Sigurgeir Þorvaldsson fæddist í Huddersfield á Englandi 31. maí 1923. Hann lést á Landspítalanum 9. febrúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Keflavíkurkirkju 20. febrúar.
Góður einlægur vinur minn og félagi Sigurgeir Þorvaldsson er fallinn frá. Kynni okkar hófust fyrir alvöru þegar Geiri varð fertugur og bauð til veislu um kvöldið. Ég ákvað að mæta og sagði konu minni að ég reiknaði með að stoppa stutt. Þegar leið á kvöldið og flestir gestanna farnir hófum við þrír félagar ásamt Geira að spila lomber. Mikið skemmti ég mér vel og tíminn leið fljótt. Spilamennskunni lauk ekki fyrr en á hádegi daginn eftir, þegar tvær konur komu að vitja manna sinna. Þessa nótt mynduðust tengsl og vinátta, sem óx með árunum og entist ævilangt.
Við áttum það sameiginlegt við Geiri að hafa gaman af að grípa í spil og í seinni tíð hittumst við 1-2 í viku til að spila. Við vorum einnig í spilaklúbbi, við félagarnir þar söknum nú Geira en hann var þar aðalhvatamaðurinn og mikill gleðigjafi.
Jólakortin frá Geira og Gunnu voru sérstaklega fallega skreytt og þeim fylgdu frumortar vísur því Geiri var vel hagmæltur og gaf út ljóðabækur.
Á afmælum færði hann mér gjafir. Ég á tvo fallega tréplatta sem hann færði mér að gjöf. Á öðrum þeirra stendur „Að eignast vin tekur andartak, en að vera vinur tekur alla ævi“ á hinn plattann er letrað „Besta lyfið í lífsins raunum, er tryggur vinur og hamingjustund“. Margar hamingjustundir veitti Geiri mér og fyrir þær vil ég þakka. Daprari dagar eru því framundan hjá mér að fá ekki lengur að njóta nærveru þessa góða vinar. Vinum hans og vandamönnum sendi ég samúðarkveðjur og þá sérstaklega henni Gunnu hans Geira, sem eftir langt og farsælt hjónaband hefur misst maka sinn. Megi Geiri vinur minn hvíla í friði.
Björn Björnsson.
Ég kynntist Sigurgeiri vorið 1972 er ég hóf störf í Ríkislögreglunni á Keflavíkurflugvelli á vakt Unnsteins Jóhannssonar, en einnig voru á vaktinni Grétar Finnbogason, Gústaf Bergmann og Sigurður Björn Jónsson. Grétar og Gústaf eru báðir látnir, blessuð sé minning þeirra.
Sigurgeir var þekktastur undir nafninu Sláni. Sigurgeir var hár og grannur maður og þaðan tel ég að nafnið Sláni sé komið. Sigurgeir var líka þekktur undir rithöfundarnafninu Kálhaus, en hann gaf út nokkrar ljóðabækur og skáldsögur undir því dulnefni.
Sigurgeir var heiðarlegur og góður drengur. Hann var grallari og prakkari hinn mesti og eru til margar góðar sögur því til staðfestu. Það var stutt í gálgahúmorinn og uppátæki hans munu seint líða Suðurnesjamönnum úr minni.
Sigurgeir var duglegur og góður lögreglumaður og skelfir allra þeirra sem hugðust smygla út af Keflavíkurflugvelli, eða höfðu óhreint mjöl í pokahorninu. Hann var í essinu sínu þegar bílaröðin í hliðinu náði langt upp á Völl. Þetta skilja aðeins þeir sem unnu á Keflavíkurflugvelli, eða tengdust Vellinum á einhvern hátt.
Sigurgeir var slunginn skákmaður og eldklár spilamaður, góðum gáfum gæddur og hafði fallega rithönd.
Við Geiri, eins og hann var kallaður á vaktinni, urðum góðir vinir og margar ljúfar minningar sækja á þegar þetta er skrifað. Ég gæti látið gamminn geisa, en nú er mál að linni og með þessum fáu línum kveð ég góðan dreng.
Eftirlifandi eiginkonu hans, Guðrúnu Finnsdóttur, börnum þeirra og barnabörnum, votta ég samúð mína.
Óskar Þórmundsson
yfirlögregluþjónn.
