Helgi Ívarsson fæddist í Vestur-Meðalholtum í Gaulverjabæjarhreppi 2. júní 1929. Hann lést 13. febrúar síðastliðinn
og var jarðsunginn frá Gaulverjabæjarkirkju 21. febrúar.
Á hlaðinu þar sem Hólar standa neðst í Flóanum bar Helgi Ívarsson sterkt svipmót bóndans. Þar átti hann heima og féll um flest vel að umhverfi sínu. Í ræðustól á fundum sjálfstæðismanna á Suðurlandi bar hann jafnan höfuð og herðar yfir aðra menn. Þar reis hann upp úr flatlendinu sakir djúpfærni og innsæis í lögmál stjórnmálabaráttunnar.
Á þeim vettvangi mæltist engum betur. Aðrir höfðu ekki vald á íslenskri tungu til jafns við hann. Úr hugum annarra spruttu ekki þau hollráð sem Helgi Ívarsson hafði fram að færa. Engir mæltu í senn af jöfnum þunga og af sömu hógværð. Í sviptivindum stjórnmálabaráttunnar sýndu aðrir ekki sömu staðfestu og yfirvegun.
Ekki veit ég til að Helgi Ívarsson hafi nokkru sinni sýnt áhuga á þingmennsku. En til þess stóðu þó öll efni. Hann var bóndi og bar virðingu fyrir því starfi. Flestum öðrum mönnum lengur sat hann í hreppsnefnd og naut þar trúnaðar að verðleikum. Á róstusömum tíma var hann aukheldur kjördæmisráðsformaður.
Helgi Ívarsson var gæddur góðum mannkostum og var að sönnu maður átthaga sinna. Hugur hans og hugmyndaheimur náði þó langt út fyrir túnfótinn. Í tómstundum sínum fann hann viðnám einlægum og áköfum áhuga á stjórnmálum og sagnafróðleik. Vel má vera að á stundum hafi hallað á búskapinn þegar áhugi andans var annars vegar.
Úthafsaldan sem brotnar á ströndinni undan byggðinni í gamla Stokkseyrarhreppi getur verið býsna úfin. Háttur Helga Ívarssonar var ekki af því tagi. Drengskapur hans og hollusta við þann málstað, sem hann trúði á, reis á hinn veginn jafn hátt og aldan gerir þegar best lætur. Nú getur minningin ein goldið meðhaldsmanni þakkarskuld.
Þorsteinn Pálsson.
Ég votta aðstandendum samúð mína og veit að minningin um heiðursmanninn Helga Ívarsson mun lifa með okkur öllum um ókomin ár.
Björn Ingi Gíslason.
Nú stendur Njáll upp sagði maður stundum með sjálfum sér þegar Helgi stóð upp á fundum. Það er falleg lýsing og það var frábært að geta upplifað þá stemningu sem kennd er við snjöllustu ræðumenn Íslands.
Einu sinni var Helgi á fjölmennum fundi með okkur Þorsteini Pálssyni á Selfossi. Við vorum að ræða um nauðsyn þess að fjölga fólki í á Suðurlandi, en um þessar mundir hafði verið fjallað nokkuð í fréttum um innflutning á dönsku sæði karlmanna til Íslands. Í miðju kafi spyr Helgi í Hólum hvernig við ætlum að fjölga Sunnlendingum. „Með gömlu aðferðinni og við erum alltaf reiðubúnir,“ svaraði ég að bragði. Það fór ekkert á milli mála að Helgi hafði gaman af þessu svari og hló glatt, en það gerði hann sjaldan.
Þegar Helgi hringdi þá kynnti hann sig með fullu nafni, titli og bæjarnafni, þótt maður þekkti hann að sjálfsögðu á fyrsta orði. Nú er þessi meistari orðsins og alúðarinnar horfinn á braut. Hans er sárt saknað. Megi góður Guð vernda minningu hans, vini og vandamenn og vísa honum leiðina á engin grænu með álitlegum búsmala og ræðupúlti. Að óþörfu mun hann kynna sig með fullu nafni þegar hann gengur fyrir þann sem öllu ræður, en þá mun sá sem gaf Guðsgjafirnar hitta sinn hugsuð og hugsjónamann.
Árni Johnsen.