2. mars 1994 | Innlendar fréttir | 569 orð

Höfundur hinna þekktu bóka um Basil fursta kominn í leitirnar Dani sem samdi

Höfundur hinna þekktu bóka um Basil fursta kominn í leitirnar Dani sem samdi undir mörgum dulnefnum Sögurnar um Basil voru gefnar út í tugatali hér á landi LJÓST er orðið hver var höfundur að sakamálasögunum um Basil fursta og reyndist það vera danskur...

Höfundur hinna þekktu bóka um Basil fursta kominn í leitirnar Dani sem samdi undir mörgum dulnefnum Sögurnar um Basil voru gefnar út í tugatali hér á landi

LJÓST er orðið hver var höfundur að sakamálasögunum um Basil fursta og reyndist það vera danskur höfundur að nafni Niels Meyn. Um árabil hafa menn velt vöngum yfir hver gæti verið höfundur að Basil fursta en sögurnar um hann eru fyrir löngu orðnar fágæti fyrir safnara hérlendis. Ásgeir Eggertsson, fjölmiðlafræðingur, fékk vísbendingu frá Íslendingi sem skoðað hafði sýningu á dönskum glæpabókmenntum í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn árið 1984 og þóttist þekkja þar hefti með Basil fursta. Samkvæmt upplýsingum sem Ásgeir aflaði sér komu út 64 hefti með ævintýrum Basils fursta á árunum 1926­1927 í Danmörku hjá þremur mismunandi forlögum og er Niels Meyn að minnsta kosti höfundur fyrstu heftanna. Meyn fæddist árið 1891 í Kaupmannahöfn og lést árið 1957 í Gentofte.

Basil fursti birtist fyrst í bók á íslensku árið 1939 hjá Sögusafni heimilanna sem Árni Ólafsson stóð að. Talið er að Páll Sveinsson, barnaskólakennari í Hafnarfirði, hafi íslenskað Basil fursta að mestu. Innihélt bókin sex sögur, bók númer tvö kom út 1940 og þriðja bókin árið 1941 og innihélt fimm sögur. Í beinu framhaldi af þessari útgáfu var farið að gefa út sérhefti með myndskreyttum kápum, í einum lit að jafnaði, og innihélt hvert hefti eina sögu. Fyrsta heftið hét Konuræninginn og er merkt sem fyrsta hefti í fjórðu bók, og næstu tvö hefti á sambærilegan hátt, þó að fjórða bókin kæmi aldrei út. Alls voru gefin út 52 hefti frá 1941 og til ársins 1947, að því talið er. Í seinasta heftinu sem kom út í þessari útgáfu, Tvíburasystrunum, gekk Basil fursti, sem var kunnur kvenhatari, í hjónaband og lauk ævintýrum hans að því loknu.

Kringum 1960 kom út þriðja útgáfan af Basil fursta, og var um að ræða endurprentun á sömu heftum og voru í bókunum annars vegar og hins vegar nokkrum lausum heftum, alls 23­24 hefti. Bláa þokan var fyrsta heftið af þeirri útgáfu og Gulldúfan númer 23. Síðan voru endurprentuð kringum 1970 tvö hefti af Basil fursta í nútímalegri útgáfu og eru þau almennt ekki hátt skrifuð af sönnum Basil fursta aðdáendum.

Ótal dulnefni

Að sögn Ásgeirs samdi Niels Meyn fjöldann allan af alþýðubókmenntum í sama dúr og Basil fursta, ásamt barnabókum og dýrasögum, skáldsögum, smásögum og skrifaði jafnframt í blöð og tímarit. Ásgeir segir að í danska rithöfundatalinu séu 142 bækur eftir Meyn taldar upp, að meðtöldum þýðingum á erlend tungumál. "Um tíma starfaði Meyn sem bókavörður á bókasafni dagblaðsins Politiken, eftir endasleppt nám í efnafræði. Skrifaði hann fyrstu sögu sína 19 ára gamall og birtist hún í tímaritinu Hjemmet árið 1910. Eignaði hann sér gjarnan stælingar og þýðingar sínar á erlendum reyfurum því greiðslur fyrir frumsamin skrif voru hærri en fyrir þýðingar," segir Ásgeir. Hann segir að Meyn hafi notað ótal dulnefni á ferli sínum, s.s. Charles Bristol, Anne Lykke, George Griffith, Harold Chester, Rex Nelson, David Gartner og Gustav Hardner, auk þess að senda frá sér efni þar sem höfundar var ekki getið, en sú var raunin með Basil fursta.

Landflótta fursti

HEFTIN um Basil fursta báru ætíð æsilegar myndir á forsíðu í samræmi við efnisþráð, auk þess sem Basil birtist þar sjálfur með einglyrni og afturkembt hár. Ýjað var að því í heftunum að Basil væri rússneskur aðalsmaður, jafnvel náskyldur keisaranum, sem yfirgefið hefði föðurland sitt eftir byltinguna 1917.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.