Sigurgeir og Guðrún lögðu náttúrunni lið, voru mikið í garðinum, slá, bera áburð á túnið, rækta garðinn og dytta að húsinu og hver man ekki eftir kálgarðinum sem innihélt m.a. rófur, radísur, rabbabara og gulrætur í túninu heima við, þetta var okkar bland í poka sem Sigurgeir rétti okkur krökkunum oft yfir girðinguna.
Sigurgeir orti og gaf út þó nokkrar ljóðabækur. Einhver sagði að Guð hafi snert öxl manna sem eiga gott með að yrkja eitthvað að viti en Guð hefur snert báðar axlir Sigurgeirs. Margar góðar minningar eigum við um þig sem við varðveitum í hjörtum okkar. Við kveðjum þig með virðingu og þakklæti. Drottinn blessi þig Sigurgeir og fjölskyldu þína. Megi englar alheimsins fylgja þér hvert sem þú ferð
Hjalti Gústavsson og fjölskylda.
Ég svo lánsamur að alast upp í einu af þremur nýbyggðum raðhúsum við Mávabraut í Keflavík á 7. og 8. áratug síðustu aldar. Samheldni var mikil meðal íbúa í götunni og bundust þarna vináttubönd sem haldist hafa síðan. Heimili Geira og Gunnu var nánast mitt annað heimili meðan ég var að alast upp, því við Þorri, sonur þeirra urðum snemma nánir vinir og brölluðum margt saman, ásamt Gunna Gústavs sem bjó í næsta húsi.
Einu atviki man ég vel eftir úr móanum, en það kölluðum við svæðið milli götunnar og flugvallargirðingarinnar. Þar vorum við strákarnir eitthvað að bjástra í gömlum kofa sem þar stóð og áttum okkur einskis ills von, þegar kofinn fór allt í einu að skjálfa og nötra af barsmíðum og drungalegri rödd með þeim afleiðingum að við þustum eins og rakettur út um glugga og glufur á húsinu eins og við ættum lífið að leysa. Þá heyrðum við skellihlátur Geira sem mátti til með að hrella okkur litlu hetjurnar aðeins, þó tilgangur heimsóknarinnar hafi væntanlega verið að hóa í kvöldmatinn.
Geiri sást stundum skokka um hverfið, en það var óvenjulegt á þeim tíma að menn legðu slíkt fyrir sig. Hann var að styrkja hjartað. Geiri átti lengi Toyota-bíl, löngu áður en þeir bílar urðu vinsælir hér á landi.
Stundum fór hann með okkur strákana í bíó og þá gátu nú lítil hjörtu skroppið saman, t.d. þegar hann fór með okkur að sjá Drakúla í Félagsbíói þegar við vorum smáguttar. Hann hefur efalaust viljað herða okkur og styrkja.
Geiri var þrautseigur og þolinmóður, nefni ég sem dæmi gárann Kobba sem Geiri kenndi fleiri orð og setningar en ég hef heyrt úr nokkrum fuglsgoggi. „Góðan daginn Geiri, ég heiti Kobbi, góðan daginn,“ söng fuglinn.
Oft sá maður Geira sitja við skrifborðið og setja saman sína hugarsmíði, fyrst á ritvél og seinna á litla Macintosh Classic tölvu sem geymir efalaust margan fjársjóðinn. Geiri gaf sjálfur út nokkrar kvæðabækur, en margt er enn óútgefið, þar á meðal sagan um Tómas á Tungufelli sem hann var lengi að fást við.
Gunna og Geiri eignuðust sumarbústað við Þingvallavatn fyrir mörgum árum. Þar var þeirra sumarparadís og mikill sælureitur. Á sólbjörtum ágústdegi sl. sumar heimsóttum við fjölskyldan, ásamt móður minni, þau í bústaðinn. Geiri var svo stoltur þegar hann gekk um landareignina og sagði frá á sinn hátt. Síðdegisbirtan var falleg þennan dag og ég hefði viljað hafa myndavél meðferðis, en ég mun þó alltaf geyma í huganum minningu um þennan hávaxna, hjartahlýja mann sem sannarlega gat horft stoltur yfir uppskeruna af ævistarfi sínu.
Missir fjölskyldunnar er mikill og við Jóna Guðrún biðjum góðan Guð að styrkja alla aðstandendur. Sjálf þökkum við fyrir góða samfylgd við Sigurgeir Þorvaldsson.
Magnús Valur Pálsson.