„Á undanförnum árum hafa grunnskólar í sveitarfélaginu Árborg unnið að því markmiði að útrýma einelti og nýtt til þess m.a. aðferð Olweusar gegn einelti,“ segir í yfirlýsingu til Morgunblaðsins frá fræðsluyfirvöldum í Árborg.

„Á undanförnum árum hafa grunnskólar í sveitarfélaginu Árborg unnið að því markmiði að útrýma einelti og nýtt til þess m.a. aðferð Olweusar gegn einelti,“ segir í yfirlýsingu til Morgunblaðsins frá fræðsluyfirvöldum í Árborg. Morgunblaðið hefur undanfarna daga fjallað um eineltismál í skólum sveitarfélagsins. Fræðsluyfirvöld í Árborg segjast leggja mikla áherslu á að stöðugt sé unnið að því að koma í veg fyrir einelti innan grunnskólanna með viðurkenndum leiðum og að góð samvinna sé milli skólans og ráðgjafa Olweusar-verkefnisins á Íslandi.

„Ofbeldi og einelti er því miður til staðar í íslensku samfélagi og er Selfoss þar ekki undan skilinn,“ segir í yfirlýsingunni. „Á hverjum tíma á það að vera samfélagslegt verkefni hvar sem menn búa að útrýma ofbeldi og einelti.“

Segir í yfirlýsingunni að mikið hafi áunnist í þessum efnum á undanförnum árum með góðri vinnu innan skólanna í Árborg.

„Fræðsluyfirvöld sveitarfélagsins tjá sig ekki að öðru leyti en hér að framan greinir varðandi skrif Morgunblaðsins miðvikudaginn 24. febrúar,“ segir í yfirlýsingunni.