Vilborg Kristín Stefánsdóttir fæddist í Hafnarfirði 21. mars 1928. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 19. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Anna Anika Jakobsdóttir, f. 13.11. 1895, d. 5.11. 1960 og Stefán Hannesson, f. 30.10. 1896, d. 31.12. 1996. Systkini Vilborgar eru: Bjargey Hólmfríður Halldóra, f. 1920, d. 1924, Bjarni Guðmundur Árni, f. 1923, d. 1925, og Bjargey Fjóla, f. 1925. Sammæðra er Kristjana Kristjánsdóttir, f. 1915, d. 1992. Samfeðra er Jóhanna Rósa, f. 1933, d. 1967. Í júní 1946 giftist Vilborg Ingólfi Agnari Gissurarsyni húsgagnabólstrara, f. 7.8. 1923, d. 26.3. 2004. Börn þeirra eru: 1) Guðrún, f. 14.3. 1948, gift Haraldi H. Jónssyni. Synir þeirra eru Ragnar og Ingólfur. 2) Gissur Sveinn, f. 20.8. 1950, kvæntist Sólveigu Aradóttur, þau skildu. Börn þeirra eru Vilborg Arna og Sæmundur Kristinn. Sambýliskona Gissurar er Lovísa Þorleifsdóttir. 3) Sæmundur Kristinn, f. 24.5. 1953, kvæntist Ólöfu Björnsdóttur, þau skildu. Dóttir þeirra er Sigurborg. Kvæntur Sigþrúði Hilmarsdóttur. Börn þeirra eru Atli, Guðrún og Agnar. Sonur Sigþrúðar er Evert Ingjaldsson. 4) Auður, f. 3.11. 1958, gift Ólafi Sigurgeirssyni. Börn þeirra eru: Gerður Björk, Ingólfur Agnar og Aðalsteinn. 5) Helga, f. 15.5. 1966, gift Pétri S. Valtýssyni. Synir þeirra eru Olgeir Frits og Valtýr Ingi. 6) Arna, f. 4.9. 1968, gift Páli Hreinssyni. Börn þeirra eru Guðrún, Hreinn og Anna. Vilborg og Ingólfur eiga níu barnabarnabörn sem eru: Hafsteinn Fannar og Birkir Orri Ragnarssynir, Ólöf Eiríksdóttir, Rakel Jóna, Kristinn og Lína Rut Ásbjörnsbörn, Sædís Birta Stefánsdóttir, Óskar Andri og Tristan Dagur Kristjánssynir.

Auk húsmóðurstarfa vann Vilborg lengst af við húsgagnaverslun þeirra hjóna, Bólstrun Ingólfs, og einnig í mötuneyti Stöðvar 2, mötuneyti Iðnskólans í Reykjavík og Grandaskóla.

Útför Vilborgar fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin kl. 13.

Vilborg Stefánsdóttir tengdamóðir mín fæddist í Hafnarfirði 21. mars 1928. Þegar hún var þriggja ára skildu foreldrar hennar og flutti hún með móður sinni til Reykjavíkur. Í miðri kreppunni var Anna móðir hennar ein með þrjár dætur og það er erfitt fyrir nútímamenn að ímynda sér þær aðstæður, sem einstæð móðir með þrjú börn bjó við á þessum tíma. Þær bjuggu í einu herbergi með aðgang að eldhúsi sem þær deildu með öðrum. Anna vann myrkranna á milli til að sjá sér og dætrum sínum farborða. Þessar aðstæður höfðu mótandi áhrif á Boggu og alltaf fann maður þetta sterka sjálfstæði og það að þiggja ekki af öðrum og einnig mátti hún aldrei neitt aumt sjá án þess að hún vildi gera eitthvað í málinu.

Ung að árum kynntist hún Ingólfi Agnari Gissurarsyni húsgagnabólstrara og þau giftu sig í júní 1946. Fyrstu árin bjuggu þau í húsi foreldra Ingólfs á Fjölnisvegi 6, síðan á Bugðulæk 13 og þar á eftir í mörg ár í Melgerði 5. Síðustu árin bjuggu þau á Kleppsvegi 34 og eftir að Ingólfur lést 2004 bjó Vilborg á Hjúkrunarheimilinu Eir. Bogga og Ingólfur eignuðust sex börn sem eru: Guðrún, Gissur, Sæmundur, Auður, Helga og Arna. Anna móðir Boggu bjó á heimili þeirra hjóna til dauðadags 1960.

Heimili Boggu og Ingólfs var afar smekklegt og búið fallegum húsgögnum, þau voru mjög gestrisin, oft mikill gestagangur og mikið líf og fjör.

Bogga var afar söngelsk, hafði fallega söngrödd, kunni ógrynni laga og alltaf var sungið þegar fjölskyldan kom saman. Í minninguna koma margar góðar stundir á heimili þeirra hjóna og þar sem þessi stóra samhenta fjölskylda fór saman í ferðalög og hélt sína eigin útihátíð.

Mikill samgangur og vinátta var á milli heimila Boggu og Bjargeyjar systur hennar og segja má að þær hafi hist eða talað saman á hverjum degi.

Bogga var mikil hannyrðakona, saumaði föt, prjónaði og eftir hana liggja fjölmörg útsaumsverk sem mörg eru hrein listaverk. Hún tók virkan þátt í kvenfélagi Bústaðasóknar og átti þar margar ánægjustundir.

Í fjölmörg ár ráku Bogga og Ingólfur saman húsgaganverslun, Bólstrun Ingólfs, sérverslun með rókokkóhúsgögn. Margir þekktir fagurkerar voru fastir viðskiptavinir þeirra hjóna. Eftir að þau hættu rekstri verslunarinnar vann Bogga m.a. í mötuneyti Stöðvar 2 og mötuneyti Iðnskólans í Reykjavík og Grandaskóla.

Ég kveð með söknuði og virðingu ástkæra tengdamóður mína. Með lífsgleði sinni og jákvæðum viðhorfum var hún okkur sönn fyrirmynd.

Haraldur H. Jónsson.

mbl.is/minningar