Ebenezer Valur Kristjánsson fæddist á Blómsturvöllum við Bræðraborgarstíg í Reykjavík 25. janúar 1921. Hann lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 1. febrúar síðastliðinn.
Útför Vals fór fram frá Digraneskirkju 9. febrúar sl.
Þegar ég var yngri og sá kvikna á ljósastaurunum á kvöldin, varð mér hugsað til afa, með höndina á stórum straumrofa í rafveituhúsinu. Valur afi var sá sem kveikti á ljósastaurunum, og mér fannst fátt merkilegra.
Hann spurði okkur barnabörnin: Hvað getur afi? og við svöruðum í kór: Allt. Svo spurði hann: Hvað er afi? og við svöruðum: Snillingur og ofurmenni. Þá gaf hann okkur Bounty-súkkulaði. Ég nagaði súkkulaðið utan af og henti kókoshnetufyllingunni út um gluggann.
Ofurmennisáróður hans til barnabarnanna hafði greinileg áhrif, því í huga mínum var afi eitthvað annað en venjuleg manneskja. Hann vissi allt, gat allt og gat gert við hvað sem var með gamla skrúfjárninu sem hann geymdi í skyrtuvasanum og smá svörtu einangrunarlímbandi. Sem mikill vísindaáhugamaður tengdi ég alltaf hvítt, stundum úfið hárið við Einstein, mesta snilling fyrr og síðar.
Afi gat haldið langar ræður yfir okkur, kófsveittum, ógyrtum og stjörfum krökkunum, um að ekki mætti hlaupa inni. Til að halda okkur kyrrum og uppteknum, kenndi Valur afi okkur sína uppáhaldsíþrótt: manntafl. Í borðstofunni voru haldin taflmót með útsláttarkeppnum samkvæmt Monradkerfinu. Afi lagði mikla áherslu á að við spiluðum drengilega.
Þegar við fórum með fjölskyldunni í sumarfrí til Barcelona, brá okkur í brún við að sjá hversu mikill hundaskítur á gangstéttunum. Því réð afi mig sem „yfir-hundaskítsvörð“ sem fólst í því að vara við hundaskít á jörðinni með því að benda og segja e-e-e-e-e. Fullorðna fólkið gat þá óhindrað dáðst að mikilfenglegum byggingum og fyrir vikið greiddi afi mér vegleg laun.
Stundum á efri árum gerði hann grín að gömlu fólki sem hann hafði séð á ferð sinni um bæinn. Þá stóð hann upp, staulaðist hokinn um gólf og þóttist eiga erfitt með gang. Meira að segja þegar hann sjálfur átti mjög erfitt með gang, hélt hann áfram að gera grín. Ég hugsaði því aldrei um afa sem gamalmenni. Hann var snillingur og ofurmenni.
Sigurður Jón Júlíusson.
ekki almennilega búin að átta mig á því að hann Valur afi sé farinn
frá okkur, vil kannski ekkert átta mig á því.
En ég get þó huggað mig við þá tilhugsun að hann afi hafði sko lifað
tímana tvenna og þegar loks var kominn tími fyrir hann að kveðja
þennan heim var hann umkringdur afkomendum og samferðafólki sem þótti svo ótrúlega vænt um hann.
Ég minnist þess alltaf að hlaupa spennt upp tröppurnar á
Ásvallagötunni í heimsókn til ömmu og afa þegar ég var yngri (þó svo að amma hefði stranglega bannað mér að hlaupa í þessum bröttu stigum!) og var þá eiginlega spenntust yfir því að sjá hverju hann afi
hefði nú laumað ofan í gamla vindlakassann sinn, en þar var hann vanur að setja sælgæti ef hann vissi að einhver af okkur krökkunum hans væru að koma í heimsókn. Afi var alltaf ótrúlega passasamur með sitt.
„Nýi bíllinn hans afa“ var bíllinn hans ennþá kallaður, síðast þegar ég
vissi, þó svo að hann væri orðinn eiginlega bara hundgamall.
Ef við fengum sár á puttann var hann strax kominn með svarta teipið og skellti því á sárið og var alveg handviss um að þetta myndi nú gróa á augabragði, sem það og oftast gerði.
