„ÞETTA var virkilega erfitt val og það eru margir leikmenn sem komast ekki í hópinn að þessu sinni; leikmenn sem hafa lagt hart að sér og aldrei verið í betra líkamlegu ástandi. Samkeppnin er hörð um sæti í þessu liði,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í gær.
Hann tilkynnti í gær hvaða leikmenn fara á gríðarlega sterkt æfingamót á Algarve í Portúgal. Athygli vekur hve margir leikmenn eru á mála hjá erlendum liðum. „Þetta er bara jákvætt fyrir liðið en eflaust ekki eins gott fyrir efstu deildina hér á landi. Þetta er bara þróunin en það eru fleiri leikmenn sem geta einbeitt sér algjörlega að fótboltanum á næstu mánuðum og það er jákvætt að mínu mati,“ sagði Sigurður en tíu leikmenn leika með íslenskum liðum og hinar níu eru hjá liðum í Svíþjóð og ein er hjá dönsku liði.
Enginn nýliði er í hópnum en alls valdi Sigurður 20 leikmenn. Liðið heldur til Portúgals mánudaginn 2. mars og verður leikið gegn Norðmönnum 4. mars, Bandaríkjunum 6. mars, Dönum 9. mars og hinn 11. mars verður leikið um sæti á mótinu.
Þóra Helgadóttir markvörður er ekki í hópnum og segir Sigurður að veikindi Þóru hafi sett strik í reikninginn.
„Þóra þarf að fara varlega af stað eftir erfið veikindi. Hún fékk einkirningasótt sl. haust og hefur nánast ekkert getað æft frá þeim tíma. Það tekur tíma fyrir hana að koma sér af stað á ný og það er ástæðan fyrir því að hún er ekki valin í þetta sinn.“
Athygli vekur að Erna Björk Sigurðardóttir, leikmaður Breiðabliks, er komin í liðið á ný eftir erfið meiðsli.
„Erna hefur sýnt ótrúlega mikla seiglu. Hún hefur slitið krossband í hné þrívegis á ferlinum og lék síðast með landsliðinu á Algarve-mótinu árið 2007. Erna lék vel með Blikum sl. sumar og það lýsir dugnaði hennar að vera komin í A-landsliðshóp eftir þrjú krossbandaslit,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
seth@mbl.is