Á ÍSLANDI býr 7 manna fjölskylda. Hún hefur mátt þola margt gegnum tíðina en alltaf komist út úr öllum erfiðleikum af sjálfsdáðum, líka þeim erfiðleikum sem hún hefur skapað sér sjálf. Þess vegna hefur hún verið hamingjusamasta fjölskylda í heimi.

Á ÍSLANDI býr 7 manna fjölskylda. Hún hefur mátt þola margt gegnum tíðina en alltaf komist út úr öllum erfiðleikum af sjálfsdáðum, líka þeim erfiðleikum sem hún hefur skapað sér sjálf. Þess vegna hefur hún verið hamingjusamasta fjölskylda í heimi.

Foreldrarnir heita Ríkisstjórn Alþingis og Seðlabanki Fjármálaeftirlits. Þau ólu börn sín upp eins og tíðkast hefur á Íslandi, án mikils aga en nógu miklum samt til að börnin færu sér ekki að voða. Ekki hefur tíðkast að hefta sköpunargáfu þeirra né kraft of mikið, því foreldranir hafa haft þá trú að á Íslandi geti enginn búið nema sá sem framkvæmir fljótt og hiklaust það sem honum dettur í hug. Þess vegna var fjölskyldan líka sú ríkasta í heimi.

Börnin fimm á heimilinu heita, í réttri aldursröð, Landbúnaður, Sjávarútvegur, Iðnaður, Ferðaþjónusta og yngstur er Fjármálageiri.

Landbúnaðurinn var um tíma einbirni og hefur mátt muna sinn fífil fegri. Um tíma gekk hann svo nærri landsins gæðum að enn er unnið að uppgræðslu þess. Foreldrunum tókst þó sem betur fer að hemja vöxtinn og ofbeitina þannig að nú framleiðir hann bestu matvæli í heimi í sátt við land og þjóð.

Sjávarútvegurinn kom næstur og gerði sig strax breiðan. Sem dæmi hirti hann af Landbúnaðinum talsvert af mannaflanum og gekk hann svo langt í veiðinni að allir fiskistofnar við landið voru í hættu. Aftur tóku foreldrarnir í taumana og settu bönd á vöxtinn og ofveiðina og nú blómstar hann sem aldrei fyrr og framleiðir að sjálfsögðu bestu og dýrustu sjávarafurðir í heimi í sátt við Guð og flesta menn.

Iðnaðurinn er þriðji í röðinni. Vegna sterkra fjölskyldutengsla tókst honum að vaxa með eldri systkinum sínum, aðallega við að smíða fyrir þau tæki og tól sem urðu með tímanum þau bestu í heimi. Hvað annað? Einnig skapar hann ótrúleg verðmæti með ódýrri orku og gæti og vildi gera miklu meira. En foreldrarnir tóku í taumana og takmörkuðu vöxtinn og ofnotkun fallvatnanna. Samt er vitað að álið okkar er það vistvænasta í heimi.

Ferðaþjónustan kenndi fjölskyldunni þá þjónustulund sem fæstir höfðu lært. Þessu fjórða barni í fjölskyldunni gengur orðið vel að selja norðurljósin, brimið, lifandi hvali, sveitamenninguna og hálendið. Foreldrarnir hafa samt haft einhverjar áhyggjur og eru að setja reglur og höft um aðgengi að viðkvæmri náttúru Íslands sem er sú sérstæðasta og fallegasta í heimi.

Þegar hér er komið sögu fæðist yngsta barnið, herra Fjármálageiri. Líkt og oft áður með yngstu börn, ólst það upp í agaleysi og taumlausri aðdáun og æskudýrkun. Allir vildu verða eins og hann og gera eins og hann. Óskráðar reglur um jöfnuð, varkárni og ábyrgð viku fyrir háleitum markmiðum um að nú yrðum við ekki bara best í heimi heldur líka stærst. Engin þörf væri á böndum agans því markaðurinn væri endalaus. Af og til heyrðust þó frá öldruðum foreldrunum og skyldmennum hjáróma aðvaranir sem voru kæfðar í fæðingu.

Ekki þarf að orðlengja mikið um hvað gerðist þegar fjölskyldan öll trúði því statt og stöðugt að heimurinn væri hennar. Niðurstaðan er líkust því þegar fjölskyldumeðlimur fer í óreglu og dettur í dópskuldir. Sjálfsblekking ásamt fullkominni meðvirkni allra leikur stórt hlutverk og enginn vill trúa hinu versta fyrr en handrukkarinn mætir á svæðið og heimtar skuldina greidda ella hafi menn verra af. Þá fyrst verður mönnum alvaran ljós.

Hvaða ráð á fjölskylda í svona aðstæðum? Í fyrsta lagi þarf að viðurkenna að stofnað var til skuldanna og þær beri að greiða á sanngjarnan hátt. Aðferðir og álagningar handrukkara á hins vegar aldrei að viðurkenna. Fíkilinn þarf að setja í meðferð og aðstandendur að komast út úr meðvirkni fíknarinnar. Að meðferð lokinni er rétt að endurmeta stöðuna og þá mun blasa við mun heilbrigðara fjölskyldulíf. Ef öll börnin fimm lúta aga og eðlilegum takmörkunum sem byggja á raunsæi er ekki langt í að við verðum aftur best í heimi.

Meti menn stöðuna hins vegar svo að nú þurfi að selja landið og miðin upp í dópskuldir unglingsins þá eru þeir hinir sömu búnir að gleyma því hversu langt við erum komin á eigin forsendum á ótrúlega stuttum tíma. Þeir sjá ekki að hér drýpur smjör af hverju strái og það er engin ástæða til að hætta barneignum og nýsköpun í hinni íslensku fjölskyldu. Þegar rjóminn af unga fólkinu sem eðlilega sótti í bankana kemur aftur út í samfélagið á réttum forsendum mun land tækifæranna ekki svíkja það. Það er því síst ástæða til að setja fjölskylduna á hreppinn og fela öðrum að sjá um bú og búpening.

Áfram Ísland – Best í heimi.

Pétur Hafsteinn Pálsson, Grindavík.