Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is BJARNI Benediktsson, alþingismaður og frambjóðandi til formennsku í Sjálfstæðisflokknum, kveðst ekki fráhverfur hugmyndum Framsóknarflokksins um að allar húsnæðisskuldir og skuldir fyrirtækja verði færðar niður um 20%.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

BJARNI Benediktsson, alþingismaður og frambjóðandi til formennsku í Sjálfstæðisflokknum, kveðst ekki fráhverfur hugmyndum Framsóknarflokksins um að allar húsnæðisskuldir og skuldir fyrirtækja verði færðar niður um 20%.

„Ég held að það sé staðreynd að aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til í vetur og birtast í frumvörpum sem eru núna til meðferðar í þinginum muni ekki duga til að koma nægilega til móts við vanda heimila og atvinnulífsins. Ég tel að það þurfi að taka stærri og meira afgerandi skref og mér finnst að afskriftir skulda eigi að koma fyllilega til greina í því samhengi,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið í gær.

Þarf ekki að auka útgjöld

Bjarni sagði að ef það væri rétt, líkt og rætt hefði verið um, að eignasöfn gömlu bankanna verði færð í nýju bankana með gríðarlegum afskriftum, þá væri búið að draga upp þá mynd að viðskiptavinir bankanna væru í og myndu verða í gríðarlegum vandræðum. Það svigrúm sem bankarnir hefðu vegna þess að þeir keyptu eignasöfnin á niðursettu verði, væri það svigrúm sem hugmyndin um niðurfellingu skuldanna gengi m.a. út á að nýta. „Það er út af fyrir sig alveg rétt að þetta þurfi ekki að leiða til útgjalda [fyrir ríkið]. Þvert á móti má halda því fram að með því að bankarnir gangi fram af fullri hörku og láti reyna á innheimtu alls eignasafnsins þá muni það á endanum valda ríkinu mun meira tjóni.“

Bjarni tók fram að menn yrðu að sýna ákveðna varkárni í málinu og óvíst væri að 20% væri rétt tala. „En menn verða fyrst að staldra við þá staðreynd að ef það er verið að tala um allt að 50% niðurfærslu á kröfunum, hvaða mynd er verið að draga upp af stöðu íslensks atvinnulífs? Það er einhver dekksta mynd sem hefur verið dregin upp í nokkurri krísu sem dunið hefur yfir lönd og við höfum verið að skoða til samanburðar. Þetta er meiri kreppa í atvinnustarfseminni en dæmi eru um. Og til að bregðast við því dugir ekki að lengja í lánum og fresta aðfarargerðum,“ sagði hann. Það væri mjög óábyrgt að ýta þessari hugmynd út af borðinu nema menn hefðu aðrar útfærslur sem væru líklegar til að taka á vandanum með sama hætti.

Bjargar ekki þeim skuldugustu

Í þeim hugmyndum sem Framsóknarflokkurinn kynnti var fjallað um að það gæti verið álitamál að þeir sem skuldi mikið fái hærri upphæð fellda niður, að niðurfærsla gagnaðist þeim best sem skulda mest. Bjarni sagði að það væri alveg klárt að niðurfærslan sem um væri rætt myndi ekki duga til að bjarga þeim sem eru verst settir. Þeir sem væru skuldlausir yrðu að spyrja sig hvort þeim litist á umhverfið ef innheimtur bankanna myndu ganga af 40% af atvinnulífinu dauðu. Að sjálfsögðu væru engar hugmyndir gallalausar. Hann hefði hitt forsvarsmenn fyrirtækja sem skulduðu lítið eða ekkert en þeir hefðu sagt að ef ekki yrði tekið í taumana og hjólum atvinnulífsins komið í gang á nýjan leik myndu fyrirtæki einnig fara á hausinn, jafnvel á einu ári. „Það hafa öll fyrirtæki hagsmuni af því að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki og við erum í stórhættu á að það gerist.“