ÞAÐ er magnað að hugsa til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er fallin.
Einnig að það er verið að reyna að gera róttækar breytingar í fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Að vísu virðast seðlabankastjórarnir bara ætla að sitja sem fastast, sama hvað á dynur, merkilegt nokk!
Hvers vegna gerðist þetta ekki fyrr? gæti einhver spurt sig, nóg er búið að mótmæla svo sem og fólk orðið langþreytt á ráðaleysi föllnu stjórnarinnar eða viljaleysi öllu heldur. Því þegar ný stjórn er mynduð þá er hægt að framkvæma, en er það of seint og ætla þau að gera of lítið? Munu fyrirtæki halda áfram að fara á hausinn og lánin okkar að hækka? Það kemur í ljós. Ég hef reyndar tröllatrú á Jóhönnu og er nokkuð viss um að hún eigi eftir að gera góða hluti.
Gaman að sjá hve Agnes fer hamförum í Mogganum 9. febrúar sl. þar sem hún skrifar um „Heilaga Jóhönnu í ham“. Skemmtileg lesning finnst mér, svolítil biturð í henni reyndar þegar hún spyr um það hvaða verk hafa talað. Þetta er splunkuný stjórn og verkin munu tala! Hún endar á því að segja að „varla er við því að búast að þingmenn sjálfstæðisflokks verði óðfúsir til samstarfs um að greiða götu frumvarpa nýrrar ríkisstjórnar á Alþingi á þeim vikum sem framundan eru“. Það býst svo sem enginn við því, en ef frumvarpið er gott, hvað þá? Hefur einhver þingmaður Sjálfstæðisflokksins þá manndóm í sér til að greiða því atkvæði sitt eða er tryggðin við flokkinn ofar öllu, jafnvel hag heillar þjóðar? Ég vona að þingheimur vandi sig á næstu dögum og vinni fyrir okkur þjóðina, ekki fyrir eigin rass eða flokkinn, og átti sig á því að kosningar eru í vændum.
Einnig er gaman að velta orðum Þorgerðar Katrínar fyrir sér í einu viðtalinu á síðustu vikum þar sem hún segir að Samfylkingin sé í tætlum (sama sagði Geir) að þau væru að rífast um allt, en er hún var spurð í sama viðtali um klofning í Sjálfstæðisflokknum út af Evrópumálum þá sagði hún það skoðanaskipti, bara gaman hjá þeim, ekkert að rífast neitt, allt í góðu á þeim bænum.
Æ, þið eruð sjálfum ykkur verst! Vonandi dæmir þjóðin okkar af verkunum, ekki orðagjálfri.
Svo sér maður yfir þingsal í sjónvarpinu og hvar er allt fólkið sem var kosið á þing? Örfáar hræður í sætum sínum, en hvar eru hinir? Ja, það þarf kannski ekki fullan sal af fólki í þinginu.
Er ekki bara ráð að fækka þingmönnum um svona um helming og þannig spara útgjöld? Ef við skoðum málið, þá eru ca. 4.762 Íslendingar á bak við hvern þingmann, en í Svíþjóð ca. 26.361 manns, Noregi ca. 28.402 manns, Bretlandi ca. 88.889 manns, Bandaríkjunum ca. 564.815 manns og Frakklandi ca. 111.785 manns. Ef við tækjum Frakka til fyrirmyndar þá væru ca. 3 þingmenn á Íslandi.
Það væri líka hægt að spara töluvert fé með því að fækka ráðherrum.
Svo annað hér, ráðherrar, eruð þið ekki með bílpróf og eigið þið ekki bíla? Af hverju þurfið þið bílstjóra og bíl? Það er ekki eins og þetta séu einhverjar rosalegar vegalengdir hérna.
Vona ég að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sjái sóma sinn í því að taka á þessu bruðli.
Einnig vona ég að „skjaldborg um heimilin í landinu“ séu ekki orðin tóm.
Emil Gústafsson, húsasmiður.