, þú varst alltaf svo hjálplegur, komst alltaf í sveitina og hjálpaðir okkur í heyskapnum á sumrin þótt svo að þú værir að sálast í bakinu þínu, stundum varstu svo kvalinn en samt reyndirðu að hjálpa okkur og eins komstu í smalamennsku á haustin, og gerðir reyndar síðast í haust, til bróður þíns.
Ég saknaði þín þegar þú fluttir 18 ára suður með Máneyju, kærustunni þinni í Kópavoginn, en þar hefur þú búið síðan. Þú áttir tvö yndisleg börn með henni, svo þegar hún dó þá tókst þú við börnunum og ólst þau upp, Sigmundur þá 14 ára og Rósa 11 ára, og þetta gekk vel hjá ykkur. Ég var hjá þér þegar þú fórst í bakaðgerðina þína og reyndi að hjálpa þér eins og ég gat. Svo kynntist þú elskulegri konu, Kristínu Ákadóttur, og áttir Hilmi og Sylvíu með henni, þau eru bara 4 og 5 ára og hafa nú misst mikið og svo áttu eitt barnabarn, Guðmund Hlíðar, og hann er barn á öðru ári. Kristín átti eina uppkomna dóttur, Ellý. Já, þau hafa öll misst mikið og sakna þín mikið, svo er lítið afabarn á leiðinni og þú fékkst ekki að lifa til að sjá það. Elsku Stína mín, Rósa, Sigmundur, Hilmir, Sylvía, Ellý, Guðmundur Hlíðar, Pétur, Magdalena og Björgvin, megi Guð blessa ykkur og styðja á erfiðri stundu.
Garðar, nú vona ég að þér líði vel, sért laus við alla verki úr þínum skrokk.
Kveðja
Mamma og pabbi.
Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð, leiddu mig,
og lýstu mér um ævistig.
Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.
Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér.
Því veit mér feta veginn þinn
og verðir þú æ Drottinn minn.
(Pétur Þórarinsson.)
Þinn sonur,
Sigmundur Bjarki Garðarsson.
En lífið er víst ekki sanngjarnt og ekki alltaf eins og maður vill hafa það.
Mig langar að þakka þér fyrir þennan tíma sem þú varst hjá mér. Þú skilur eftir svo margar góðar minningar í huga mér sem munu ávallt fylgja mér í gegnum lífið. Svo margt sem þú kenndir mér sem mun nýtast mér í lífinu. Þú varst svo yndislegur faðir, vildir öllum vel og varst ávallt reiðubúinn til að hjálpa ef þess þurfti.
Þegar mamma lést 1996 og við Simmi fluttumst til þín tók við stórt og mikið verkefni fyrir þig, að ganga bæði í móður- og föðurhlutverk. En aldrei brástu okkur, þú stóðst þig eins og hetja, pabbi. Án þín væri ég ekki þessi góða og sterka manneskja sem ég er í dag. Þú kenndir mér margt á æskuárum mínum sem mun nýtast mér í lífinu.
Ég man allar ferðirnar vestur í sveitina. Alltaf með kassettu í tækinu, okkar uppáhaldslög og auðvitað öll íslensk. Oft sungum við með, enda alveg ágætis söngvarar þar á ferð þó ég segi sjálf frá. Ég er þér svo þakklát fyrir að hafa fengið að vera svona mikið í sveitasælunni.
Það eru svo margar minningar, pabbi, sem ég gæti þulið upp, en margar minningar vil ég líka bara geyma í hjarta mínu og kannski mun ég deila þeim með litlu systkinum mínum þegar þau eru orðin eldri. Segja þeim hve góður maður þú varst og segja þeim frá öllum hestaferðunum sem við fórum í saman og hversu góður hestamaður þú varst. Ég var alltaf voða montin af þér pabbi því mér fannst þú bestur. Þú vissir svör við öllum spurningum og það var sama hvað þú tókst þér fyrir hendur, þú gerðir það svo vel. Þú varst mín fyrirmynd. Ég leit alltaf svo mikið upp til þín. Þú varst bara besti pabbi sem ég gat hugsað mér að eiga, ég var líka „stelpan hans pabba“. Það var svo gott að knúsa þig ef mér leið illa, þá bara eins og allt það slæma hyrfi bara.
