TM Software og Icelandair hafa endurnýjað samstarfssamning sinn um þróun og þjónustu á upplýsingatæknikerfum hjá Icelandair Group. Segir í tilkynningu frá TM Software að fyrirtækin hafi átt farsælt samstarf um árabil.
Fram kemur í tilkynningunni að nýlega hafi starfsmenn TM Software endurhannað vefsvæði Icelandair sem nú séu flest komin á eitt og sama veftréð sem auðveldi allt utanumhald og dragi verulega úr kostnaði fyrirtækisins. Eins hafi sérfræðingar TM Software hannað farsímavef fyrir Icelandair þar sem farþegar geti fylgst með komum og brottförum ásamt því að nálgast ýmsar aðrar mikilvægar upplýsingar. Auk þess hafi TM Software séð um viðhald, þróun og samþáttun ýmissa innri kerfa Icelandair.
Segir í tilkynningunni að stefna Icelandair sé að veita viðskiptavinum sínum gæðaþjónustu. Liður í því er að halda úti framúrskarandi vefsvæði sem stór hluti viðskipta fyrirtækisins fari í gegnum.