Kaffistofa á pöllum Kaffistofan í tónlistarhúsinu verður á fjórðu hæðinni. Þaðan verður hægt að ganga með bollana sína yfir á palla og sitja þar og njóta útsýnisins yfir miðbæinn.
Kaffistofa á pöllum Kaffistofan í tónlistarhúsinu verður á fjórðu hæðinni. Þaðan verður hægt að ganga með bollana sína yfir á palla og sitja þar og njóta útsýnisins yfir miðbæinn. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur ingibjorg@mbl.is ÞRÍR af sex byggingakrönum við tónlistarhúsið við Austurhöfn eru þegar komnir í gang þótt vinnan, sem fór í gang á ný síðastliðinn laugardag, fari hægt af stað.

Eftir Ingibjörgu B. Sveinsdóttur

ingibjorg@mbl.is

ÞRÍR af sex byggingakrönum við tónlistarhúsið við Austurhöfn eru þegar komnir í gang þótt vinnan, sem fór í gang á ný síðastliðinn laugardag, fari hægt af stað.

Ekki stendur til að unnið verði um helgar þótt byrjað hafi verið á laugardegi, að því er Sigurður R. Ragnarsson, framkvæmdastjóri Austurhafnarverkefnis Íslenskra aðalverktaka, greinir frá.

„Það var einhver málamyndavinna hér á laugardaginn. Við vildum byrja á laugardegi til lukku en ekki mánudegi til mæðu. Það verður ekki almenna reglan að unnið verði um helgar,“ segir Sigurður.

Á milli 50 og 60 manns hafa þegar hafið störf á svæðinu og gert er ráð fyrir því að um 100 manns bætist við á næstu 10 dögum. Áætlað er að í vor verði starfsmennirnir um 300 á staðnum.

Þeir sem þegar eru komnir til vinnu voru flestir við störf á svæðinu áður. „Þegar himnarnir byrjuðu að hrynja yfir Ísland og umheiminn vorum við 220. Síðan var hægt á verkinu fram að jólum en þá voru eftir um 130. Margir erlendu starfsmannanna eru farnir af landi brott,“ segir Sigurður.

Ákveðið var að hefja framkvæmdir þótt ekki hafi verið gengið formlega frá fjármögnun. „Við vonum að það verði þá og þegar. Það er bara formsatriði að ljúka því. Það biðu margir í óvissu og við vildum létta henni af. Við töldum það ekki áhættu að byrja en auðvitað er þetta ekki búið fyrr en það er búið en það er líka áhætta að vera stopp,“ bendir Sigurður á.

Alls er um 50 prósentum af heildarverkefninu lokið, að sögn Sigurðar.

Í hnotskurn
» Menntamálaráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík undirrituðu í síðustu viku viljayfirlýsingu um framkvæmdir við tónlistarhús og ráðstefnumiðstöð við Austurhöfnina. Stefnt er að því að taka húsið í notkun vorið 2011.
» Kostnaður við að ljúka byggingunni er 13,3 milljarðar króna. Um 600 störf skapast vegna verksins, þar af 200 til 300 á verkstað.