George Bryant flytur erindi á ÍMARK-hátíðinni um hvernig megi bæta ímynd Íslands erlendis. Hann er einn stofnenda The Brooklyn Brothers auglýsingastofunnar í Lond-on. Hún hóf starfsemi sína fyrir hálfu ári en þar er leitast við að finna nútímalegri leiðir til að ná til neytandans.
Eftir Maríu Ólafsdóttir
maria@mbl.is
George segist bæði vera markaðsmaður og hugmyndasmiður en hann hefur öðlast fjölbreytta reynslu síðastliðin 15 ár í ólíkum störfum. Til að mynda fyrir Apple, Ólympíuleikana, Orange og kvikmyndina Being John Malkovich. George hefur starfað bæði í Englandi og Bandaríkjunum, síðast sem framkvæmdastjóri stærstu auglýsingastofu Englands, AMV BBDO.
Þarfari áhyggjuefni
„Það liggur við að ég hafi óeðlilega mikinn áhuga á Íslandi en ég hef heimsótt landið meira en tíu sinnum á síðastliðnum fjórum árum og fer alltaf heim aftur bæði endurnærður og innblásinn. Þar sem ég elska Ísland flyt ég erindi mitt sem aðdáandi en um leið sem markaðsmaður sem vinnur að stefnumörkun. Erindið verður því bæði hlutdrægt og óhlutdrægt en ég tel það í góðu lagi! Sé litið til ímyndar Íslands ber að hafa í huga að heimurinn sem við lifum í nú er augljóslega ekki sá sami og við lifðum í fyrir hálfu ári. Þannig hefur sýn heimsins á Íslandi breyst en það er aðeins partur af heildarmynd þar sem heimsmyndin sjálf hefur breyst. Ég held að Íslendingar séu mun meðvitaðri um hvað fólk kann að halda heldur en hvað því í raun finnst. Ísland og fjárhagsleg vandamál þess voru í brennidepli í Bretlandi fyrir jólin og þökk sé Gordon Brown urðum við einkar áhyggjufull um áhrifin á enskt efnahagslíf. Áður höfðum við þó lítið hugsað um málefni Ísland og taki maður eitt skref til baka þá virðist ímyndarvandamál Íslands vera hvað stærst á Íslandi. Þá meina ég að flestir þeir sem ég hef talað við í Bretlandi glíma í dag við mun hversdagslegri áhyggjur eins og hvort þeir eigi fæði og húsaskjól frekar en hvernig þeir líta á land sem þeir þekkja lítið,“ segir George.
Skortur á þekkingu
George segist því óttast að Íslendingar telji að ímynd landsins hafi skaðast og þeim finnist þeir nærri því þurfa að útskýra aðstöðu sína. Raunverulega vandamálið sé hins vegar miklu frekar fáfræði fólks um landið. „Þegar maður spyr Englendinga um Ísland halda þeir að það sé í sex klukkustunda fjarlægð og í öðru tímabelti, þar skíni sólin aldrei og nútímamenning fyrirfinnist ekki. Þetta eru enn ástæðurnar fyrir því að fólk kemur ekki hingað og nú er að snúa vörn í sókn. Hin raunverulega áskorun er ekki sú að bæta ímynd landsins heldur að finna leiðir til að auka þekkingu fólks á því, sérstaklega núna þegar hagstætt er að heimsækja Ísland,“ segir George. Nýlegar tölfræðilegar upplýsingar sýndu að 90 prósent fólks töldu ólíklegt að þau færu í draumafrí á þessu ári sökum kreppunnar og 75 prósent töldu líklegt að þau færu frekar í frí nálægt heimahögunum. „Ég vil í lengstu lög forðast það að eyða fríinu mínu í niðurrigndu tjaldi í Englandi og myndi mun frekar vilja fara til Íslands sem hefur allt það sem draumafrí þarf að hafa, er hæfilega langt í burtu og nú á hagstæðu verði,“ segir George.
Mikilvægur skapandi iðnaður
„New York og Ísland eru mínir uppáhaldsstaðir fyrir utan England, ég dái orku þessara staða og hvernig þeir eru ólíkir en um leið líkir að því leyti að vera skapandi og veita innblástur. Ég held að Íslendingar geri sér grein fyrir því hversu skapandi, hugvitssamir og uppfinningasamir þeir hafa alltaf þurft að vera og þurfa að vera nú. Sköpunargleðin er mjög rík í Íslendingum og hinn skapandi iðnaður sífellt mikilvægari fyrir ímynd þess. Ég myndi óska þess að sjá skapandi hugmyndir fólksins sem ég hef hitt á Íslandi verða notaðar til að skapa alþjóðlegt vörumerki þess. Það er erfitt að skapa vörumerki lands því fólk fellur oft í klisjukenndan pytt póstkortahugmynda. Sem dæmi um frábæra slíka markaðssetningu má nefna Lord of the Rings kvikmyndirnar sem voru snilldarleg markaðssetning fyrir Nýja-Sjáland og ég ætla að kvikmyndin Australia muni hafa svipuð áhrif í framtíðinni,“ segir George.