INDRIÐI Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður norska liðsins Lyn í Ósló, er eftirsóttur þessa dagana. Á dögunum báru norsku meistararnir í Stabæk víurnar í Indriða og í gær voru það bikarmeistararnir í Vålerenga sem settu sig í samband við Lyn með það fyrir augum að fá Indriða. Forráðamenn Lyn höfnuðu hins vegar báðum tilboðunum í íslenska landsliðsmanninn.
,,Tilboðið sem við fengum í Indriða frá Vålerenga í dag var ekki spennandi,“ sagði Rolf Magne, yfirmaður knattspyrnumála hjá Lyn, í samtali við við norska netmiðilinn
Nettavisen.
,,Svo lengi sem Lyn hefur ekki sagt já þá er ég lítið að spá í þessa hluti. Ég er samningsbundinn Lyn og vil spila áfram með liðinu,“ sagði Indriði við Nettavisen en með liðinu leika einnig Theódór Elmar Bjarnason og markvörðurinn Arnar Darri Pétursson.
Indriði er 27 ára gamall og gekk til liðs við Lyn árið 2006. Hann var einn af lykilmönnunum Óslóarliðsins og lék 24 af 26 leikjum liðsins á síðustu leiktíð. Hann framlengdi samning sinn við félagið í fyrra og er samningsbundinn því til ársins 2011. Indriði lék í þrjú ár með Genk í Belgíu og þar áður var hann í fjögur tímabil með Lilleström í Noregi.
gummih@mbl.is