Auglýsingar endurspegla samtímann,“ segir Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Fítons. Rétt eins og aðrar auglýsingastofur þarf fyrirtækið að laga sig að breyttum aðstæðum á markaði það sem ný gildi eru að ryðja sér til rúms hjá neytendum og neyslumynstrið að breytast. „Við þurfum að fylgja tíðarandanum og aðlaga okkur nýju umhverfi. Ég hef oft sagt að það sé slæmt að það sé samdráttur en það góða fyrir okkur er að það er eftirspurn eftir ferskum hugmyndum og nýjum lausnum,“ segir Ragnar.
Ragnar, sem er viðskiptafræðingur að mennt, hefur starfað hjá Fíton frá árinu 2000 og gegnir nú stöðu framkvæmdastjóra. Stofan sópaði að sér verðlaunum á verðlaunafhendingu Félags íslenskra teiknara í síðustu viku en grafískir hönnuðir stofunnar unnur fjögur gull og hlutu fimm viðurkenningar. Stofan er jafnframt með sextán tilnefningar á Íslenska markaðsdeginum, verðlaunahátíð Ímark, sem er á morgun. „Það er mjög skemmtilegt að fá viðurkenningu eins og staðan er núna enda veitir ekki af smá bjartsýni,“ segir Ragnar og þakkar hæfileikaríku starfsfólki stofunnar þennan árangur. „Við erum ákaflega stolt af okkar fólki og það hefur verið ótrúlegur samhugur í mönnum á stofunni þrátt fyrir að það sé samdráttur. Það ætla allir að standa saman í að gera góða hluti og vera skapandi og ferskir,“ segir Ragnar, en rúmlega þrjátíu manns starfa á stofunni.
Héldu sérstakt Mad Men kvöld
Sjónvarpsþættirnir Mad Men njóta gríðarlegra vinsælda um þessar mundir en þeir fjalla um starfsmenn á auglýsingastofu í New York í upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar þegar vörumerkjavæðingin var komast á almennilegt skrið. Eins og á öðrum vinnustöðum eru haldnar ýmsar uppákomur á Fíton til að þjappa hópnum saman. „Starfsfólkið á stofunni, eins og eflaust fleiri í þessum geira, hefur gaman af Mad Men og við héldum sérstakan Mad Men dag þar sem við dressuðum okkur upp í fatnað þess tíma. Strákarnir voru með mjó bindi og stelpurnar settu upp hárið og fóru í kjóla, það var mjög skemmtilegt,“ segir Ragnar.Ragnar, sem er fertugur, segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á markaðs- og auglýsingamálum og því hafi legið beint við að fara í viðskiptafræðina í Háskólanum. Hann hefur nokkra reynslu úr öðrum geirum atvinnulífsins og starfaði meðal annars hjá hugbúnaðarfyrirtæki og banka áður en hann hóf störf hjá Fíton.
Ragnar segir að smæð auglýsingamarkaðarins hér heima geri það að verkum að færri stöðugildi eru á stofunum sem þýði fjölbreyttari verkefni á hvern starfsmann. Hann gegndi áður starfi viðskiptastjóra Fítons.
„Við erum á svo litlum markaði að maður tekur öll þessi störf að sér. Sá sem er viðskiptastjóri starfar á um leið sem markaðsráðgjafi, er á fullu í hugmyndavinnu og tekur saman rannsóknir sem eru til staðar og býr til áætlanir,“ segir Ragnar.
Ragnar er í sambúð Huldu Snorradótttur og á einn stjúpson. Hann segir skíðaiðkun og almenna líkamsrækt sín helstu áhugamál fyrir utan fjölskyldu og starf. „Það hefur verið gott árferði fyrir okkur skíðamennina undanfarið, áður en það fór að hlýna og rigna,“ segir Ragnar, sem segist grípa í græjurnar og búa sig undir brun alltaf þegar færi gefst. thorbjorn@mbl.is