George Soros
George Soros
Eftir George Soros: "Stofnun sameiginlegs ríkisskuldabréfamarkaðar á evrusvæðinu myndi hafa tafarlausan ávinning í för með sér, auk þess sem kerfisgalli yrði lagfærður."

KERFISGALLAR eru dragbítur á evrunni. Evrulöndin eru með seðlabanka en ekki sameiginlegt fjármálaráðuneyti og yfirvöld í hverju landi fyrir sig annast eftirlit með bankakerfinu. Áhrifa þessara kerfisgalla er farið að gæta í vaxandi mæli, þeir magna fjármálakreppuna.

Þessi þróun hófst fyrir alvöru eftir gjaldþrot Lehman Brothers þegar fjármálaráðherrar ríkja Evrópusambandsins töldu nauðsynlegt á fundi 12. október 2008 að fullvissa almenning um að engin önnur mikilvæg fjármálastofnun yrði gjaldþrota. Þar sem sambandið er ekki með sameiginlegt fjármálaráðuneyti fengu yfirvöld í aðildarlöndunum það verkefni að bjarga bönkunum. Þetta fyrirkomulag olli þegar í stað alvarlegri fjármálakreppu í nýju ESB-löndunum sem hafa ekki enn tekið upp evruna. Á endanum jók það einnig spennuna innan evrusvæðisins.

Sýnir kosti evrunnar

Lánin í nýju aðildarlöndunum komu að mestu frá bönkum á evrusvæðinu og skuldir heimilanna eru að mestu í erlendum gjaldeyri. Þegar bankar evrusvæðisins reyndu að vernda heimalönd sín með því að flytja fjármagn þangað aftur urðu gjaldmiðlar og skuldabréfamarkaðir Austur-Evrópulandanna fyrir þrýstingi, efnahagur þeirra dróst saman og bolmagn heimilanna til að standa skil á lánunum minnkaði. Þetta kom niður á efnahagsreikningi banka með mikil umsvif í Austur-Evrópu.

Efasemdir vöknuðu um bolmagn einstakra aðildarlanda til að vernda banka sína og vaxtamunurinn milli ríkisskuldabréfa einstakra landa tók að aukast ískyggilega. Þegar eftirlitsstofnanir hafa reynt að bjarga bönkum sínum hafa þær tekið ákvarðanir sem koma óviljandi niður á öðrum aðildarlöndum. Allt þetta hefur kynt undir innbyrðis spennu.

Á sama tíma hefur fjármálakreppan sýnt á sannfærandi hátt kosti sameiginlegs gjaldmiðils. Án hans hefðu sum landanna á evrusvæðinu lent í sömu erfiðleikum og Austur-Evrópulöndin.

Eins og staðan er núna eru áhrif kreppunnar minni í Grikklandi en Danmörku þótt undirstöðurnar séu miklu verri. Evran kann að vera undir þrýstingi en ljóst er að hún heldur velli. Veikari aðildarlöndin halda sig örugglega við hana; ef hættan er einhver kemur hún frá öflugasta aðildarríkinu, Þýskalandi.

Þjóðverjar óttast verðbólgu

Afstaða þýskra stjórnvalda til kreppunnar er í andstöðu við sjónarmið ráðamanna í flestum öðrum löndum, en auðvelt er að skilja ástæðuna. Þjóðverjum svíður enn sárt minningin um fjórða áratuginn þegar óðaverðbólga í Weimar-lýðveldinu leiddi til valdatöku Hitlers. Á sama tíma og leiðtogar annarra ríkja viðurkenna að leiðin til að bregðast við lánsfjárskorti sé að auka grunnfé bankakerfisins eru Þjóðverjar enn andvígir hvers konar aðgerðum sem gætu sáð fræjum verðbólgu. Þótt Þjóðverjar séu eindregnir stuðningsmenn Evrópusamruna eru þeir skiljanlega tregir til að verða að djúpa vasanum sem fjármagnar björgunaraðgerðir á evrusvæðinu.

Þörf á sameiginlegum skuldabréfamarkaði

Ástandið kallar þó á umbætur á stofnunum Evrópusambandsins og Þjóðverjar myndu hagnast jafnmikið á þeim og aðrir. Stofnun sameiginlegs ríkisskuldabréfamarkaðar á evrusvæðinu myndi hafa tafarlausan ávinning í för með sér, auk þess sem kerfisgalli yrði lagfærður.

Þetta myndi til dæmis auka trú manna á að hægt yrði að bjarga bankakerfinu og gera sambandinu kleift að auka aðstoðina við nýrri og berskjaldaðri aðildarríki. Þetta yrði einnig leið til að fjármagna samræmdar aðgerðir til að örva efnahaginn á samdráttartímum. Verði rétt staðið að þessu myndi þetta draga úr ótta Þjóðverja við að önnur lönd seildust í vasa þeirra.

Skuldabréfamarkaður evrusvæðisins myndi vera viðbót og ekki koma í stað ríkisskuldabréfamarkaða einstakra aðildarlanda. Hann yrði undir stjórn fjármálaráðherra evrusvæðisins. Eftirlitið með fjármálakerfinu yrði í höndum Seðlabanka Evrópu en fjármálaráðherrarnir fengju það verkefni að ábyrgjast fjármálastofnanir og bjarga þeim ef þörf krefur.

Þetta myndi leiða til sameinaðs og öflugs fjármálakerfis innan evrusvæðisins. Jafnvel Bretland, sem á í vök að verjast vegna of stórs bankakerfis, gæti freistast til að taka upp evruna.

Hægt yrði að nota skuldabréf evrusvæðisins til að aðstoða ný ESB-ríki sem hafa ekki enn tekið upp evruna. Þau gætu einnig orðið til þess að Evrópusambandið fengi meira bolmagn til að veita lán utan við núverandi umboð Fjárfestingarbanka Evrópu og Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu. Evrópusambandið gæti síðan fjármagnað fjárfestingarverkefni sem sameina það hlutverk að örva efnahaginn á samdráttartímum og önnur mikilvæg markmið, svo sem fjárfestingar í rafdreifikerfi, gas- og olíuleiðslum, nýjum orkugjöfum og opinberum framkvæmdum sem skapa atvinnu í Úkraínu.

Allar þessar fjárfestingar myndu hjálpa Evrópusambandinu að losa kverkatakið sem Rússar hafa náð á því. Þeim andmælum að þetta myndi taka of langan tíma til að geta örvað efnahaginn á samdráttartímum er hægt að hafna með þeim rökum að kreppan sé einnig líkleg til að standa í langan tíma.

Tilslakanir nauðsynlegar

Leysa þyrfti tvö erfið ágreiningsmál – um skiptingu skuldabyrðarinnar milli aðildarríkja og mismunandi atkvæðavægi fjármálaráðherra evrusvæðisins. Þjóðverjar myndu álíta núverandi fordæmi, þ.e. fjárlög Evrópusambandsins og samsetningu stjórnar Seðlabanka Evrópu, ósanngjörn og óviðunandi.

Þótt mörg aðildarríki færist undan því að samþykkja lausn sem breytir valdajafnvæginu innan Evrópusambandsins þurfa þau að fallast á einhverjar tilslakanir til að fá Þjóðverja til að vera með í þessu. Venjulega þarf kreppu til að knýja fram tilslakanir en kreppan er nú þegar skollin á og því fyrr sem vandinn er leystur því betra.

Höfundur er stjórnarformaður Soros Fund Management og nýjasta bók hans heitir Reflections on the Crash of 2008. © 2008 Project Syndicate. Millifyrirsagnir eru Morgunblaðsins.