FINNUR Árnason, forstjóri Haga, segir að Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra verði að útskýra betur hvað hann átti við þegar hann sagði á Alþingi á þriðjudag að Íslendingar hefðu um margt búið við óeðlilega skipan mála hvað varðaði samkeppni í verslun og fleiri greinum. Samþjöppun í verslunarrekstri væri ekki meiri hér en t.d. í Danmörku og Noregi og raunar minni en í Svíþjóð.
Gylfi sagði einnig að ef greiða þyrfti úr málum eignarhaldsfélaga í verslunarrekstri yrðu þau ekki endurreist í fyrri mynd heldur seld í smærri einingum og þar af leiðandi yrði meira svigrúm til samkeppni.
Finnur sagði ummæli Gylfa dapurleg. Tilefnið hefði verið umræða sem Ásta Möller átti frumkvæði að um stöðu verslunarinnar en mikilvægi hennar hefði lítill gaumur verið gefinn. Það hefði komið fram að ráðherrann hefði engar lausnir en í staðinn fullyrt ýmislegt sem hann yrði að skýra betur, t.d. hvað hann ætti við með að tala um óeðlilega skipan mála í samkeppni. Skipan mála væri sambærileg og í nágrannalöndunum.
Dapurlegt fyrir starfsfólk
„Í öðru lagi talaði hann um illa stödd félög. Ég get bara talað fyrir Haga sem er eina félagið á þessum markaði sem er skráð á markað og birtir afkomutölur opinberlega. Ég tel Haga ekki standa illa þannig að ég tel óeðlilegt að hann taki þessa atvinnugrein í heild og segi að hún standi illa,“ bætti Finnur við.Þá væru ummælin dapurleg fyrir verslunarfólk, ekki síst þar sem umræðan á Alþingi hefði átt að snúast um leiðir til að vernda störf. „Þetta er dónaskapur við íslenska verslun.“ runarp@mbl.is