Ég minnist þess líka að snúa mér í alls konar hringi á stofugólfinu á
Ásó og reyna mitt besta við allar ballett-„positionirnar“ úr þessari líka forláta ballettbók sem afi hafði gefið mér í jólagjöf eitthvert árið. Hann var minn sérlegur danskennari og ég man alltaf hvað ég var stolt þegar hann klappaði fyrir mér og sagði mér að ég væri besti ballettdansari sem hann hefði nokkurn tímann séð!
Daginn sem við fréttum af andláti afa vorum við systurnar að rifja
upp gamlar góðar minningar um hann. Halla minntist þess að við
hefðum einhvern tíma ákveðið að telja nú alla englana sem amma Gurra hafði safnað gegnum árin. Við vorum þess fullvissar að við værum sko búnar að telja hvern einasta engil í íbúðinni sem voru hvorki fleiri nér færri en 50 talsins.
Afi horfði þá á okkur brosandi og sagði: „Neeii, ég held að þið hafið
gleymt þremur“ og benti á okkur.
Þetta þótti mér ótrúlega vænt um að heyra og svona vil ég minnast afa.
Við getum öll verið sammála um að hann hafði mikið skap en mikið
óskaplega þótti honum vænt um okkur öll og við megum vera þakklát
fyrir að hafa átt hann að í öll þessi ár.
Ég kveð þig með meiri söknuði í hjarta en ég get með orðum lýst.
Elska þig alltaf.
Þín
Júlía.
Frá því að við fengum fregnir af andláti þínu hafa rifjast upp margar skemmtilegar minningar um þig. Upp í hugann koma fjölmargar sögur sem þú sagðir og góðar stundir sem við áttum saman.
Það rifjast upp mörg skemmtileg atvik úr veiðiferðum okkar og ég man sérstaklega eftir því þegar við vorum eitt sinn að veiða uppi í bústað. Við stóðum hlið við hlið og höfðum báðir fengið sæmilegar bleikjur en mín var þó heldur stærri. Vatnið var spegilslétt og aflinn lá við fætur okkar. Allt í einu sé ég að annar fiskurinn er horfinn, fiskurinn þinn. Ég lít aftur fyrir mig og sé mink hlaupa burt með hann. Minkurinn hafði laumast alveg upp að okkur og tekið minni fiskinn og það fannst okkur mjög fyndið enda var þetta ekki í fyrsta skipti sem minkurinn stríddi þér.
Áður hafði minkurinn tekið frá þér boltableikju sem þú fékkst á 17. júní 1994. Við fjölskyldan vorum að koma af hátíðinni á Þingvöllum og það fyrsta sem þú segir okkar er að þú hafir fengið risableikju sem minkurinn hafi tekið frá þér. Þú ætlaðir inn að ná í poka og hafðir lagt fiskinn á pallinn en þegar þú komst út aftur var fiskurinn horfinn. Amma Gurra hafði séð fiskinn og því engin ýkjusaga á ferð heldur stórveisla hjá minkinum í boði Vals afa.
Annað atvik úr veiðiferð sem fær mig alltaf til að hlæja er þegar húsflugan settist í skinkusalatið. Það var í hléi frá veiðum í Soginu og þú varst að setja skinkusalat á brauðsneið. Þú varst í þann mund að fara borða hana þegar húsfluga settist beint í salatið. Í stað þess að reka hana burt með höndunum voru þín fyrstu viðbrögð við þessari kræfu flugu að leita að rétta verkfærinu úr brjóstvasanum, enda vasinn alltaf vel búinn. Á meðan þú leitaðir í vasanum gekk flugan óáreitt um salatið og loks þegar þú hafðir valið rétta verkfærið sem var lítill dúkahnífur, flaug flugan burt. Ég, Elvar og pabbi gátum varla hætt að hlæja.
Mér þótti þú alltaf hafa aðdáunarverða þolinmæði við veiðarnar og líka þegar þú varst að nostra við veiðidótið, sem virtist alveg jafnmikil athöfn og veiðarnar sjálfar.
