22. mars 2009 | Innlent - greinar | 2435 orð | 2 myndir

Tregafullur húmoristi

— Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þau hafa alltaf haft gaman af að leika sér. Systkinin Ragnar Kjartansson myndlistarmaður og Sigrún Edda Björnsdóttir leikkona eru trúnaðarvinir og tala jafnt um lífið og listina, sem í þeirra tilfelli er oft einn og sami hluturinn.
Eftir Freystein Jóhannsson

freysteinn@mbl.is

Sigrún Edda: Ég var 18 ára þegar Ragnar fæddist. Þegar aldursmunurinn er svona mikill setur hann svip sinn á sambandið, ég fékk Ragnar eiginlega sem æfingabarn, því ég eignaðist dóttur tveimur árum síðar og þau urðu einsog systkini. Ragnar var mjög stórt barn, hálfgert tröllabarn allt frá fæðingu. Ég man að mamma kveið alltaf fyrir því að fara með hann í ungbarnaskoðun vegna þess að hún var alltaf skömmuð fyrir það hvað hann var þungur. En mér fannst hann sætasta barn í heimi og vorkenndi öðrum börnum á hans reki fyrir það hvað þau voru veikluleg og miklar píslir.

Ragnar var ægilegt matargat. Það upphófst alltaf mikið kapphlaup þegar maður mataði hann. Það þurfti að hafa snögg handtök að koma bitunum nógu hratt upp í hann svo hann næði ekki að góla. Ef eitthvað klikkaði þá fóru tilfinningarnar með hann og honum lá við köfnun af óhamingju. Til að ljúka máltíðum þurfti að setja í hann tappa. Sá tappi var snudda sem vætt var í hunangi. Sú aðgerð hafði reyndar þær afleiðingar að barnatennurnar hans komu skemmdar niður. Þannig að framan af aldri leit hann út eins og sætt feitabolluhrekkjusvín. Hans mesta skemmtun var að dingla í hopprólu undir harmonikkuleik. Önnur tónlist kom ekki til greina. Harmonikka var það hljóðfæri sem hann hreifst fyrst af. Ég tók það oft að mér að passa hann. Kallaði hann alltaf Ragnar rúsínubollurass. Hann var mjög ánægður með það viðurnefni. En hann var ekki alveg sáttur þegar ég hélt því einhverntíma fram að presturinn sem skírði hann hefði verið búinn að fá sér í aðra tána og hefði óvart sagt: „Ég skíri þig Ragnar Rúsínubollurass.“ Hef reyndar grun um að viðurnefnið Rassi Prump sem var það listamannsnafn sem hann tók sér á yngri árum eigi sér rætur í Rúsínubollurassinum. Rassi Prump kom reyndar fyrst fram opinberlega í fertugsafmælinu mínu og söng frumsamið hrokafullt lag til systur sinnar. Rassi var og er ótrúlega fyndinn karakter. Hann var alger andstæða við þann prúða dreng sem Ragnar gaf sig út fyrir að vera.“

Blanda af ljúflingi og skapmanni

„Ég held að við gleymum því hvorugt þegar ég tók að mér að passa hann nokkra mánuði þegar foreldrar hans voru erlendis. Þá var ég nýútskrifuð leikkona. Sambúðin gekk mjög vel, ég tók meðal annars að mér að klippa hann. Ég hafði ofurtrú á leikarahæfileikum mínum og var viss um að ef ég hermdi eftir góðum klippara þá tækist mér að klippa drenginn. Mér tókst nokkuð vel upp með toppinn en þegar kom að því að klippa á honum hnakkann fór að kárna gamanið. Ég spurði hann þá hvort honum fyndist í lagi að vera dálítið pönkaður í hnakkann en hann var alls ekki á því. Hann hvítnaði af áhyggjum og fór að titra. Ég sá í hvað stefndi og flýtti mér með hann til rakara og hef ekki tekið að mér klippingar síðan. Ragnar hefur alltaf haft ákveðnar skoðanir varðandi hárgreiðslu að ég nú ekki tali um klæðaburð. Það mátti til dæmis aldrei vera blettur í fötunum hans. Þá var hann alveg ómögulegur.

