— Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is KRISTJÁN Loftsson, forstjóri Hvals hf., segir að um 30 manns verði til sjós við hvalveiðar á vegum fyrirtækisins í sumar og að reikna megi með að um 170 manns verði við störf í landi.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

KRISTJÁN Loftsson, forstjóri Hvals hf., segir að um 30 manns verði til sjós við hvalveiðar á vegum fyrirtækisins í sumar og að reikna megi með að um 170 manns verði við störf í landi.

Hann hafði ekki upplýsingar um hvernig störfin í landi skiptust á milli hvalskurðar, verkunar og annars en byggði þetta mat á reynslu sinni af hvalveiðum. Fjöldinn, þ.e. 200 starfsmenn, eigi við um fyrirtækið í fullum rekstri. Mat á fjölda starfsmanna geti þó aldrei verið nákvæmt. Þetta muni koma betur í ljós í maí. „Við erum ekki í gangi nema kannski fimm mánuði á ári en svo þarf líka að undirbúa starfsemina. Þú hleypur ekki bara strax af stað,“ sagði Kristján. Aðspurður sagðist Kristján ekki vita um hve mörg ársstörf væri að tefla. „Það veit ég ekki. Ég hef ekki reiknað það út.“ Þá væri ekki víst að hann þyrfti að auglýsa eftir starfsfólki því margir hefðu hringt og spurst fyrir um störf við hvalveiðarnar.

Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf., telur að um 20-30 manns muni vinna við veiðar og vinnslu á hrefnu í sumar. Miðað við núverandi kvóta má veiða 100 hrefnur en Gunnar vonast eftir kvóta upp á 200 dýr.

Miðað við 200 dýra kvóta gerir hann ráð fyrir 24-28 ársstörfum við hrefnuveiðar en um 16-20 ársstörfum ef kvótinn verður 100 dýr.