Þorbjörn Sigurgeirsson Þorbjörn Sigurgeirsson var án efa einn fremsti vísindamaður sem Ísland hefur átt. Það er mikil eftirsjá að slíkum manni, ekki aðeins fyrir þá sem þekktu hann persónulega og störfuðu við hlið hans. Ég hygg að það hafi verið dr. Trausti Einarsson sem kom mér í kynni við Þorbjörn fyrir meira en þremur áratugum. Þorbjörn var þá framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs ríkisins og hafði nýlega komið á fót segulmælingastöð í Leirvogi í Mosfellssveit. Í dagbók stöðvarinnar, sem varðveitt er, hefur Þorbjörn ritað að hann hafi sýnt mér stöðina 2. september 1957 þegar stöðin var rétt mánaðargömul. Varla hefur það hvarflað að mér þá að rekstur þessarar stöðvar ætti eftir að verða eitt helsta viðfangsefni mitt. Fimm árum síðar, þegar ég kom frá námi erlendis, réðst ég til starfa hjá Þorbirni sem þá hafði komið á fót nýrri stofnun, Eðlisfræðistofnun Háskólans. Húsakynni hinnar litlu stofnunar voru þröng en það lýsir Þorbirni vel að hann bauð mér til af nota skrifstofu sína sem var í íþróttahúsi háskólans. Þóttist hannekki þurfa á skrifstofu að halda og lét öll mótmæli sem vind um eyru þjóta.

Segulmælingastöðin var ein framkvæmd af mörgum, sem Þorbjörn átti frumkvæði að. Hann var sannur brautryðjandi, fullur af hugmyndum og áhuga á fjölmörgum sviðum, röskur til athafna og sístarfandi. Hann var óvenjulega fær sem vísindamaður, bæði á fræðilegu sviði og verklegu, en þetta tvennt fer ekki alltaf saman. Lengi vel taldi ég að þessi fjölhæfni Þorbjörns og dugnaðurinn væri skýringin á því hversu langt hannhefði náð í starfi sínu. Seinna varð mér þó ljóst, að það var annað semskipti fullt eins miklu máli; alþýð leiki mannsins og létt lund sem gerði honum fært að starfa með nánast hverjum sem var og hrífa aðra með sér. Ég hef sjaldan kynnst manni sem var jafn laus við allt yfirlæti. Hið vingjarnlega og föðurlega viðmót varð til þess að menn leituðu til Þorbjarnar með hverskyns vandamál sem upp koma í sambandi við starfið; hann tók öllum vel og var jafnan úrræðagóður og fús til að veita aðstoð sína.

Þegar Raunvísindastofnun Há skólans leysti Eðlisfræðistofnunina af hólmi árið 1966 gerðist Þorbjörn forstöðumaður einnar af fjórum rannsóknarstofum stofnunarinnar og gegndi því starfi næstu tíu árin. Allan þann tíma fannst mér sem hann væri yfirmaður stofnunarinnar allrar í vísindalegum efnum þótt hvergi væri sú staða formlega skráð og hann myndi aldrei hafa viðurkennt það sjálfur.

Ég ætla ekki að gera tilraun tilþess hér að rekja störf Þorbjarnar í þágu vísindanna og háskólans. Bestar upplýsingar um þetta er að finna í bókinni "Í hlutarins eðli" sem gefin var út á síðasta ári til heiðurs Þorbirni sjötugum.

Eftir að fregnin barst um fráfall Þorbjarnar hafa sótt á huga minn minningar frá liðnum samverustundum. Sérstaklega minnist ég mælingaferða sem við fórum saman til ýmissa staða á landinu, þar á meðal til Surtseyjar, en Þorbjörn gekk ötullega fram við rannsóknir þar meðan á gosinu stóð. Þá verður mér hugsað til flugferða með Þorbirni, því að við áttum sameiginlegtáhugamál þar sem flugið var. Þorbjörn var áræðinn og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Sannaðist þetta oft á ferðalögum, hvort semvar í lofti, á láði eða legi. Skal ég játa að mér þótti dirfska Þorbjarnar stundum jaðra við glannaskap og óttaðist að illa færi. En Þorbjörn slapp heill úr hverri raun.

Ég veit að ég á eftir að sakna þess mjög að geta ekki framar rætt við Þorbjörn um ný og gömul viðfangsefni, geta ekki leitað hjá honum ráða eða notið reynslu hansog þekkingar. Hér eftir verður minningin að nægja mér og öðrum sem eru svo lánsamir að hafa átt hann að samferðamanni. Þórdísi konu hans og sonum þeirra hjóna votta ég samúð mína á þessari sorgarstundu.

Þorsteinn Sæmundsson