Í fyrrnefndri sambúð var ég grænmetisæta, Ragnari til lítillar skemmtunar. Þegar hann hafði búið við eldamennsku systur sinnar, sem samanstóð af baunum, spelti og þrumara um nokkurt skeið þá andmælti hann kröftuglega þegar hann fékk blómkál í ofni með bræddum osti í sunnudagsmatinn. Þá tók hann kastið. Fyrst trilluðu tár niður bollukinnarnar og svo rak hann upp org, skellti sér í gólfið og barði hnakkanum í parketið þangað til að ég lofaði því að ég skyldi fara með hann á Pulsuvagninn. Ragnar hefur alltaf verið þessi blanda af ljúflingi og skapmanni. Hann var til dæmis í ungmennahljómsveitinni Kósí sem heillaði allar verðandi tengdamæður upp úr skónum fyrir prúðmennsku og svo var hin hliðin, Rassi Prump, sem móðgaði menn hægri, vinstri með hroka og óþægilegum sannindum. Fjölskyldumeðlimir voru mishrifnir af því þegar hann, strax eftir menntaskóla, varð fyrstur karlmanna til að setjast á skólabekk í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Sumum fannst mikið á sig lagt fyrir langan brandara, en mér fannst þetta frábært uppátæki enda Ragnar dekraður af kvenfólkinu í fjölskyldunni og hafði aldrei þurft að elda, hvað þá þvo af sér. Ég mætti á handavinnusýningar hjá töffaranum mínum, skoðaði þar útsaumuð vöggusett og var heiðruð á sunnudegi með fölskum héra þar sem umræðuefnið var rétt blanda hreinsiefna og nauðsyn á heimilisbókhaldi. Ragnar hefur alltaf verið stemningsmaður. Þegar hann var 10 ára gamall eignaðist hann vinkonu sem var að læra á selló. Þá fór Ragnar að læra á fiðlu svo þau gætu spilað saman dúett. Ég held að hann hafi verið átta eða níu ára þegar hann fékk laun fyrir að leika í söngleiknum Land míns föður. Þessum aurum eyddi hann í að bjóða stelpunni sem hann var skotinn í út að borða. Það eru nú ekki margir á þeim aldri sem geta státað af annari eins sjéntilmennsku.

Nú er samband okkar öðruvísi. Hann er ekki lengur barn. Við erum vinir og jafningjar og samband okkar mótast af því. Það er einstaklega gott að tala við Ragnar. Við fylgjumst vel hvort með öðru bæði persónulega og í starfi. Hann er alltaf einlægur og hvetjandi.“

Sorgin sigrar hamingjuna

„Mér finnst svo fallegt við Ragnar hvað hann er trúr sjálfum sér, hann hefur aldrei áhyggjur af því hvað öðrum finnst . Hann fer sínar eigin leiðir, er óhræddur og laus við tilgerð. En hann er ekki allra. Viðfangsefni hans eru ögrandi og frumleg og hann hefur einu sinni náð að ganga fram af mér í óhugnaði, en heilla mig um leið. Það tengdist mögnuðum performans sem hann gerði undir Eyjafjöllum og hét „Ókyrrðin mikla.“ Það var reyndar þá sem ég uppgötvaði að bróðir minn væri snilli. Ragnar er laus við stæla, hann getur staðið við allt sem hann gerir og leggur mikið á sig fyrir list sína. Ég þekki fáa sem eru jafn heilir og heiðarlegir í því sem þeir gera. Það er einhver djúpur sársauki í verkum hans um leið og þau eru full af húmor. Það lá ekkert í augum uppi að hann yrði myndlistarmaður. Hann er fær á svo mörgum sviðum. Hann er líka góður leikari og hæfileikaríkur tónlistarmaður. Ég veit að hann þurfti að gera upp við sig hvað hann ætti að leggja áherzlu á og hann valdi myndlistina. En tónlist og leiklist eru ríkir þættir í myndlistinni hans. Eitt af uppáhaldsverkunum mínum eftir hann er rómantísk mynd af konu sem situr við á. Þegar betur er að gáð þá sér maður að handleggurinn hefur verið höggvinn af henni. Það er stór harmsaga á bakvið þetta annars fallega andartak. Þessi mynd var sýnd í tengslum við sýningu sem hét Scandinavian pain. Þá var Ragnar kominn í umboðssölu hjá galleríi og orðinn rándýr myndlistarmaður. Ég sagði honum að ég ætlaði að finna leið til kaupa málverkið. En áður en til þess kom seldi hann verkið úti í Frakklandi frægum kvikmyndaleikara. Það gladdi mig því mjög þegar hann færði mér þessa sömu mynd í afmælisgjöf. Hann tók sig bara til og málaði annað eintak. Þessi mynd ber með sér öll sterkustu höfundareinkenni Ragnars; trega, húmor og heiðarleika. „Sorrow conquers happiness“ söng hann í einum af sínum flottustu gjörningum sem hann kallaði því látlausa nafni „Guð“. Þessi setning finnst mér lýsa bezt listamanninum Ragnari Kjartanssyni.“

