Ekki er annað hægt en taka undir þegar nýjum tölum Barnahúss yfir börnin sem þangað leita vegna kynferðisofbeldis er líkt við faraldur. Myndi heilbrigðiskerfið skella skollaeyrum við því ef 323 börn leituðu til lækna vegna gruns um berkla? Það er ólíklegt.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, notar berklasamlíkinguna í fréttaskýringu Ágústs Inga Jónssonar í Morgunblaðinu í gær og segir að hvergi annars staðar séu mál vegna kynferðisbrota gegn börnum hlutfallslega jafnmörg og hér. Vandinn sé vaxandi.
Um 7-7,5% líkur eru á því að barn sem fæðist í dag komi til rannsóknar í Barnahúsi vegna gruns um að það hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Málum hefur aldrei fjölgað jafnhratt milli ára eða úr 189 árið 2007 í 323 í fyrra. Þau hafa aldrei áður verið fleiri en 200.
Þetta er smánarblettur á samfélaginu sem takast þarf á við en á ekki að láta liggja í þagnargildi.
Bragi nefnir að umræða um ofbeldið hér eigi sér ekki neina hliðstæðu í öðrum löndum. Íslenskt samfélag sé mjög meðvitað um vandann.
Ekki er ólíklegt að herferð gegn kynferðisofbeldinu ýti málunum í dagsljósið.
Samtökin Blátt áfram hafa til dæmis allt frá því að þau hófu baráttu sína árið 2004 minnt reglulega á sig. Starf samtaka sem þeirra skiptir höfuðmáli. Forvarnir eru lykillinn að því að vökul augu viti eftir hverju þau eiga að leita til að koma í veg fyrir glæpina.
Kynferðisglæpi gagnvart börnum sem og öðrum á ekki að þagga niður og fela, því þeir skilja eftir sig ævarandi ör. Þögn og aðgerðarleysi dugir ekki þegar uppræta á faraldur.