Þarfaþing Excel getur margt fleira en að búa til töflur og halda utan um heimilisbókhaldið. Með því að þekkja möguleika forritsins vel má spara vinnu og tíma.
Þarfaþing Excel getur margt fleira en að búa til töflur og halda utan um heimilisbókhaldið. Með því að þekkja möguleika forritsins vel má spara vinnu og tíma. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir Ingvarsson asgeiri@mbl.

Eftir Ásgeir Ingvarsson

asgeiri@mbl.is

„NÁMSKEIÐIÐ er ætlað þeim sem vilja hámarka afköst sín við meðhöndlun gagna í Excel,“ útskýrir Eðvald Möller en hann er umsjónarmaður námskeiðsins Excel II – fjármál og rekstur sem hefst hjá Endurmenntun Háskóla Íslands á þriðjudag.

Öflugt verkfæri

„Excel er mjög vannýtt forrit í rekstri í dag, sérstaklega í minni og meðalstórum fyrirtækjum. Þetta er eitt besta verkfæri sem völ er á til að auka framleiðni í rekstri og hægt að nota á öllum sviðum fyrirtækisins, en almennt virðist fólk ekki nýta sér nema hluta þeirra möguleika sem Excel hefur upp á að bjóða,“ segir hann. „Með Excel verður allur útreikningur og úrvinnsla gagna einfaldari og sjálfvirkari og fólk getur aukið afköst sín verulega með því að kunna að nota forritið rétt.“

Eins og yfirskriftin gefur til kynna er um framhaldsnámskeið að ræða, en þó er ekki nauðsynlegt að hafa annan grunn en að þekkja einföldustu aðgerðir í forritinu: „Náminu er sérstaklega ætlað að gagnast þeim sem vinna með gögn og þurfa að setja upp líkön, til dæmis við bókhald, vörustjórnun og fjármál,“ segir Eðvald og bætir við að námskeiðið sé ekki síður hugsað fyrir þá sem þegar hafa lært á þessi helstu verkfæri í Excel en þurfa á upprifjun að halda. „Nemendur ráða nokkuð hraðanum, en okkur gefst þó góður tími til að læra svo vel á forritið að allir útskrifast með mjög góða þekkingu og eru færir um að geta fótað sig vel í Excel. Jafnframt fá allir bókina Excel handbók viðskiptamannsins og tengingu við heimasíðu námskeiðsins þar sem hægt er að nálgast rekstrarlíkön sem spanna margvíslega notkun í Excel.“

Föll og formúlur

Námskeiðið er haldið í þrjá daga í mars, frá 12.15 til 16.15 í hvert skipti: „Við skoðum meðal annars bestun með notkun Solver -skipunarinnar, en hún gerir kleift á einfaldan hátt að finna hagkvæmustu lausn t.d. um forsendur eins og magn eða verð,“ útskýrir Eðvald. „Við förum síðan í innbyggð föll í Excel, og hvernig þau geta hjálpað okkur við og einfaldað allan útreikning. Nemendur læra svo líka að búa til ný föll fyrir ólík viðfangsefni.“

Á námskeiðinu mun Eðvald einnig leiða nemendur í allan sannleika um notkun Scenario Manager : „Sú skipun hjálpar t.d. við að fá spá miðað við breytilegar forsendur,“ segir hann. „Einnig lærum við uppbyggingu fjölva ( macro ) og notkun þeirra, en fjölvar nýtast m.a. til að sækja gögn með sjálfvirkum hætti í gagnagrunna, jafnt innan fyrirtækja sem utan, og laga niðurstöðurnar að þörfum notandans til hvers kyns úrvinnslu. En þetta er aðeins brot af því sem komið er inn á í námskeiðinu.“

Nánari upplýsingar og skráning eru á heimasíðu EHÍ á slóðinni www.endurmenntun.is