„VERKIÐ gerist á góðæristímum þriðja áratugarins í Bandaríkjunum.

„VERKIÐ gerist á góðæristímum þriðja áratugarins í Bandaríkjunum. Góðærið er alveg að springa út, allar persónurnar eru mjög siðlausar, athyglissjúkar og gráðugar og kreppan bíður rétt við hornið,“ segir Tómas Oddur Eiríksson, formaður Verðanda, leikfélags Fjölbrautaskólans í Garðabæ um söngleikinn Chicago sem frumsýndur verður í sal skólans í dag. Hann segir að verkið eigi sérstaklega vel við á Íslandi í dag, á tímum kreppu og samfélagslegrar endurskoðunar.

Tómas fer sjálfur með eitt af aðalhlutverkunum í verkinu, hið sama og bandaríski leikarinn Richard Gere fór með í kvikmyndinni Chicago sem var einmitt valin besta myndin á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2003.

„Verkið er byggt á þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar sem hann gerði fyrir Borgarleikhúsið á sínum tíma. En við völdum að hafa kvikmyndina sem fyrirmynd,“ segir Tómas.

Mikil hefð er fyrir uppfærslu á söngleikjum í FG, en meðal verka sem sett hafa verið upp undanfarin ár má nefna Hárið, Rocky Horror, Litlu hryllingsbúðina og Öskubusku. | 42