Draumaumhverfi Hugmyndargerðarmaðurinn vill starfa í frjóu og jákvæðu umhverfi þar sem allar hugmyndir fá tæki færi til að blómstra, segir Einar Örn.
Draumaumhverfi Hugmyndargerðarmaðurinn vill starfa í frjóu og jákvæðu umhverfi þar sem allar hugmyndir fá tæki færi til að blómstra, segir Einar Örn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir Maríu Ólafsdóttur maria@mbl.is Einar Örn Sigurdórsson starfar sem hönnunarstjóri (Creative Director) hjá Íslensku auglýsingastofunni.

Eftir Maríu Ólafsdóttur

maria@mbl.is

Einar Örn Sigurdórsson starfar sem hönnunarstjóri (Creative Director) hjá Íslensku auglýsingastofunni. Hann lauk MA-námi í auglýsinga- og markaðsfræðum frá Emerson College í Boston árið 1995 og starfaði í um áratug á hugmynda- og hönnunarsviðum helstu auglýsingastofa Boston og Washington DC; Hill Holliday, CC&D, Allen & Gerritsen og Arnold Worldwide. Þá gegndi hann starfi hönnunarstjóra á hugmyndasviði einnar frægustu auglýsingastofu heims, DDB Worldwide, á auglýsingagötunni Madison Avenue í New York.

Áframhaldandi hugmynd

Á sínu sviði hefur Einar Örn upplifað draum margra með störfum sínum erlendis en hann segir þörf á mikilli elju og þolinmæði til að koma sér áfram í starfinu ytra. „Það tók mig um ár að komast á fastan samning hjá auglýsingastofu en mikilvægt er að koma sér upp góðri portfolio eða verkefnaskrá. Í auglýsingageiranum er miðað við að í henni séu um 20 dæmi þess sem viðkomandi hafi gert og lögð áhersla á að þú getir hannað herferðir og haldið þannig hugmynd gangandi frekar en að gera eina og eina auglýsingu,“ segir Einar Örn.

Slæmar hugmyndir líka góðar

Draumaumhverfi hugmyndagerðarmannsins til að starfa í segir Einar Örn vera frjótt og jákvætt umhverfi þar sem allar hugmyndir fá tækifæri til að blómstra og þær eru metnar að verðleikum. Það eigi ekki að skjóta niður hugmyndir of fljótt. Slæmar hugmyndir eru oft fyrirrennarar góðra hugmynda því oft kemur eitthvað gott út úr þeim á endanum. Ytra starfaði Einar Örn á mun stærri auglýsingastofum en hér fyrirfinnast þar sem starfsmenn kepptu innbyrðis um verkefni og segir hann að slík pressa hafi virkað á sig sem jákvæð hvatning. Hvort kreppan hafi mikil áhrif á sköpunargleðina segir Einar Örn að hann finni helst fyrir því að fólk hafi áhyggjur af mörgu utan vinnu. Þannig haldist einbeitingin ekki jafn góð en hún sé nauðsynleg þegar unnið er við jafn skapandi starf.

Gott að geta haft áhrif

Einar Örn segist hafa mjög gaman af starfinu. „Verkefnin eru ótrúlega fjölbreytt, krefjast forvitni, áhuga á öllu mannlegu og hæfileika til að geta látið sig dreyma undir tímapressu.“ Meðal verkefna sem hann tók þátt í erlendis voru herferðir fyrir Pepsi, Subaru, Volkswagen, Budweiser, Merck og New York Lottery. „Það er erfitt að segja til um hvort eitt ákveðið verkefni standi upp úr því sem ég gerði úti. Ég naut þess að vinna í Bud Light-sjónvarpsauglýsingum fyrir bandarísku ofurskálina Superbowl. En mér þykir líka vænt um breathe, tóbaksvarnarherferð fyrir Massachusettsríki sem þótti byltingarkennd fyrir sinn tíma. Mér finnst mjög gefandi að gera eitthvað sem hefur jákvæð áhrif á líf fólks inn á milli þess að selja bjór, gos og slíkt,“ segir Einar Örn.