Hólmfríður Jóhanna Jóhannesdóttir fæddist á Þorleifsstöðum í Skagafirði 9. júlí 1918. Hún lést á Landspítalanum í Fossvogi 6. janúar síðastliðinn og var jarðsungin frá Miklabæjarkirkju 17. janúar.

Hólmfríður Jóhannesdóttir, amma mín, er látin.

Ég ætlaði ekkert heim til Íslands um þessi jól en á síðustu stundu ákvað ég að fljúga heim.

Ég man vel eftir síðustu ferðinni til ömmu þann 29. desember þar sem ég tók strætó til hennar en það hafði ég ekki gert í tæp 20 ár. Það var óvenju bjart yfir henni þennan dag og við sátum í eldhúsinu og spjölluðum um daginn og veginn. Þrátt fyrir háan aldur var amma alveg klár í kollinum og ekkert farin að gleyma. Hún hafði alla tíð munað eftir afmælisdeginum mínum og hringdi alltaf hvort sem ég bjó erlendis eða heima. Ef ég svaraði ekki reyndi hún bara aftur og aftur því ekki ætlaði hún að hringja degi of seint.

Amma var ekkert fyrir bruðl en hafði ómælda ánægju af því þegar við Gréta og mamma buðum henni út að borða. Það var virkilega gaman að fara með ömmu á skrallið. Hún var alltaf til í eitthvað nýtt og spennandi.

Það sem situr mér efst í minni þegar ég hugsa um ömmu er Kastalagerðin en þangað fór ég oft með mömmu til að heimsækja ömmu, afa og langömmu. Ég lék mér í ævintýralegu grjótinu við húsið en húsið var svo fallega staðsett fyrir neðan Kópavogskirkju. Ég hjálpaði afa í garðinum á meðan amma lagði á borð og tók til kræsingarnar sem hún hafði bakað. Púðursykurstertu, pönnukökur, brauð og smákökur en svoleiðis var það alltaf þegar ég kom í heimsókn. Elsku amma. Það er gott að eiga svona góðar minningar um þig.

Þín

Hólmfríður Jóhannesdóttir.