Ef við systkinin vorum eitthvað að stríða hvert öðru sagðir þú stundum: „Ég stríddi aldrei systkinum mínum...“ en svo bættist við eftir smá þögn: „...nema í algjörri neyð!“
Mér og Kristbjörgu þykir dýrmætt að þú náðir að hitta hana Freyju og áttir með henni góða stund áður en við fórum til Ástralíu.
Elsku Valur afi, við biðjum góðan Guð að geyma þig og við sendum ömmu Gurru og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Elías Freyr, Kristbjörg
og Freyja.
Það eru margar dýrmætar minningar sem rifjast upp á þessum tímamótum. Afi var hetja í mínum augum, „snillingur og ofurmenni“ og hafði margar sögur að segja frá sínum æskuárum – margar sögur sem voru þó nokkuð oft endurteknar. Sögur úr Vesturbænum, úr sveitinni, frá seinni heimsstyrjöldinni, af Keflavíkurvelli og af ferðalögum um Ísland og um heiminn. Hann var mjög duglegur að ferðast með fjölskylduna sína, innanlands sem utan, og iðinn að fara á sumrin með ömmu Gurru og mig á leynistaðinn sinn, Gurrustall, sem var hin íslenska sólskinsparadís.
Afi var rafvirki og var sá sem „gat allt“ og gert við allt ef svo bar við og var ávallt reiðubúinn með skrúfjárnið sitt sem hann geymdi í skyrtuvasanum. Hann var fjallmyndarlegur með silfruðu lokkana sína, sem hann greiddi iðulega, því hann vildi vera viss um að vera nógu fallegur. Afi var Vesturbæingur í húð og hár og mikill stuðningsmaður KR. Því ráku margir upp stór augu, sem ekki þekktu til hans, er hann ók á „nýja bílnum hans afa“ með númerinu VAL KR. Valur afi kenndi okkur barnabörnunum öllum að tefla og síðar meir hvernig átti að aka bíl eins og maður. „Aka varlega, en þó djarflega“ var ráðleggingin.
Ég ólst að miklu leyti upp á Ásvallagötunni hjá Val afa og ömmu Gurru, því ég var svo lukkuleg að vera í pössun á Ásó frekar en að ganga í leikskóla. Þar var mikið dekrað við mig, en ég fékk þann virðulega titil „drottningin hans afa“ strax við fæðingu. Ekki amarlegur titill það og ýmis fríðindi sem fylgdu með í kjölfarið. Valur afi lagði ætíð mikla áherslu á að við afkomendurnir töluðum hreina og fallega íslensku og máttum alls ekki notast við dönsku- eða enskuslettur. Þrátt fyrir þetta var Valur afi mikill áhugamaður um tungumál og tók upp á því er hann var kominn á áttræðisaldurinn að efla bæði spænsku- og enskukunnáttu sína til muna, og talaði margoft um þann góða eiginleika að geta talað „The Queen´s English“.
Afi var einkar hjartahlýr og barngóður maður, traustur, með skemmtilega kímnigáfu og sterka réttlætiskennd. Í hverri heimsókn var tekið á móti okkur með opnum örmum, stóru faðmlagi og kossi á kinn. Ásó verður tómleg án afa Vals, en vonandi náum við afkomendurnir með hjálp minninganna um elskulegan afa og tíðri nærveru okkar að fylla tómarúmið sem myndast hefur hjá elsku Ömmu Gurru. Ég bið góðan Guð að styrkja þig, elsku amma, í þinni miklu sorg.
Þín
Heiðrún Ýrr.
Afi hafði mikinn húmor og hafði gaman af að segja sögur frá því í „gamla daga“. Hann sagði mér margar sögur frá því hann var ungur strákur að alast upp í Skerjafirðinum og þar til hann varð eldri og þær sögur mun ég geyma vel í huga mér. Hann var einstaklega laginn að spila á sög og í september síðastliðnum tók hann hana upp fyrir mig og Sigga bróður minn sem var mjög skemmtileg upplifun.
