Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is GUNNAR Örn Kristjánsson, lét af starfi sem stjórnarformaður Nýja Kaupþings síðdegis í gær, en hann var kjörinn stjórnarformaður bankans á mánudaginn sl.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

GUNNAR Örn Kristjánsson, lét af starfi sem stjórnarformaður Nýja Kaupþings síðdegis í gær, en hann var kjörinn stjórnarformaður bankans á mánudaginn sl.

Þær skýringar voru gefnar að við nánari skoðun hefði hann talið starfið „viðameira og fela í sér meiri bindingu“ en hann hefði aðstöðu til að inna af hendi. Gunnar rekur fasteignafélag sem byggir fjölbýlishús í Bratislava í Slóvakíu. Hann sagði í samtali við blaðamann í gær, áður en tilkynnt var um starfslokin, að hann myndi stýra því áfram samhliða störfum sínum fyrir Kaupþing. „Við erum ekki í neinum viðskiptum við íslenska banka og öll fjármögnun er við þarlenda aðila,“ sagði hann og bætti við að þetta myndi því ekki hafa áhrif á störf sín fyrir bankann. Aðspurður sagði hann Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherrahafa farið þess á leit við sig að taka að sér stjórnarformennsku.

Gunnar var ákærður á árinu 2004

fyrir að hafa, eftir endurskoðun á ársreikningum Tryggingasjóðs lækna fyrir árin 1992 til 2000, áritað þá án fyrirvara og með yfirlýsingu um að þeir gæfu glögga mynd af efnahag án þess að hafa aflað fullnægjandi gagna til að byggja á slíkt álit. Málið var sprottið af því að Lárus Halldórsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, var sakfelldur fyrir fjárdrátt og bókhaldsbrot. Gunnar var sýknaður á báðum dómstigum og var rannsókn efnahagsbrotadeildar í máli hans harðlega gagnrýnd í niðurstöðu Hæstaréttar.

Gunnar sagði í samtali við blaðamann að þetta mál myndi ekki skyggja á störf sín hjá Kaupþingi, það væri öllum ljóst sem læsu dómsniðurstöðu Hæstaréttar, enda hefði nafn sitt verið hreinsað með sýknu.

Gunnar var, þar til í september, einn eigenda og stjórnarformaður Bræðranna Ormsson en félagið var selt til nýrra eigenda í haust. „Við seldum félagið ekki á góðu verði, það liggur fyrir,“ sagði Gunnar, en var ekki tilbúinn að gefa upp hversu mikið hann hefði tapað á fjárfestingunni.