Ég er svo fegin að við fluttum aftur suður 2007, því þessi tími sem við fengum með þér er ómetanlegur. Og þú náðir að kynnast afahlutverkinu, þó svo það væri allt of stuttur tími. Guðmundur Hlíðar var svo hrifinn af þér, leit upp til afa síns. Ég mun passa vel upp á það að hann minnist þín, sýna honum myndir, tala um þig og segja honum hversu yndislegur afi þú varst honum. Guðmundur Hlíðar mun bera nafn þitt með stolti. Elsku pabbi, mér þykir svo erfitt að sitja hér og skrifa þetta í þessari merkingu. Þú áttir ekki að kveðja svona fljótt. Ég fékk ekki tíma til að segja þér hve mikið ég elskaði þig og hvað ég er stolt af að vera dóttir þín. En þú veist það og þó þú sért farinn frá okkur hér, þá ertu alltaf með okkur og við getum alltaf talað við þig. Ég mun passa vel upp á litlu systkinin mín, sem eru svo ung að þau skilja þetta ekki nógu vel. Við fjölskyldan munum standa þétt saman og gæta hvert annars.
Ég mun sakna þín svo sárt, pabbi. Minning þín mun ávallt lifa.
Þín dóttir,
Rósa Kristín Garðarsdóttir.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson.)
Þín börn,
Hilmir Örn og Sylvía Tara.
Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni.
(Hallgrímur Pétursson.)
Minning þín mun ávallt lifa í hjarta mér
Þinn tengdasonur,
Pétur Rúnar Guðmundsson.
Endar nú dagur, en nótt er nær,
náð þinni lof ég segi,
að þú hefur mér, Herra kær,
hjálp veitt á þessum degi.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónss. frá Presthólum.)
Elsku afi, þín verður sárt saknað.
Þitt afabarn,
Guðmundur Hlíðar Pétursson.
Mér líður svipað og mér leið þegar ég var átta ára og þú fluttir að heiman, nema núna veit ég að það tómarúm sem hefur myndast innra með mér verður aldrei fyllt alveg aftur. Ég á bara fallegar minningar um þig, því þú varst mér alltaf svo einstaklega góður. Þegar ég var lítill þá varstu duglegur að lesa fyrir mig á kvöldin og þá var bókin um hann Sólfaxa sérstaklega í miklu uppáhaldi. Þú gafst mér willysjeppa sem þú smíðaðir einn veturinn í skólanum og þetta var enginn venjulegur leikfangabíll því þú hafðir tengt í hann rafhlöður og ljós. Ég get ímyndað mér að það hafi ekki alltaf verið auðvelt fyrir þig, unglinginn, að dröslast með mig, barnið, með þér í verkunum heima í Túngarði og Skógum en ég man samt ekki til þess að þú hafir skammað mig fyrir uppátæki mín sem eflaust hafa íþyngt þér á köflum. Stundum gengu þau þó einum of langt og ég man að þér stóð ekki alveg á sama þegar ég komst yfir skæri og ákvað að snyrta köttinn þinn, né heldur þegar ég uppgötvaði að eftir rigningar kemur mikil sverta af gömlum, fúnum hjólbörðum og ég litaði hundinn þinn svartan og þú skildir ekkert í því hvaða aðkomuhundur væri kominn heim þó að þú kannaðist nú eitthvað við hann. En þú gast nú séð broslegu hliðarnar á hlutunum enda áttirðu til að vera stríðinn sjálfur.
Síðasta stund okkar saman var fyrir vestan síðastliðið haust þegar við hjálpuðum Friðjóni bróður okkar að smala kindum. Það að hittast fyrir vestan á hverju hausti vóru ógleymanlegar stundir og hafa alltaf skilið eftir stórar minningar. Að fara fram Flekkudalinn til funda við náttúruna og okkur sjálfa. Þá vórum við kóngar einn dag.
Þú varst duglegur og ósérhlífinn og áttir erfitt með að segja nei.
Þú varst mikill hestamaður og hver veit nema þú sért búinn að endurnýja kynni þín við Glókollu og Kirkju sem vóru þér svo kærar og takir þær nú til kostanna um víða dali og grösug tún.
Elsku Kristín, Hilmir og Sylvía. Rósa, Sigmundur og Ellý. Mamma og pabbi. Guð styrki ykkur í trúnni á þessum erfiðu tímum. Við verðum að trúa því að það sé einhver tilgangur með því að Garðar var tekinn svo snemma frá okkur.
