HUGMYNDIN um „vonda banka“ virðist njóta æ meiri hylli í þeim löndum þar sem „eitraðar eignir“, fjárfestingar eða útlán, sem ekki munu innheimtast, hafa lamað eðlilega útlánastarfsemi. Bankatiltektin í Svíþjóð snemma á 10. áratug síðustu aldar er oft nefnd sem dæmi um hve góðum árangri þetta fyrirkomulag getur skilað en oft eru ekki alveg réttar ályktanir dregnar af reynslu okkar Svía vegna misskilnings á því, sem gert var, og á því hvernig kerfið virkaði.
Það voru ekki stjórnmálamenn, sem höfðu frumkvæði að því að koma á fót „vondum banka“, heldur stjórnendur Nordbanken. Eftir slæman rekstur og ábyrgðarlausa útlánastarfsemi árum saman varð bankinn fyrsta stóra fórnarlamb niðursveiflunnar á fasteignamarkaði.
Nordbanken var þjóðnýttur og nýrri stjórn var falið að annast endurreisn hans. Það kom hins fljótt í ljós, að nýju stjórnendurnir höfðu engan tíma til að sinna eiginlegri bankastarfsemi, heldur voru þeir uppteknir við að greiða úr hinu mikla og fjölbreytta eignasafni hans. Enginn ársfjórðungur leið án þess tilkynnt væri um nýjar afskriftir, sem eyðilögðu allar tilraunir til að endurheimta traust á honum sem bankastofnun.
Lausnin róttæka fólst síðan í því að skilja frá allar eignir, sem ekki snertu grunnstarfsemi bankans, aðallega fasteignafélög en einnig framleiðslu-, byggingar- og þjónustufyrirtæki.
„Vondi bankinn“, Securum, var stofnaður í þessum tilgangi en hann þurfti að fá mikið fé frá eiganda sínum, sænskum stjórnvöldum. Að því búnu réð hann til sín fólk, sem kunni að gera sem mest úr eignunum strax og markaðurinn jafnaði sig enda hafði bankinn nú getu til að bíða þess. Það, sem eftir var af Nordbanken, sem nú heitir Nordea, varð síðar að stærsta banka á Norðurlöndum.
Það var ólíkt með ástandinu þá og nú, að „eitruðu eignirnar“ voru yfirleitt heilu fyrirtækin en ekki flókin verðbréfasöfn eða vafningar. Aftur á móti var sama staðan uppi þá og nú að því leyti, að það var enginn markaður fyrir eignirnar. Þær var ekki unnt að selja nema á svokallaðri brunaútsölu og hefði það verið reynt, hefði það valdið verðhruni á öllum öðrum eignum í efnahagslífinu og enn meira hruni í fjármálakerfinu.“
Höfum það í huga, að markmiðið var ekki að losa einkabankana við „eitruðu eignirnar“. Þegar aðrir bankar fóru að fordæmi Nordbankens og komu á fót sínum eigin „vonda banka“, gerðu þeir það án afskipta ríkisvaldsins. Það gátu þeir gert en þó aðeins vegna þess, að ríkið átti nú allar eignirnar og af þeim sökum þurftu þeir ekki að ráðast í það vonlausa verkefni að verðleggja þær.
Af pólitískum ástæðum kom það aldrei til greina að bjarga fyrri eigendum einkabankanna með opinberu fé og hugmyndin um „vondan banka“ utan um eignir í einkaeigu var því ekki heldur inni í myndinni.
Er ég varð fjármálaráðherra Svíþjóðar 1994 var aðeins farið að rofa til. Horfið hafði verið frá fastgengisstefnu og lágum vöxtum og afleiðingin var eðlilega sú, að gengi krónunnar lækkaði. Þá greip ríkisstjórnin til árangursríkra og víðtækra aðgerða í því skyni að loka fjárlagahallanum, sem var 12% af vergri þjóðarframleiðslu.
Smám saman jókst traustið á nýjan leik og fjármálamarkaðirnir tóku við sér. Þegar færi gafst tókum við til við að einkavæða eignirnar og eftir fá ár hætti Securum starfsemi. Þegar horft er til baka held ég, að við höfum selt eignirnar fullfljótt. Skattborgararnir hefðu fengið meira fyrir sinn snúð, hefðum við beðið, enda hélt verðið áfram að hækka í langan tíma. Hér varð þó jafnaðarmennskan yfirsterkari lönguninni til að hagnast.
Lexían, sem draga má af reynslu Svía, er þessi:
* „Vondur banki“ getur komið að góðum notum við að endurheimta eignir og endurreisa bankastarfsemi.
* Þótt reynsla Svía sé af hlutabréfum í fyrirtækjum, sem sett voru að veði fyrir lánum, en ekki af verðbréfum eða slíkum fjármálatækjum, þá er líklegt að svipuð staða komi nú víða upp vegna kreppunnar; að fyrirtæki komist í þrot og bankar innkalli þau veð, sem þeir hafa í skuldsettum fyrirtækjum.
* Opinber niðurgreiðsla við „vondan banka“ í einkaeigu eða „vondan banka“ í opinberri eigu, sem stofnaður er utan um „eitraðar eignir“ í einkaeigu, er röng í samanburði við bein og eðlileg fjárframlög. Niðurgreiðslur eiga að vera gagnsæjar en „vondir bankar“, í einkaeigu eða opinberri, eru það ekki.
* Mikilvægt er, að „vondu bankarnir“ séu skipaðir hæfu og reyndu fólki, sem ekki tengdist fjármálahneykslinu. Reynslan í Svíþjóð var mjög góð. Það gekk betur en við áttum von á að fá gott fólk til Securum enda þótti öllum það mikill virðingarvottur að fá að vinna í þágu þjóðarinnar á þessum nýja vettvangi.
* Leiðarljósið verður að vera að gera sem mest úr eignunum í þágu skattborgaranna en hugmyndafræði að stjórnmál mega ekki koma þar við sögu. Um þetta má almenningur aldrei efast enda er ekkert mikilvægara en að hann hafi trú og traust á því, sem verið er að gera.
Höfundurinn situr á þingi fyrir jafnaðarmenn og var iðnaðar- og viðskiptaráðherra og menntamálaráðherra í ríkisstjórn Göran Perssons. 1994 varð hann fjármálaráðherra.