Eftir Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
GEIR H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segist vilja að upplýst verði hvaða einkahlutafélög hafi fengið sérstaka fyrirgreiðslu hjá íslensku bönkunum. Þetta kom fram í samtali hans við fréttamenn í gær vegna viðtals Kastljóss við Davíð Oddsson seðlabankastjóra í fyrrakvöld. Davíð sagði í Kastljósviðtalinu að hundruð slíkra félaga hefðu fengið sérstaka þjónustu í bankakerfinu.
„Það sem mér þótti athyglisverðast í þessu viðtali, en margt sem þarna kom fram var ekki nýtt, var það sem hann sagði frá um hundrað einkahlutafélög í eigu hinna og þessara aðila, meðal annars í stjórnmálum,“ sagði Geir. Sagðist hann vilja að upplýst yrði um hvaða fólk þetta væri og hvort um sérstaka og óeðlilega fyrirgreiðslu hefði verið að ræða.
Spurður um ummæli Davíðs um að hann hefði margoft varað ráðherra við vegna stöðu bankanna sagði Geir: „Við höfum margfarið yfir þetta, m.a. hér á Alþingi. Það er fátt nýtt sem kom þarna fram. Auðvitað höfum við margoft talað um þessi mál og gerðum það oft á síðasta ári. Seðlabankinn hefur líka sent frá sér opinberlega ýmsar upplýsingar og skoðanir, sem hann gerði á síðasta ári. Svo voru aðrir aðilar, sem hafa aðrar skoðanir á þessu, m.a. komu álit frá fræðimönnum sem gengu í báðar áttir. En auðvitað hlutum við líka að þurfa að taka tillit til þess að Fjármálaeftirlitið gerði álagspróf á bönkunum, sem þeir flugu í gegnum og bankarnir sögðu okkur alla tíð sjálfir, að þeir væru búnir að tryggja sína fjármögnun út árið 2009. Í þeim fjölmörgu samtölum, sem við áttum við þá, m.a. í kjölfar ábendinga frá Seðlabankanum, kom ekki annað fram en að þeir myndu komast í gegnum þetta,“ sagði hann.
Geir sagði að Davíð hefði komið sjónarmiðum Seðlabankans mjög skilmerkilega á framfæri í Kastljósviðtalinu. Einnig hefði komið mjög skýrt fram, að Seðlabankafrumvarpið sem nú er til meðferðar í viðskiptanefnd, varðaði ekki stefnu eða stjórntæki bankans heldur eingöngu yfirstjórn hans.
Staðreyndir munu koma í ljós
Í viðtalinu við Davíð sagðist hann hafa komið á ríkisstjórnarfund 30. september í aðdraganda falls bankanna og sagt þar, að hann teldi að allt íslenska bankakerfið yrði komið á höfuðið innan 2-3 vikna. Um þetta sagði Geir, að Davíð hefði komið á ríkisstjórnarfund þótt ekki hefðu allir ráðherrar verið jafnánægðir með það. „Hann sagði frá því sem gerst hefði í kjölfar Glitnismálsins og þá var mjög hart sótt að hinum bönkunum. Það voru veðköll og annað þess háttar, kröfur um uppgreiðslu á lánum og staðan leit illa út. Það var það sem hann var að gera okkur grein fyrir og hann reyndist sannspár með það, en það tók reyndar ekki 2-3 vikur heldur eina viku.“„Ég býst við að þegar ábyrgðinni á þessu öllu verður deilt út, og farið nokkur ár aftur í tímann og atburðarásin skoðuð, þá muni koma fram hvað gerðist og hverjar voru ástæður þessa,“ sagði Geir ennfremur.
Í hnotskurn
» Geir H. Haarde vísar því á bug að ráðamenn hafi skellt skollaeyrum við viðvörunum seðlabankastjóra um yfirvofandi hrun bankanna.» Geir segir bankana sjálfa bera höfuðábyrgðina á því sem gerðist.
» Rannsóknarnefnd Alþingis muni leiða sannleikann í ljós.
» Davíð Oddsson sagði í Kastljósviðtalinu að Seðlabankinn hefði lengi varað við útþenslu íslenska bankakerfisins. Í febrúar hefði hann varað við að íslenska bankakerfið „færi á hausinn“ í október.
Ingibjörg Sólrún fékk ekki upplýsingarnar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, kannast ekki við að endurteknar viðvaranir seðlabankastjóra hafi ratað til sín. Hún viti til að mynda ekki hvað varð um skýrslu „eins færasta fjármálastöðugleikasérfræðings Evrópu“ sem Davíð Oddsson nefndi svo í Kastljósviðtalinu og sagðist hafa afhent ríkisstjórninni. Hann sagðist hafa látið forsætisráðherra hafa skýrsluna. „Ef það er rétt, þá barst hún ekki til mín.“Ingibjörg sat fundi með Davíð í aðdraganda bankahrunsins. „Það voru mest fundir um gjaldeyrisvarasjóðinn.“
Ingibjörg kannast heldur ekki við að hafa heyrt af 10-15 manna sérstakri nefnd sérfræðinga sem Davíð kynnti á ríkisstjórnarfundi 30. september, en hún var þá undir læknishendi í New York.
„Ég veit hins vegar að starfandi var sérstök viðbragðsnefnd á árunum 2007 og 2008. Í henni voru fulltrúar frá forsætisráðuneytinu, fjármála- og viðskiptaráðuneytinu, ásamt FME og Seðlabanka en ég hef aldrei heyrt um þessa nefnd sem hann minnist nú á.“
gag@mbl.is