Afi var oft að ráðleggja okkur barnabörnunum ýmislegt og þá sérstaklega þegar það kom að akstri, enda var hann prýðisbílstjóri að eigin sögn. Það var mjög gaman að vera með honum í bíl því hann hafði einstakt lag á því að lýsa því sem var að gerast. Þegar einhver tók fram úr honum, þá voru þeir glannar en ef hann þeyttist fram úr einhverjum, þá voru þeir á druslum!
Afi lagði einnig mikla áherslu á að við ættum ekki að sletta heldur tala fallega íslensku og hann leiðrétti okkur iðulega ef við sögðum „ok“ því það væri enska og það ætti að segja „allt í lagi“ eða „flott“ því það væri danska. Elsku afi, ég sakna þín strax og ég þakka þér fyrir allan þann tíma sem ég fékk að eyða með þér. Þú varst einstakur maður sem ég mun aldrei gleyma.
Þitt barnabarn
Íris Björk Júlíusdóttir
og fjölskylda.
Allir voru sammála afa um að hann væri snillingur, ofurmenni og gæti allt. Hann var mjög laginn í höndunum og þegar eitthvað bilaði var farið með það til hans sem hafði alltaf áhuga á að gera við hlutina. Afi var mikið fyrir sætindi en lagði áherslu á það við okkur barnabörnin að borða ekki mikið af sætindum til að „halda línunum í lagi“ eins og hann sjálfur. Í heimsóknum hjá ömmu og afa var ávallt mikill spenningur sem fylgdi því að kíkja í „nammiboxið“ sem í leyndust nammimolar sem biðu eftir næstu heimsókn barnabarnanna og aldrei varð maður fyrir vonbrigðum. Þegar barnabörnin voru að stríða hvert öðru þá hneykslaðist afi oft og sagðist aldrei hafa strítt sínum systkinum nema í neyð.
Oft tókst honum að róa barnabörnin niður ef það voru læti í þeim og þá sérstaklega þegar fréttirnar voru, þá sagði hann að „barnatíminn“ sinn væri að byrja og börnin virtu það.
Augljóst var í máli Vals afa, hve vænt honum þótti um konuna sína, ömmu Gurru. Hann hafði gjarnan orð á því hve dugleg amma Gurra væri, og minntist einnig oft á það á glettinn hátt að þegar þau voru að kynnast hafi hún verið að „trufla hann“. Afa þótti gaman að gantast við okkur barnabörnin og lagði mikinn metnað í það. Það vakti mikla kátínu þegar hann spilaði á sög með fiðluboga.
Afa þótti gott að fá sér í nefið og voru krakkarnir oft undrandi á því og fylgdust iðulega vel með þegar hann gerði það. Þegar hann var búinn að sjúga upp í nefið leit hann á okkur og sagði þá gjarnan: „Nú er afi að taka meðalið sitt“ og þá skildu barnabörnin það. Hann hafði einstakan hæfileika til að gera sig skiljanlegan meðal yngri kynslóðarinnar.
Valur afi hafði sterkar skoðanir á ýmsum málefnum og tjáði þær á líflegan og skemmtilegan hátt, og lauk oft máli sínu með því að slá í borðið sem hann sat við hverju sinni, og segja hátt og snjallt: „Takk fyrir áheyrn.“ Hann kunni að meta það þegar fólk hlustaði á hann. Afi var alltaf glaður að fá einhvern í heimsókn og kvaddi alltaf með orðunum: „Komdu fljótt aftur.“ Afi lagði áherslu á að við barnabörnin ættum að koma í heimsókn aftur þegar tími gæfist til og sagði oft þessi fleygu orð: „Komdu einn góðan veðurdag, í vondu veðri.“
Hugmyndaflug afa var mikið og sem dæmi má nefna að við vorum á Þingvöllum og þá datt honum í hug útbúa flugdreka með veiðiflugu og láta hann fljúga langt út á vatnið, láta veiðifluguna síga niður með veiðihjóli og draga síðan hægt og rólega inn.
Þá sagði Elvar við hann að líklegast fengi hann bara lítinn titt til baka, sem honum þótti mjög fyndið. Elsku afi, takk fyrir þær fjölmörgu stundir sem við fengum með þér, minningin um þig verður ávallt með okkur. Hvíl í friði.
Þín
Eva María, Elvar Jón,
Valur Árni og Soffía.