Ragnar Jón Magnússon fv. flugvélstjóri fæddist að Laugahvoli í Reykjavík 15. júlí 1932. Hann varð bráðkvaddur í Reykjavík 7. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Magnús Stefánsson frá Heiðarseli í Hróarstungu, fv. dyravörður í Stjórnarráði Íslands, f. 30. apríl 1891, d. 25. maí 1982 og Arnbjörg Jónsdóttir frá Gilsárteigi í Eiðaþingi húsmóðir, f. 14. nóvember 1895, d. 1. maí 1980. Jón, eins og hann var ævinlega kallaður, var ókvæntur og barnlaus en systkini hans eru: 1) Guðbjörg, f. 16. 4. 1923, gift Benedikt Thorarensen, fv. framkvæmdastjóra í Þorlákshöfn, f. 1. 2. 1926, d. 26. 1. 2008. 2) Anna María, f. 17. 1. 1925, gift Hans Danielsen, framkvæmdastjóra hjá skipadeild SÍS, f. 15. 11. 1920, d. 16. 9. 1977. Synir þeirra eru Ragnar og Magnús. 3) Stefán flugstjóri, f. 26. 8. 1926, er fórst í flugslysi 18. 3. 1963, kvæntur Svövu M. Þórðardóttur, f. 24. 8. 1929, d. 13. 9. 2007. Börn þeirra eru Magnús Örn, Halla og Þorleifur, en áður átti Stefán dótturina Sigríði.

Jón ólst upp að Laugahvoli í Laugarásnum í Reykjavík og sleit þar barnsskónum. Að loknum gagnfræðaskóla 1949 vann hann hjá Loftleiðum við hleðslu, hreingerningar og flugafgreiðslu til vorsins 1952 en þá hóf hann störf á Keflavíkurflugvelli hjá bandaríska hernum sem lærlingur í flugvirkjun. Frá desember 1952-53 er Jón við nám í flugvirkjun hjá Cal Aero Tech. Institute í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Var síðan við frekara nám og störf í flugvirkjun á Sola flugvellinum í Stafangri í Noregi á árunum 1954-58. Árið 1957 vann hann einnig um tíma við tæknideildina á flugvellinum í Hamborg. Hóf síðan störf hjá Loftleiðum 1958, fyrst sem flugvirki og svo sem flugvélstjóri á árunum 1959-1965 og aftur frá 1969 og um árabil. Vann svo síðustu starfsár sín sem flugvirki hjá Flugleiðum þar til hann fór á eftirlaun 1999. Hann stofnaði og rak ásamt Stefáni bróður sínum og öðrum flugfélagið Flugsýn á árunum 1960-70. Á eftirlaunaaldri var Jón einnig meðeigandi í flugfélaginu Jórvík á meðan það var við lýði.

Útför Jóns fer fram frá Fossvogskapellu í dag kl. 15.

Í barnsminningunni er Jón frændi hár og fallegur og oftast á ferðinni, enda dvaldi hann til lengri og skemmri tíma erlendis við nám og störf. Hann var einn af þeim sem flugið heillaði kornungan og um það snerist síðan líf hans, störf og áhugamál.

Hann var flugvirki og flugvélstjóri, vann við stórar vélar og smáar í lofti og legi, hér heima og úti í hinum stóra heimi. Þegar hann var kominn úr einkennisbúningnum eftir flug, búinn að hvíla sig svolítið og snúast fyrir og með afa og ömmu fór hann gjarnan í vinnugallann og í bílskúrinn á Laugarásveginum, sem var fullur af flugvélapörtum og varahlutum, eða út á flugvöll í eitthvert flugskýlið. Flugið færði mikla reynslu og skemmtilegar stundir en líka sorgir og missi nákomins bróður og margra vina og samstarfsmanna. En hann og fleiri misstu aldrei trúna á möguleikana og tækifærin, þótt þau brygðust stundum og hefðu því miður líka í för með sér tjón og erfiðan eignamissi.

En flugið var ekki eina áhugamál Jóns. Hann var grúskari og áhugamaður um ættfræði og þjóðlegan fróðleik. Þeim áhuga deildi hann með föður sínum og afa mínum og hélt áfram vinnu hans við að safna upplýsingum m.a. um ætt okkar og uppruna. Þeim miðlaði hann og fylgdist vel með ættmennum nær og fjær. Frá ömmu tók hann líka í arf þekkingu og áhuga á náttúrunni t.d. á jurtum og lækningamætti þeirra.

Vinátta Jóns og foreldra hans var einkennandi fyrir hann og umhyggja hans og umönnun þegar aldurinn færðist yfir var einstök og verður aldrei fullþökkuð. Þessarar umhyggju fengu systur hans og við fleiri úr fjölskyldunni einnig að njóta. Í minni fjölskyldu var t.d. jólapakkanna frá Jóni frænda alltaf beðið með eftirvæntingu þegar börnin voru yngri. Það var gjarnan hringt af flugvellinum á Akureyri á aðfangadagsmorgun og sagt að þar biði pakki, stundum náðu þeir ekki fyrr en milli jóla og nýárs en það var allt í lagi. Úr pökkunum komu spennandi hlutir – leikföng, nýjasta tækni og föt frá Ameríku eða framandi hlutir frá Asíu eða öðrum stöðum sem leið hafði legið um.

