Málin rædd Poul M. Thomsen, hagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sést hér ræða við Friðrik Má Baldursson.
Málin rædd Poul M. Thomsen, hagfræðingur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sést hér ræða við Friðrik Má Baldursson. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Magnús Halldórsson magnush@mbl.is STARFSMENN Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) komu hingað til lands í gær og funda með íslenskum stjórnvöldum um framgang sameiginlegrar efnahagsáætlunar fram til 10. mars.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@mbl.is

STARFSMENN Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) komu hingað til lands í gær og funda með íslenskum stjórnvöldum um framgang sameiginlegrar efnahagsáætlunar fram til 10. mars.

Forsætisráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur fer með málefni Íslands er varðar samskipti við sjóðinn, þó að margar stofnanir og ráðuneyti komi einnig að vinnu við áætlunina.

Öðru fremur ætla starfsmenn IMF, undir forystu hagfræðingins Mark Flanagan, að leggja mat á stöðu efnahagsmála eins og mál standa nú.

Björn Rúnar Guðmundsson, deildarstjóri efnahags- og alþjóðamálaskrifstofu ráðuneytisins, hefur tekið við keflinu af Bolla Þór Bollasyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, sem helsti fulltrúi ráðuneytisins í samstarfinu við sjóðinn. Björn Rúnar segir mikla áherslu verða lagða á það, í viðræðum við IMF, að kannað verði ítarlega hvort skilyrði séu fyrir lækkun stýrivaxta sem nú eru 18 prósent. „Heimsóknin er hluti af fyrirfram ákveðinni áætlun. Farið verður yfir stöðu mála hér á landi og hún greind eins vel og kostur er. Það verður rætt við fjölmarga, embættismenn, ráðherra og greinendur hagsmunasamtaka og banka. Við vonumst auðvitað til þess að geta sannfært þá [starfsmenn IMF innsk. blm.] um að hér séu komin skilyrði fyrir lækkun vaxta,“ segir Björn Rúnar.

Forgangsatriði í efnahagsáætlun stjórnvalda og IMF er að koma á meiri stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og byggja upp bankakerfið að nýju.

Engin pólitík

Í viðtali við Flanagan um fyrirhugaða Íslandsheimsókn, sem birtist á vefsíðu IMF 24. febrúar sl., kemur fram að hann hafi ekki áhyggjur af nýafstöðun stjórnarskiptum hér á landi. Yfirlýsing frá nýrri ríkisstjórn, um að áætlun IMF og stjórnvalda verði fylgt áfram, sé það sem öllu máli skipti. „Margar þjóðir hafa gengið í gegnum kosningar, á sama tíma og unnið er eftir efnahagsáætlun IMF, án þess að nokkuð hafi gerst. Aðalatriðið er að IMF styður góðar áherslur. Svo lengi sem þær eru fyrir hendi munum við styðja þær,“ er haft eftir Flanagan.

Hann segir að tekist hafi að ná meginmarkmiðum áætlunarinnar, litið til skamms tíma. Það hafi öðru fremur verið að koma í veg fyrir að gengi krónunnar félli of mikið, með alvarlegum afleiðingum fyrir íslenskan efnahag. Það hefði getað komið sér illa fyrir fyrirtæki og heimili. Þá hefði verðbólga einnig aukist mikið, jafnvel um tugi prósenta, sem hefði hækkað hefðbundin verðtryggð lán mikið og aukið þannig á skuldabyrði fólks.

Gripið var til þess að setja á gjaldeyrishöft til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta úr íslensku hagkerfi, í kjölfar bankahrunsins.

Bankakerfið komist í gang

Í forgangi er nú að koma bankakerfinu í gang, og ljúka við verðmat á eignum og skuldum gömlu bankanna. Stefnt er að því að ljúka þeim málum fyrir 15. apríl. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að þeirri vinnu gæti lokið um miðjan þennan mánuð, en eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu reyndist vinnan við matið umfangsmeiri en gert var ráð fyrir. Þegar verðmatinu lýkur er fyrst hægt að leggja nýju bönkunum til eigið fé sem áætlað er að verði 385 milljarðar króna, miðað við a.m.k. 10 prósent eiginfjárhlutfall. Þá verður einnig búið að leggja fram efnahagsreikninga bankanna. Nokkurrar óvissu gætir þó um framtíðarskipulag bankakerfisins þar sem töluverðrar hagræðingar er þörf. Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra sagði á Alþingi fyrr í vikunni að nokkuð ljóst væri að ríkisbankarnir væru of margir og of stórir, miðað við starfsemi þeirra.

Áætlað er að vextir geti lækkað hratt frá á næstu vikum eða mánuðum, samhliða lækkandi verðbólgu.

Byrjað í fjármálaráðuneytinu

STARFSMENN Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eiga fund með starfsmönnum í fjármálaráðuneytinu klukkan níu í dag, þar sem fundaherferð þeirra hefst. Dagskrá starfsmanna sjóðsins er þétt næstu tvær vikurnar. Eftir dvöl þeirra hér, og fundi með stjórnvöldum og hagsmunasamtökum, skrifa þeir skýrslu um horfur í íslensku efnahagslífi. Stjórn sjóðsins tekur svo afstöðu til hennar og endurskoðar efnahagsáætlun sjóðsins og íslenskra stjórnvalda ef tilefni þykir til.

Haft er eftir Mark Flanagan, hagfræðingi sjóðsins, á vefsíðu sjóðsins 24. febrúar að aðstæður hér séu ekki úr takti við það sem áætlunin byggist á. Líklegt er að fundað verði um heildstæða áætlun stjórnvalda þegar kemur að ríkisfjármálum, og hvernig fjárlög næstu ára muni líta út.