Kröfuhafar Mikil óánægja er á meðal erlendra kröfuhafa með mismunun á grundvelli neyðarlaganna.
Kröfuhafar Mikil óánægja er á meðal erlendra kröfuhafa með mismunun á grundvelli neyðarlaganna. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þórð Snæ Júlíusson thordur@mbl.is Uppgjör gömlu bankanna þriggja við kröfuhafa sína verður líklega með öðrum hætti en með útgáfu skuldabréfs, líkt og upphaflega var stefnt að.

Eftir Þórð Snæ Júlíusson

thordur@mbl.is

Uppgjör gömlu bankanna þriggja við kröfuhafa sína verður líklega með öðrum hætti en með útgáfu skuldabréfs, líkt og upphaflega var stefnt að. kröfuhafarnir munu mögulega eignast hluti í nýju bönkunum, standi hugur þeirra til þess.

Lee C. Buchheit, sérfræðingur í alþjóðalögum sem hefur aðstoðað mörg ríki í greiðsluerfiðleikum, kom hingað til lands í desember og kynnti sér aðstæður í kjölfar hrunsins. Í minnisblaði sem hann skrifaði segir hann það sitt mat að ef erlendir kröfuhafar sætti sig ekki við það uppgjör sem verður geti þeir farið í dómsmál gegn bæði nýju og gömlu bönkunum til að fá upp í kröfur sínar. Ómögulegt er á þessari stundu að átta sig á hvert virði eigna gömlu bankanna þriggja er, enda beita þeir hver sinni aðferð við að áætla það. Því er með öllu óljóst hversu mikið erlendu kröfuhafarnir fá upp í kröfur sínar og hversu mikið þeir gætu þurft að sækja til íslenska ríkisins, eða fá sem hlutafé í nýju bönkunum þremur.

Gætu fryst eignir

Buchheit telur kröfuhafana geta sótt rétt sinn á grundvelli þess að setning neyðarlaganna á Íslandi þann 6. október fól í sér að innstæðueigendur voru gerðir að forgangskröfuhöfum. Með öðrum orðum var leikreglunum breytt eftir á. Þá voru allar innlendar eignir bankanna þriggja fluttar yfir í nýju bankana ásamt innlendum innstæðum. Meta átti eignirnar, halda eftir fyrir innstæðunum og setja restina yfir í gömlu bankana með skuldabréfi þar sem aðrir kröfuhafar gátu skipt henni á milli sín. Erlendu kröfuhafarnir voru margir hverjir alls ekki ánægðir með þessa niðurstöðu, enda ljóst að þeir myndu fá lítið sem ekkert af kröfum sínum greitt á meðan nýlegir forgangskröfuhafar, innistæðueigendur á Íslandi og í Icesave-löndunum Hollandi og Bretlandi, fengu allt sitt greitt.

Að mati Buchheits myndu dómsmál byggð á þessum grunni hamla því að nýju bankarnir gætu tekið þátt í alþjóðlegri bankastarfsemi án þess að eiga það á hættu að eignir þeirra verði frystar. Það myndi gera endurreisn íslenska bankakerfisins mun erfiðari en ella.

Erlendur ráðgjafi á leiðinni

Ríkisstjórnin mun á allra næstu dögum semja við erlendan ráðgjafa um að sjá um uppgjör föllnu bankanna þriggja við erlenda kröfuhafa. Ráðgjafinn mun þá semja við þá aðila sem skilanefndir Kaupþings, Landsbanka og Glitnis hafa ráðið til að gæta sinna hagsmuna, en samningaviðræðurnar munu byggjast á níunda tölulið samkomulags Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF). Þar viðurkenna íslensk stjórnvöld að „það sé lykilatriði í réttlátri meðferð gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum á hendur yfirteknu bönkunum að nýju bankarnir greiði sannvirði fyrir þær eignir sem fluttar eru frá gömlu bönkunum“.

9.700 milljarða skuld

Samkvæmt hagtölum Seðlabanka Íslands námu heildarskuldir innlánsstofnana við erlenda aðila samtals um 9.700 milljörðum króna í lok september síðastliðins, nokkrum dögum fyrir hrun íslenska bankakerfisins. Tölur Seðlabankans miða einvörðungu við skuldir móðurbankanna hér heima og útibúa þeirra erlendis, ekki skuldir erlendra dótturbanka svo sem dótturfélaganna í Lúxemborg. Heildarskuldir við erlenda aðila voru því líklegast töluvert hærri.

Alþjóðagreiðslubankinn (BIS) tekur saman upplýsingar um erlendar kröfur á íslenska banka og fyrirtæki eftir þeim löndum sem viðkomandi skuldar.

Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands byggjast tölur BIS ekki á upplýsingum frá honum. Tölur BIS gefa hins vegar vísbendingar um hvernig skuldir íslenskra banka dreifast á milli landa.

Ferli sem tekur 3-7 ár

Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans, segir matið byggt á að lán greiðist upp á líftíma sínum í ferli sem muni taka þrjú til sjö ár. „Mjög stór hluti eignanna eru lánasöfn. Við gerum ráð fyrir því að lánin greiðist upp á líftíma sínum. Ef það verður eitthvað lítið eftir munum við reyna að selja lánin. En meginreglan er sú að klára lánabækurnar. Ég hef sagt að þetta ferli muni taka frá þremur upp í sjö ár. Við munum aldrei ná að gera þetta á skemmri tíma en þremur árum.

Við teljum þetta raunhæft mat eins og staðan er í dag. Lánasöfnin sem voru færð yfir í nýja bankann hafa líka verið færð heilmikið niður. Þetta er það sem er að gerast. Það er svo mikil rýrnun á virði eigna.“

Epli og appelsínur

Steinar Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, segir áætlunina miða við virði eigna um miðjan nóvember síðastliðinn. „Við fórum nákvæmlega eftir lagabókstafnum og reyndum að verðmeta eignirnar á þessum tíma og hvað við hefðum fengið fyrir þær ef það hefði verið einhver kaupandi að þeim. Við töldum okkur ekki geta verið að verðmeta eignirnar mörg ár fram í tímann því við vitum ekki hvernig heimsmarkaðurinn verður þá. Ef menn ætla því að bera okkar verðmat saman við mat hinna bankanna er það eins og að bera saman epli og appelsínur. Hjá okkur er þetta bráðabirgðaniðurfærsla. Það er ekki dregin lína í sandinn og sagt að allir þessir fjármunir séu dauðir. Einhver hluti þeirra er enn lifandi.“

Matið byggist á núvirði eigna

Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir eignarmatið byggt á núvirði eigna. Það geri þó ráð fyrir að lántakendur greiði af lánum sínum út líftíma þess.

„Þetta er það sem við teljum núvirði eignanna en þó ekki þannig að þær séu settar á sölu. Við reiknum ekki með því að selja lán með afslætti í dag, heldur ætlum við að innheimta lánið út líftíma þess. Matið byggist því á útreikningum á núvirði þeirrar tölu. Niðurfærsla á virði eignanna er samkvæmt þessu yfirliti rúmir 500 milljarðar króna. Samkvæmt bráðabirgðamati á eignunum sem voru færðar yfir í nýja bankann, sem voru um 1.500 milljarða króna virði, er búið að taka þær niður líka um 500-600 milljarða króna. Því er alls óljóst hvað kemur aftur yfir.“