Gunnar Lárus Hjálmarsson neytandi: „Vissulega kemur það fyrir að auglýsingar hitta í mark og eru söluhvetjandi eða upplýsingagefandi.“
Gunnar Lárus Hjálmarsson neytandi: „Vissulega kemur það fyrir að auglýsingar hitta í mark og eru söluhvetjandi eða upplýsingagefandi.“ — Morgunblaðið/Frikki
Dr. Gunna finnst auglýsingar í sjónvarpi nýtast vel til að poppa eða fara á klósettið en man þó eftir nokkrum áhugaverðum auglýsingum. Hann segist þó ekki hlaupa út og kaupa allt sem vekur áhuga hans.

Eftir Svanhvíti Ljósbjörgu

svanhvit@mbl.is

Gunnari Lárusi Hjálmarssyni, betur þekktum sem Dr. Gunna, hefur verið mjög umhugað um neytendamál undanfarin misseri en hann mun halda fyrirlestur um viðhorf neytandans á íslenska markaðsdeginum. Sjálfum finnst honum auglýsingar vera ágætis uppbrot í dagskrá til að poppa og fara á klósettið. „Vissulega kemur það fyrir að auglýsingar hitta í mark og eru söluhvetjandi eða upplýsingagefandi. Ég get nefnt gamla auglýsingu frá Hreyfli sem dæmi en það var rappauglýsing með Flosa Ólafssyni. Ég man símanúmer Hreyfils enn þann dag í dag út af þessari auglýsingu sem hlýtur að vera vel heppnað.“

Gaman að prófa eitthvað nýtt

Gunni talar um að auglýsingar hafi vissulega einhver áhrif á hann þótt hann hlaupi kannski ekki út í búð eftir öllu sem hann sér. „Ég kaupi ekki nýjan bíl þegar ég sé bílaauglýsingu en mögulega ef varan er á einhverju sviði sem fjárhagurinn leyfir, eins og til dæmis nýir skyrdrykkir. Mér finnst mjög gaman að prófa eitthvað nýtt og ég heyri kannski fyrst af því þegar það er auglýsingaherferð. Þá er það minn metnaður sem neytandi að gefa svona vörum séns en mér finnst það ekkert betra á bragðið þó það sé vel auglýst.“

Betri auglýsingar

Gunni segir að auglýsingar undanfarin ár hafi vissulega breyst til batnaðar. „Samt sem áður er ekki mikið til af æðislegum auglýsingum. Auglýsingar eru alltaf barn síns tíma, fastar í tíðarandanum en eflaust hafa orðið miklar framfarir í íslenskum auglýsingaheimi eftir því sem fleiri starfa við þetta. Oft virðist það vera þannig að allt gáfaða og sniðuga fólkið fer í þennan geira,“ segir Gunni sem finnst auglýsingar frá loftbólufyrirtækjum einna minnisstæðastar. „Allar þessar montauglýsingar og jafnvel auglýsingaherferðir fyrir fyrirtæki sem farin eru á hausinn. Svo var endalaust um bílaauglýsingar í góðærinu en það er ekki eins og maður sé alltaf að fá sér nýjan bíl.“

Betra þjóðfélag

Gunni segist því fastlega gera ráð fyrir því að auglýsingar muni breytast í kreppunni samhliða breyttri siðferðisvitund og nýjum áherslum. „Ég held að bankarnir þurfi að hugsa upp á nýtt hvernig þeir ætla að auglýsa sig. Auglýsingin með Páli Óskari er hluti af því. Mörg fyrirtæki þurfa einhvern veginn að biðjast afsökunar, rétt eins og olíufélögin gerðu eftir að samráðið komst upp en þá voru nokkrar auglýsingar sem voru eins og afsökunarbeiðni. Ég myndi að minnsta kosti halda að fyrirtæki sem auglýsa sig með neytendum og samfélaginu í stað þess að vera á móti því gætu grætt á því. Ekki að fyrirtæki einsetji sér að skila sem mestum hagnaði á næsta ársfjórðungi heldur að það vilji búa til betra þjóðfélag.“