Forstjórinn Ármann Þorvaldsson. Breska fjármálaeftirlitið hefur ekki gefið upp hvað það var sem varð til þess að eftirlitið tók yfir bankann.
Forstjórinn Ármann Þorvaldsson. Breska fjármálaeftirlitið hefur ekki gefið upp hvað það var sem varð til þess að eftirlitið tók yfir bankann.
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

ÁRMANN Þorvaldsson fyrrverandi forstjóri Kaupþings Singer & Friedlander segir að engir fjármagnsflutningar hafi átt sér stað frá Kaupþingi Singer & Friedlander [KS&F] til Íslands eða annarra landa í aðdraganda bankahrunsins, „hvorki 400 milljónir punda, 800 milljónir punda, né nokkrar aðrar slíkar upphæðir.“

Í viðtali við Davíð Oddsson í Kastljósinu í fyrrakvöld kom fram að breska fjármálaeftirlitið (FSA) hefði fyrst talið að 400 milljónir punda hefðu verið færðar úr dótturfélagi KS&F síðan 800 milljónir og enn hærri fjárhæðir.

Ekki liggur fyrir hvaða upphæðir það eru sem Davíð vitnar til. Morgunblaðið hefur hins vegar greint frá því á undanförnum vikum að stórir lánasamningar hafi verið gerðir vikurnar fyrir fall bankans sem fólu í sér mikið útstreymi á lausafé bankans í ágúst og september 2008.

Breska fjármálaeftirlitið, FSA, hefur ekki gefið út opinberlega hvað það var nákvæmlega sem varð til þess að eftirlitið fór inn í KS&F hinn 8. október síðastliðinn. Hins vegar sagði Gordon Brown í viðtali á Sky fréttastofunni á þessum tíma að Bretar hefðu haft áhyggjur af stórum millifærslum frá Lundúnum til Reykjavíkur.

Ein af ástæðum þess að skilanefnd Kaupþings hefur höfðað mál í Bretlandi til þess að reyna að hnekkja ákvörðun FSA er einmitt að komast til botns í því hvers vegna farið var inn í bankann og fá upplýsingar um það sem ákvörðun FSA grundvallaðist á, samkvæmt upplýsingum frá skilanefndinni.

Sigurður Einarsson sagði í viðtali á Stöð 2 hinn 8. nóvember að þriðjudaginn 7. október hefði FSA krafist þess að Kaupþing uppfyllti kröfur um aukið laust fé í Bretlandi og þessar kröfur hefðu verið þess eðlis að bankanum yrði ekki gert kleift að starfa þar áfram. Daginn eftir réðst FSA inn í höfuðstöðvar KS&F.

Í hnotskurn
» Breska fjármálaeftirlitið, FSA, tók yfir Kaupþing Singer & Friedlander hinn 8. október sl.
» Sigurður Einarsson hefur sagt að um miðjan september hafi Kaupþing átt 1,2-1,3 milljarða punda í reiðufé og ríkisverðbréfum í KS&F.
» Hann hefur einnig sagt að 7. október hafi Kaupþing haft samband við Deutsche Bank og bankinn verið spurður hvort hann gæti annast sölu á KS&F í Bretlandi. Meðan þær viðræður stóðu yfir var KS&F yfirtekinn af FSA.