Elsku Garðar. Mér þykir svo vænt um þig og sakna þín svo sárt.
Blessuð veri minning þín.
Guðni litli bróðir.
Án Garðars verður lífið ekki eins, hver á að segja okkur til í hestum, eða bjarga okkur frá mörgum þumalputtum.
Elsku bróðir, ég leyfi mér að vona að þú kíkir á okkur og leiðbeinir okkur í gegnum ýmsa hluti.
Elsku mamma, pabbi, Stína, Rósa, Simmi, Hilmir, Sylvía og aðrir í fjölskyldunni, megi Guð gefa ykkur styrk í sorg ykkar.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
(Bubbi Morthens.)
Elsku bróðir, þín er sárt saknað.
Þín systir,
María Kristín
Guðmundsdóttir.
Garðar var einstaklega ljúfur drengur, hjálpfús við sína nánustu, og alltaf boðinn og búinn til að hjálpa öðrum. Ég mun sakna þess að hafa hann ekki nálægt mér, til að hjálpa mér að setja upp hillur og laga ljósin hjá mér, sem og annað ef á þurfti að halda. Hann var fyrir mér einstakur og hjálpfús vinur. Hann hafði gaman af að tala um pólitík og gat verið svolítill nöldrari á því sviði, þann skemmtilega hátt hafði hann líklega frá pabba sínum, en ég hafði gaman af því. Eitt sinn í okkar gleði tókum við það upp hjá okkur að syngja eitt lag saman, en hann bað mig fljótlega að hætta, því ég héldi ekki lagi, svo hló hann sínum einstaka hlátri.
Hvað er hægt að segja um 46 ára gamlan mann, mann sem átti allt lífið framundan með börnum og eiginkonu? Jú, hann var drengur góður. Tel ég það vera bestu ummæli sem hægt er að hafa um annan mann. Ég held að ég geti sagt það með fullri vissu, að hann var einstakur faðir og afi. Garðar átti eitt afabarn og annað er á leiðinni sem mun því miður ekki sjá né kynnast sínum góða afa. Sonur Garðars sem er 6 ára fór oft með pabba sínum á hestbak, hafði hann mikla ánægju af því að vera með pabba sínum. Nú er enginn pabbi til að fara með á hestbak. En hann á góða frænku sem mun taka við því hlutverki að taka hann með sér á hestbak.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni
svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens.)
Sendi Esther, Guðmundi, Kristínu, börnum, systkinum og öðrum ástvinum mína dýpstu samúð.
Hvíl í friði, elsku mágur og vinur.
Þinn mágur,
Jón Helgi.
Af lifandi gleði var lund þín hlaðin,
svo loftið í kringum þig hló,
en þegar síðast á banabeði
brosið á vörum þér dó,
þá sóttu skuggar að sálu minni
og sviptu hana gleði og ró.
En seinna skildi ég: Hér áttirðu ekki
að eiga langa töf.
Frá drottni allsherjar ómaði kallið
yfir hin miklu höf:
Hann þurfti bros þín sem birtugjafa
bak við dauða og gröf.
(Grétar Ó. Fells.)
Það er nokkuð víst að lífið kemur manni sífellt á óvart og aldrei datt manni í hug að maður ætti ekki eftir að hitta þig aftur og sitja og spjalla eða skreppa í reiðtúr. Í froststillunum síðustu daga hefur mér oft dottið í hug að skreppa til þín eftir vinnu og kíkja í hesthúsin til þín í reiðtúr og í kaffi á eftir. En alltaf lætur maður heimsóknir sitja á hakanum, því maður heldur að það sé nógur tími eftir til þess. En svo vaknar maður upp við vondan draum einn daginn, að tíminn sé búinn. Sennilega var einhver að reyna að segja mér það, þegar þessi hugsun kom upp, að kíkja á þig marga daga í röð, en aldrei datt mér í hug að þetta væri síðasti séns.
Margs er að minnast þegar hugsað er til baka, góðar minningar um skemmtilega útreiðartúra og ljúfar samverustundir. Og getur maður alltaf brosað þegar maður hugsar um það þegar hestamaðurinn sjálfur datt af barnahrossinu, en þú gast svo gert mikið grín að því þegar ég sjálf datt svo af sama barnahrossi. Ég minnist síðasta útreiðartúrsins okkar saman þegar ég bjó í bænum og skellti mér í hesthúsin til þín og við ætluðum bara í stuttan reiðtúr en hann endaði víst í einum fimm klukkutímum því nóg var um að spjalla. Ég trúi því að þú verðir tilbúinn með reiðskjótana þegar við hittumst á ný á öðru tilverustigi.
