ÞRÍTUG kona sem grunuð er um milligöngu um vændi verður í gæsluvarðhaldi til klukkan 16 á morgun, þ.e. ef ekki verður farið fram á framlengingu varðhaldsins.

ÞRÍTUG kona sem grunuð er um milligöngu um vændi verður í gæsluvarðhaldi til klukkan 16 á morgun, þ.e. ef ekki verður farið fram á framlengingu varðhaldsins. Hún kærði gæsluvarðhaldsúrskurð til Hæstaréttar en málinu var vísað frá sökum annmarka á kærunni.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglu hafi borist upplýsingar þess efnis að konan og unnusti hennar ætluðu sér að flytja til landsins mikið magn af fíkniefnum. Lögreglu bárust svo upplýsingar um að unnustinn hefði verið handtekinn á Schiphol-flugvelli með fíkniefni. Konan var handtekin við komuna til landsins á föstudag fyrir viku.

Þá lá fyrir rökstuddur grunur lögreglu um að konan hefði lífsviðurværi sitt af vændi annarra og stundaði mansal ungra kvenna hingað til lands í því skyni. Var gæsluvarðhaldið samþykkt á þeim grunni. andri@mbl.is