Á 75 ára afmælinu kom hann í heimsókn norður og við létum verða af því að fara í ferð út í Fjörður, þangað hafði hann rakið búsetu konu úr ættinni og lesið síðan um þessa eyðibyggð sem hann langaði að koma í og sjá með eigin augum. Þessi ferð varð skemmtileg og eftirminnileg fyrir hann og okkur.

Síðustu árin bjó Jón á Vesturgötunni, naut þess að vera í tengslum við miðborgina og lífið þar, hafði mikla ánægju af samverustundum gamalla vina og samstarfsmanna, fór fótgangandi flestra sinna ferða, stundaði sund, borðaði með skemmtilegum félögum, fór á spænskunámskeið, byrjaði að syngja í kór, lærði á tölvu og tölvupóst, setti saman minningabrot úr ferðum til framandi landa og minntist þar látinna félaga. Hann sótti ýmsa menningarviðburði og mætti líka á flesta mótmælafundina sem haldnir voru á Austurvelli í vetur. Heima hlustaði hann á tónlist af gömlu plötunum sínum og grúskaði áfram.

Við Erlingur og krakkarnir okkar minnumst Jóns með hlýju og þökkum góða samfylgd.

Sigríður Stefánsdóttir.

Í huga fimm ára drengs voru flugvélar merkilegt fyrirbæri. Ekki síður var spennandi að eiga frænda sem vann um borð í slíku farartæki og sá um það að hreyflar þess snérust snurðulaust. Jón frændi flaug til framandi landa og kom heim með sögur af ferðum sínum og sýn á aðra menningarheima. Oft kom hann færandi hendi með pakka til að gleðja lítinn dreng. Eitt sinn kom hann með stóran kassa og í honum leyndist furðu nákvæm eftirlíking af alvöru flugvél. Þegar henni var rennt eftir stofugólfinu snérust fjórir hreyflar svo hvein í. Eftir nokkra daga þoldi vélin þó ekki álagið í leik snáðans og hreyflarnir hættu að snúast. Þá var heppilegt að geta farið með hana í viðgerð til frænda sem skrúfaði hana sundur og tengdi saman lausa gorma svo vélin varð aftur flughæf.

Í mörg ár var það hluti af tilverunni að fylgjast með flugferðum Jóns frænda og því sem á daga hans dreif. Hann var jafnan léttur í lund og sá oft skoplegu hliðarnar á tilverunni. Hann hafði mikinn áhuga á tónlist og gott tóneyra. Dag einn kom hann úr flugferð með forláta grammófónplötu og af henni glumdi grípandi tónlist. Þetta voru fyrstu kynni mín af Bítlunum. Áður hafði Jón veitt mér innsýn í heim jazzins og tónlist snillinga eins og Louis Armstrong, Ellu Fitzgerald, Fats Waller og fleiri. Frá ferðum sínum átti hann sjálfur ljúfar minningar frá því að hafa heyrt og séð marga þekktustu jazztónlistarmenn samtímans spila.

Á samdráttarskeiði í flugrekstri hérlendis störfuðu Jón og nokkrir Íslendingar árið 1980 fyrir tyrkneskt flugfélag í Istanbúl og bauð hann mér að heimsækja sig. Dvaldi ég í góðu yfirlæti hjá honum í tíu daga. Jón var árrisull, spratt á fætur, hitaði kaffi, skundaði út í nærliggjandi bakarí og kom að vörmu spori til baka með glóðvolgt bakkelsi sem við snæddum í morgunsólinni. Saman skoðuðum við borgina og menningararf hennar og reyndist þetta ógleymanleg ferð.

Upp úr 1956 byggðu foreldrar mínir, afi, amma og Jón þríbýlishús á lóð gamla Laugahvols við Laugarásveg. Þarna bjuggu þrjár kynslóðir í mikilli samheldni öll mín uppvaxtarár. Þegar afi og amma tóku að reskjast annaðist Jón þau af mikilli ósérhlífni og væntumþykju. Hann var barngóður og þegar ég sjáfur eignaðist börn fylgdist hann af áhuga og umhyggju með því er þau þroskuðust og uxu úr grasi.

Brennandi áhugi Jóns á flugmálum færði honum á lífsleiðinni mikla ánægju en einnig sorg og fjárhagsvandræði. Hann fór ásamt öðrum oftar en einu sinni út í flugrekstur er ekki reyndist alltaf gæfuríkur. Í þeim erfiðleikum sýndi Jón oft mikið æðruleysi og þegar sem mest á móti blés brá hann stundum fyrir sig húmornum til að halda sjó. Eftir erfið ár sem reyndu mjög á hann var ánægjulegt að sjá að undanfarið var hann aftur farinn að gleðjast yfir tilverunni, var virkur í félagslífi með vinum sínum og söng í kór sér til ánægju.

Kallið kom skjótt en ekki alveg óvænt, hann hafði í nokkur ár átt við heilsubrest að stríða. Ég kveð Jón frænda minn og mun varðveita þær góðu minningar sem ég á um hann.

Ragnar Danielsen.