Enga farsíma Miðlarar eiga að skjalfesta samskipti sín við viðskiptavini.
Enga farsíma Miðlarar eiga að skjalfesta samskipti sín við viðskiptavini. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Önund Pál Ragnarsson onundur@mbl.is MEGINREGLAN hjá gömlu viðskiptabönkunum var sú að samskipti starfsmanna þeirra við viðskiptavini áttu að vera hljóðrituð eða til í tölvupóstum eða faxsendingum, þegar um verðbréfaviðskipti var að ræða. T.d.

Eftir Önund Pál Ragnarsson

onundur@mbl.is

MEGINREGLAN hjá gömlu viðskiptabönkunum var sú að samskipti starfsmanna þeirra við viðskiptavini áttu að vera hljóðrituð eða til í tölvupóstum eða faxsendingum, þegar um verðbréfaviðskipti var að ræða. T.d. fyrirmæli um kaup eða sölu. Sú lagaskylda hvíldi á bönkunum að hafa öll slík samskipti staðfest og skjalfest með einhverjum hætti. Þessi gögn átti að geyma í fimm ár frá því viðskiptin áttu sér stað, samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti. Samskipti við viðskiptavini voru hins vegar ekki svona formföst vegna lánafyrirgreiðslu og ekki skylda að skrásetja öll orðaskipti. Lánapappírar eiga þó allir að liggja fyrir.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði í Kastljósi á þriðjudag að hundruð einkahlutafélaga hefðu fengið sérmeðferð í bönkunum fyrir hrun þeirra. Þessu hefði verið ýtt til hliðar og það ekkert rannsakað, sem sé fyrir neðan allar hellur. Hjá Fjármálaeftirlitinu fengust þau svör í gær að í þessu sambandi gæti stofnunin einungis vísað til þess sem fram hefur komið um rannsóknir hennar og óháðra sérfræðinga. Þ.e. að FME lét skilanefndir gömlu bankanna skipa endurskoðendateymi til að skoða hugsanleg lögbrot innan bankanna, en starfsmenn FME skoðuðu sjálfir til dæmis verðbréfaviðskipti innan þeirra í aðdraganda hrunsins.

Davíð sagði einnig að í ýmsum tilvikum hefðu samskipti um þessa sérmeðferð ekki verið hljóðrituð eins og skylt er. Þau hafi þess í stað átt sér stað með hjálp farsíma eða starfsmenn jafnvel gengið milli hæða á starfsstöðvum banka til að fá munnleg fyrirmæli frá yfirmönnum um þjónustu við slík félög.

Ekki verður þetta rengt hér, enda náðist í fæsta stjórnendur gömlu bankanna við vinnslu fréttarinnar. Þeir sem náðist í vildu ekkert láta hafa eftir sér undir nafni.

Margt bendir hins vegar til að ekki hafi einungis hin meinta óeðlilega sérmeðferð farið á svig við samskiptareglurnar. Slík tilvik voru alls ekki fáheyrð og verða líklega ekki bein ávísun á sérmeðferð við rannsókn á lögbrotum innan bankanna.

Vildu ekki láta hljóðrita sig

Samkvæmt eftirgrennslan var allur gangur á því hvort verðbréfamiðlarar fóru eftir reglum í samskiptum við viðskiptavini. Að sögn lögfræðings sem starfað hefur lengi í þessu umhverfi vildu margir viðskiptavinir eiga í persónulegum samskiptum við sína verðbréfamiðlara og hringdu oftar en ekki í farsíma þeirra með fyrirmæli. Þá hafi miðlarar reynt að hringja til baka úr hljóðrituðum síma, enda hafi FME lagt áherslu á að öll samskipti væru skrásett. Það hafi bara ekki alltaf verið tæknilega mögulegt auk þess sem eitthvert hlutfall viðskiptavina hafi helst aldrei viljað tala í hljóðritaða síma, af ótilgreindum ástæðum. Reglurnar voru því strangar en eftirfylgnin við þær oft slök. Eftir stendur að Davíð tók ekki skýrt fram hvort hann átti við verðbréfaviðskipti, lánafyrirgreiðslu eða eitthvað annað.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari vegna bankahrunsins, segir að viðtalið við Davíð hafi ekki gefið tilefni til frumkvæðis af hálfu síns embættis, en að hann hvetji Davíð til að koma á framfæri við sig öllum upplýsingum sem geti leitt til ákæru. Um sérmeðferð við einkahlutafélög innan gömlu bankanna segir Ólafur að hafi fyrrnefnd endurskoðendateymi skilanefndanna fundið eitthvað misjafnt í rekstri þeirra komi það inn á hans borð.

Í hnotskurn
» Varðveita skal í fimm ár gögn um öll viðskipti með fjármálagerninga. Þau skulu m.a. innihalda upplýsingar sem skylt er að afla á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.