FRAMUNDAN er uppgjör okkar Íslendinga, þar sem við verðum að horfast í augu við tímabil útrásarvíkinganna og einnig okkar, sem tókum þátt í útrásinni, annaðhvort með fjárfestingum, samþykki eða þögn gagnvart skýrslum og aðvörunarorðum.
Að eyða tíma í umræðu um inngöngu í ESB eða hvaða skilyrði eigi að setja fram um aðildarviðræður, tel ég vera tímasóun núna, því afstaða ESB til okkar hefur komið fram og skilyrði um afsal svo margra lífsréttinda liggja fyrir sem forsenda inngöngu.
Það eru aðrar spurningar, sem verður strax að takast á við: Hvað er til ráða gagnvart gjaldþroti, sem smátt og smátt hefur komið fram? Hvað er til ráða gagnvart frosnu fjármálakerfi og þeirri stöðnun sem af leiðir?
Brúttó skuldir vegna gömlu bankanna, sem ríkið er nú talið í ábyrgð gagnvart eru nú taldar vera um 2300 milljarðar, sem við stöndum frammi fyrir að eiga að borga, skuldir útrásarvíkinga innanlands og stofnana þeirra í bankaleynd, áætlað um 1500 milljarðar, skuldir sjávarútvegsins með veðsetningu í kvóta um 450 milljarðar og skuldir einstaklinga, fyrir utan húsnæðislán og annarra fyrirtækja við gömlu bankana, yfirteknar til nýju bankanna í bankaleynd áætlað um 650 milljarðar. Ef þessar skuldir eru lækkaðar um 60% á móti eignum sem hafa lækkað verulega að verðgildi er niðurstaðan um 1.900 milljarðar í nettó skuld eða þjóðargjaldþrot, ef krafa kæmi fram um uppgjör.
Ég leyfi mér að setja fram tillögur til alþingismanna, sem bera ábyrgð á stjórn landsins fram að kosningum, að leysa þjóðina úr fjötrum mótmæla og reiði til athafna með sóknarmöguleikum um endurreisn og atvinnu:
1) Setja strax fram nýja verðtryggingu, sem tæki mið af launum og verði húsnæðis fyrir hrun og ná samkomulagi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn um mikla vaxtalækkun.
2) Reyna tvíhliða samninga við Norðmenn – nýjan sáttmála – sem stefndi að eftirfarandi:
Standa sameiginlega að því að viðhalda EES-samningnum og öðrum samningum sem Íslendingar hafa undirgengist, s.s. aðild Íslands um Schengensamstarfið.
Byggja upp sameiginlega fiskveiðistefnu með gagnkvæmum veiðiheimildum og samvinnu um markaðsstarfsemi greinarinnar og sameiginlega landbúnaðarstefnu með gagnkvæmum heimildum í innflutningi og útflutningi.
Standa sameiginlega að opnun norðurpólssiglinga með þeim ávinningum sem af myndu hljótast. Íslendingar myndu veita Norðmönnum aðgang að olíuleit og væntanlegri úrvinnslu á Drekasvæðinu og myndaður yrði sameiginlegur seðlabanki með fjármálaeftirliti beggja þjóðanna, með ákvæðum um meirihlutastjórn Norðmanna ásamt því að tekin yrði upp norsk króna á Íslandi.
3) Ef þessir tvíhliða samningar næðu ekki fram, yrði gripið til nýrra neyðarlaga, sem næði til eftirfarandi breytinga ásamt því að verðtrygging væri aflögð:
Íbúðalánasjóður tæki við öllum íbúðalánum og myndi breyta erlendum lánum yfir í íslensk á gengisvísitölu fyrir hrun. Byggðastofnun eða nýr Lánasjóður atvinnuveganna tæki yfir öll lán atvinnufyrirtækja með rekstrargrundvöll þar sem erlendum lánum yrði breytt yfir í íslensk á sömu gengisvísitölu. Jafnframt væri ákveðið að kvótinn yrði aftengdur veðum og þannig óumdeild eign íslenska ríkisins, sem síðan yrði leigður útgerðum á lágri leigu.
Að þessari aðgerð lokinni yrði stofnaður nýr ríkisbanki með aðkeyptum dollurum að upphæð um 30 milljarðar og Íslendingum gefinn kostur að skipta íslenskum krónum á móti dollurum á föstu gengi dollarans.
Skuldakröfum Íbúðalánasjóðs og Byggðastofnunar eða Lánasjóðs atvinnuveganna yrði breytt úr íslenskum krónum í dollara á sama gengi. Gömlu bankarnir og nýju bankarnir, sem tóku við þeim gömlu með skuldakröfum, en ekki skuldum og „kennitöluflakki“ yrðu lýstir gjaldþrota, ásamt öðrum gjaldþrota fyrirtækjum og erlendum skuldhöfum leyft að ganga að eignum þeirra upp í skuldir. Þessi leið þýddi samningaviðræður ríkisstjórnar frammi fyrir gjaldþroti við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn og baráttu við Evrópuþjóðir, ásamt nýrri aðlögun þjóðarinnar gagnvart atvinnu og launum, sem tæki mið af raunverulegri verðmætasköpun og þeirri áhættu sem gengi dollarans fylgdi.
4) Ná samkomulagi um nýja kosningalöggjöf og stjórnskipan með aðgreiningu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds.
Halldór Gunnarsson, Holti.