SÍMINN hækkar verð á þjónustu sinni frá og með næstu mánaðamótum, hvort heldur er vegna símanotkunar, áskrifta, sjónvarps eða netþjónustu. M.a.

SÍMINN hækkar verð á þjónustu sinni frá og með næstu mánaðamótum, hvort heldur er vegna símanotkunar, áskrifta, sjónvarps eða netþjónustu. M.a. verður nú tekið gjald fyrir leigu á netbeinum og myndlyklum, séu notendur ekki með net- eða sjónvarpsáskrift hjá fyrirtækinu.

Tekið verður 600 króna gjald fyrir myndlyklana og 350 króna gjald fyrir netbeinana frá og með næstu mánaðamótum en á sínum tíma var grunnpakki Sjónvarps Símans auglýstur sem ókeypis. „Á þeim tíma þegar ákveðið var að bjóða þetta á núll krónur gekk það dæmi upp. En svo breytist heimurinn og þá horfir þetta öðruvísi við,“ segir Margrét Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. Aðspurð segir hún ekki komið aftan að fólki með gjaldtökunni. „Fólk fékk að vita af þessu með mánaðar fyrirvara og hefur þá tök á því að skila þessum tækjum.“

Hún bætir því við að kostnaður hafi aukist við kaup á tækjunum og gjöldin séu m.a. sett á „í þeim tilgangi að halda betur utan um þann búnað sem viðskiptavinur leigir af okkur“. ben@mbl.is

Í hnotskurn
» Upphafsgjald símtals í Frelsi hækkar úr 4,50 kr. í 5,90 kr. eða um rúmt 31%. Upphafsgjald í GSM-áskriftum hækkar úr 4,15 í 4,90 eða um rúm 18%.
» Grunnáskrift heimasíma hækkar úr 1595 kr. í 1645 kr. Áskrift TAL sambands hækkar einnig um 100 kr.