Ég berst á fáki fráum
fram um veg.
Mót fjallahlíðum háum
hleypi ég.
Og golan kyssir kinn.
Og á harða, harða spretti
hendist áfram klárinn minn.
Það er sem fjöllin fljúgi
móti mér,
sem kólfur loftið kljúfi
klárinn fer.
Og lund mín er svo létt,
eins og gæti eg gjörvallt lífið
geisað fram í einum sprett.
(Hannes Hafstein.)
Hinsta kveðja.
Hanna Valdís.
Eitt andartak stóð tíminn kyrr,
æddi síðan inn um glugga og dyr,
hreif burt vonir, reif upp rætur.
Einhvers staðar engill grætur.
Hvers vegna hér – menn spá og spyrja.
Spurningar flæða, hvar á að byrja?
Fólkið á þig kallar, Kristur,
kvölin nístir bræður og systur.
Tárin eru leið til að lækna undir
lífið er aðeins þessar stundir
Gangverk lífsins þau látlaust tifa
og við lærum með sorginni að lifa.
(Bubbi Morthens.)
Nú kveð ég þig, elsku frændi minn, þó sárt það sé.
Þú munt alltaf verða í huga og hjarta mér og mun minning þín
lifa í hesthúsunum alla tíð.
Þín frænka
Sif.
Garðar hóf störf í Blikksmiðjunni Vogi upp úr 1980 en kom síðan 1985 til starfa í Funa ehf. Kópavogi, lauk þar sveinsprófi í blikksmíði með ágætiseinkunn enda listasmiður og starfaði þar nær óslitið til ársins 2004 eða í nær 20 ár. Garðar bar ekki tilfinningar sínar á torg og það tók tíma að kynnast þessum hljóða manni sem vann verk sín í hljóði og kærði sig ekki um neitt ofurþakklæti eða klapp að því loknu.
Frá árinu 1995 starfaði Garðar sem aðstoðarverkstjóri og var einn af lykilstarfsmönnum Funa og átti stóran þátt í að laða viðskipavini að fyrirtækinu með sinni hægu og látlausu framkomu. Árið 2008 hóf Garðar störf hjá Blikksmiðjunni Vík í Kópavogi og þótti mönnum þar mikill fengur að fá Garðar í sínar raðir. Árið 1996 gekk Garðar í gegnum mikla erfiðleika þegar fyrri eiginkona hans og barnsmóðir, Máney Kristjánsdóttir, lést og stóð hann þá einn með tvö ung börn, þau Rósu og Sigmund. Þrátt fyrir það stóðst Garðar þessa raun og náði að styðja og styrkja börn sín tvö og búa þeim hlýlegt heimili.
Upp úr árinu 2001 hóf Garðar sambúð með núverandi eiginkonu sinni, Kristínu Ákadóttur, og ekki fór á milli mála að Garðar hafði fengið trú á lífið og tilveruna á ný og aftur skein gleðiglampi úr augum og styttra var í bros og glettni sem var Garðari eðlileg í góðra vina hópi. Garðar og Kristín bjuggu sér heimili í Kópavogi og eiga saman tvo börn, Hilmi Örn, fimm ára, og Sylvíu Töru, fjögurra ára.
Eitt helsta áhugamál Garðars var hestamennska, sem hann hafði stundað frá unga aldri, enda fæddur og uppalinn í Dölunum þar sem honum fannst sólin skína skærar og náttúran hafði hinn eina sanna ilm. Ef það er líf eftir þetta líf þar sem almættið ræður ríkjum þá sé ég Garðar vin minn í anda setja undir sig hausinn þegar hann hittir þá himnafeðga fyrsta sinni og eflaust hugsar hann þeim þegjandi þörfina sem greip inn í tilveruna með þessum hætti, því Garðar var ekki búinn með það verk sem hafið var hér á jörðu, hann var vanur að klára það sem hann var byrjaður á.
Ég votta eiginkonu, börnum og nánustu aðstandendum innilega samúð og við vinir og félagar verðum að halda áfram að lifa með minningu um góðan vin.
Kveðja,
Kolviður Helgason.