Skapandi Markpóstur getur verið í formi pakka eða bre´fs svo fátt eitt sé nefnt en persónulega stílaðar sendingar vekja athygli.
Skapandi Markpóstur getur verið í formi pakka eða bre´fs svo fátt eitt sé nefnt en persónulega stílaðar sendingar vekja athygli.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Markpóstur er sterkur og persónulegur auglýsingamiðill en kannanir sýna að tæplega 76 prósent markaðsstjóra nota markpóst í sinni markaðssetningu. Markpóstur er sívaxandi leið til að ná betur til viðskiptavina, sérstaklega í árferði eins og nú.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Meðal tilnefninga til Lúðursins á ári hverju eru tilnefningar fyrir markpóst. Samkvæmt könnun Capacent Gallup í mars 2008 skoða 68,3 prósent landsmanna markpóst sem stílaður er á nafn, 75 prósent kvenna og 62 prósent karla. Markpóstur er því áhrifamikill auglýsingamiðill en könnunin sýndi einnig að 75,7 prósent markaðsstjóra nota markpóst í sinni markaðssetningu og 69,9 prósent telja að hann sé áhrifamikill auglýsingamiðill.

„Í raun eru til tvær leiðir, fjölpóstur og markpóstur, sem eru notaðar svolítið hvor í sínum tilganginum. Markpóstur er sterkur og persónulegur auglýsingamiðill sem er yfirleitt notaður til að senda á útvalinn markhóp þar sem hægt er að höfða til ólíkra markhópa á mismunandi tímum. Þá er verið að leita eftir ákveðnum hópi fólks, til dæmis eftir aldri, kyni eða stétt og þannig gefst fyrirtækinu tækifæri til að hafa bein samskipti við sinn markhóp. Hvor leiðin er valin byggist oftast á starfsemi viðkomandi fyrirtækis og þeim skilaboðum sem það vill senda frá sér. Í báðum tilvikum er það í raun hugmyndaflugið sem ræður en hvað fjölpóstinn varðar þá eru þau takmörk sett að hann þarf að passa inn um lúguna en markpóstinn má senda eða keyra út beint til einstaklinga og fyrirtækja,“ segir Elvar Bjarki Helgason, forstöðumaður söludeildar Íslandspósts. Hann segir fjölpóst mikið notaðan til að senda á einstaklinga og fyrirtæki í ákveðnum póstnúmerum eða svæðum enda mjög ódýr og góð leið til að ná til viðskiptavina. Ennfremur er hægt að semja um dreifingu á ákveðnum dögum sem getur verið mjög hentugt.

Hagkvæm leið

Kostnaður við markpóst getur verið mismunandi eftir þyngd og stærð en á móti kemur að fyrirtæki velja sér að hafa samskipti við aðeins útvalinn hóp og geta þannig beint auglýsingakostnaðinum betur að sínum markhópi. Elvar Bjarki segir markpóst vera sífellt vaxandi leið til að ná betur til viðskiptavina, sérstaklega í árferði eins og nú þar sem menn séu að leita hagkvæmari leiða til að ná til markhópa. Markpóstur hafi aukist með árunum og í gerð hans hafi menn lagt aukna áherslu á hönnun og að gera hann þannig betur og á faglegri hátt.