BIRKIR Bjarnason, sem er á mála hjá norska knattspyrnuliðinu Viking, fær mikið lof hjá Uwe Rösler, þjálfara liðsins. Hann segir að Birkir hafi verið besti miðjumaður liðsins á undirbúningstímabilinu og með sama áframhaldi verði hann í byrjunarliðinu gegn Árna Gauti Arasyni og félögum hans í Odd Grenland í 1. umferð norsku úrvalsdeildarinnar sem hefst um miðjan næsta mánuð.
,,Birkir hefur tekið miklum framförum og hefur vaxið mikið sem leikmaður. Hann er tæknilega betri, hefur bætt hraðann og er marksæknari,“ sagði Uwe Rösler í samtali við norska blaðið Aftenbladet.
Birkir var í láni hjá Bodö/Glimt á síðustu leiktíð. Hann var í byrjunarliði í 13 af 26 leikjum liðsins og skoraði 5 mörk. Forráðamenn Bodö/Glimt vildu kaupa hann frá Viking en höfðu ekki ráð á því. Birkir vildi vera áfram í herbúðum Bodö/Glimt en hann segist nú vera ánægður hjá Viking en á dögunum hafnaði hann tilboði frá ítalska A-deildarliðinu Catania.
,,Það var vissulega freistandi að fá þetta tilboð en ég er bara 20 ára. Vonandi koma tækifæri á ný en markmið mitt núna er að standa mig vel hjá Viking og hjálpa liðinu að gera góða hluti,“ sagði Birkir við Aftenbladet. Birkir, sem leikur með 21 árs landsliðinu, er sonur Bjarna Sveinbjörnssonar sem lék um árabil með Þór á Akureyri, frá 1981 til 1996, en einnig eitt ár með ÍBV og eitt með Dalvík. gummih@mbl.is