Árelía Eydís Guðmundsdóttir: „Til að við vitum hvert við erum að fara þurfum við fyrst að vita hvar við stöndum og taka stöðuna á því reglulega.“
Árelía Eydís Guðmundsdóttir: „Til að við vitum hvert við erum að fara þurfum við fyrst að vita hvar við stöndum og taka stöðuna á því reglulega.“ — Morgunblaðið/Heiddi
Neikvæðar tilfinningar taka mikið pláss innra með hverjum og einum sem gerir það að verkum að erfiðara getur verið að sjá ný tækifæri. Árelía Eydís Guðmundsdóttir stingur upp á að búa sér til sérstakan tíma dag hvern til að hafa áhyggjur en sleppa því þess á milli.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Það sem skiptir mestu máli er að gera sér grein fyrir því að ef óttinn, kvíðinn, hræðslan og aðrar neikvæðar tilfinningar ná tökum á okkur taka þær svo mikið pláss. Þær taka svo mikið pláss innra með okkur sem þýðir að við erum þá gjörn á að missa af einhverjum tækifærum,“ segir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent í viðskipta- og hagfræðideild við Háskóla Íslands, að séu hennar skilaboð til ráðstefnugesta á Íslenska markaðsdeginum en þar verður hún ráðstefnustjóri. „Allt sem heitir nýsköpun, að hugsa á nýjum brautum eða að þora að stíga ný skref þarfnast bjartsýni, hvort sem það eru fyrirtæki í sókn eða einstaklingur í atvinnuleit. Ef viðkomandi er hræddur og kvíðinn verður honum ekkert úr verki. Til að við vitum hvert við erum að fara þurfum við fyrst að vita hvar við stöndum og taka stöðuna á því reglulega.“

Raunsæ Pollýanna

Árelía viðurkennir að þetta geti verið erfitt og þetta sé kannski spurning um að vera raunsæ Pollýanna. „Í raun á maður að gefa sér ákveðinn tíma á hverjum degi til að hafa áhyggjur. Ég hef sagt að fólk ætti að taka hálftíma í áhyggjur á dag en svo finnst fólki þetta yfirleitt vera leiðinlegt þannig að það hefur stytt tímann. En bara það að gefa sér ákveðinn tíma til að hafa áhyggjur gerir heilmikið fyrir sálarlífið. Ef áhyggjur láta á sér kræla utan þessa tíma þarf bara að minna sig á að þessi tími kemur aftur á morgun. Þetta léttir mjög á, sérstaklega hjá þeim sem eru mjög áhyggjufullir. Svo eiga margir áhyggjufullir erfitt með svefn. En um leið og einhver ætlar að liggja andvaka og velta fyrir sér öllu því hræðilega sem hefur gerst eða gæti gerst er best að standa upp og gera eitthvað, til dæmis skúra, lesa bók eða eitthvað allt annað. Mikilvægast er að gefa sér ekki færi á að vera í þessum pytti.“

Að hafa áhrif

Árelía talar um að það skipti í raun ekki máli hve miklar áhyggjur hver og einn hefur. „Við þurfum öll að skilgreina hver okkar áhrifahringur er. Hvað það sé sem ég get haft áhrif á. Ég get til dæmis ekki haft áhrif á hve mikið af Icesave-skuldunum við borgum. Hins vegar get ég haft áhrif á hvernig mér líður, hvernig ég kem fram við fólkið í kringum mig og hvort ég horfist í augu við vandamál mín eða ekki. Þetta snýst því í raun um að skilgreina sinn áhrifahring og gefa sér einhvern ákveðinn stuttan tíma til að hafa áhyggjur hverju sinni. Jafnvel þótt skuldir séu miklar og viðkomandi sé búinn að missa vinnuna gerir það ekki gott að vera með áhyggjur allan daginn, í raun gerir það ástandið bara verra.“

Von og eftirvænting

Þetta er mikilvægt vegna þess að hver og einn þarf að vera í ágætis andlegu formi til að geta hugsað á nýjum nótum, að sögn Árelíu. „Allir þurfa að líta í eigin barm og kanna hvort það sé einhver möguleiki þarna úti. Er hægt að sjá ástand mitt út frá öðrum forsendum? Er eitthvert tækifæri sem ég sé ekki? Ef maður er upptekinn af því að allt sé að fara til fjandans er erfitt að finna nýjar leiðir,“ segir Árelía og bætir við að mikilvægt sé að halda í vonina. „Vonin er það sem gefur lífinu gildi. Það er þessi tilfinning að maður hafi eitthvað til að hlakka til. Vonin er svolítið skyld eftirvæntingu. Ef maður hefur ekki von hefur maður ekki eftirvæntingu og það er slæmt.“

Árelía Eydís

er dósent í viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og áður starfaði hún meðal annars við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Árelía útskrifaðist úr stjórnmálafræði við Háskóla Íslands en hefur síðan til dæmis lært vinnumarkaðsfræði, hugræna atferlismeðferð auk þess að ljúka doktorsprófi við University of Essex. Árelía hefur verið vinsæll fyrirlesari undanfarin ár og hefur haldið alls kyns námskeið og fyrirlestra um jákvæðni, tækifæri, stjórnun, sjálfsrækt og margt fleira. Þá skrifaði hún bókina Móti hækkandi sól sem kom út árið 2005 hjá Sölku.