Svalari systur varla hægt að hugsa sér

Ragnar: „Ég man eftir Sissu systur minni frá því ég var í frumbernsku. Og við Guðrún Birna, dóttir hennar, erum á líku reki og vorum mikið saman sem krakkar. Ýmist pössuðu mamma og pabbi hana eða Sissa mig. Það var rosalega gaman og gott að vera hjá Sissu. Ég á aðeins eina hræðilega minningu frá því að vera hjá henni og það er þegar hún ákvað að gerast grænmetisæta og bar fram soðinn blómkálshaus. Þá fríkaði ég út. Allt annað var bara dásamlegt.

Hún var mjög uppátektarsöm og er svo sem enn. Það voru alltaf einhver ævintýri í gangi hjá henni. Þegar hún nennti ekki á fætur hélt hún okkur Guðrúnu í rúminu með því að segja okkur endalausar sögur sem hún spann upp á staðnum. Þannig gat hún haldið okkur hjá sér svo lengi sem henni hentaði að lúra. Þvílíkir tímar. Gullnir bernskudagar. Og það var ekki verra, þegar ég var 6 ára, að eiga systur sem lék Línu langsokk. Ég bar tilfinningaþrungna lotningu fyrir systur minni að vera líka Lína. Ég var svo lítill og vitlaus að það var dáldið flókið að skilja á milli leikhúss og veruleika, Sissa var Lína! Það er rétt hægt að ímynda sér hvað ég hef montað mig mikið yfir því í Melaskólanum

Hún átti heilmikið Barbie-dót sem ég lék mér mikið með, ég man að það mátti borða sælgætið í Barbie-búðinni. Mig minnir að hún hafi ekki verið neitt yfir sig hrifin af því áti mínu, því þetta var 20 ára gamalt, en svo fannst henni það bara fyndið.

En hún var líka rosamikill nagli og gat verið ströng. Ég var mikil væluskjóða og hún var alltaf að segja mér að hætta að væla og tala í mig kjark. Bæði hún og mamma eru móðurmyndir. Ég man að ég hugsaði, þegar Sissa var að reyna að siða mig til: Hún er bara systir mín og ég þarf ekki að taka eins mikið mark á henni og mömmu. En hún var nú fljót að koma mér í skilning um að þetta var ekki alveg rétt hugsað hjá mér. Hún gat skammað mann alveg í klessu, full af botnlausum kærleika.“

Lifir í loftköstulum ímyndunaraflsins

„Mér fannst Sissa alltaf lifa miklu ævintýralífi. Hún var alltaf alveg ótrúlega flott, sötrandi rauðvín með vinkonum sínum, dró mig með í kommúnistaferðir og náði sér alltaf í einhverja stórfurðulega kærasta. Svalari systur er varla hægt að hugsa sér. Þegar ég var unglingur fór hún að vera með núverandi eiginmanni sínum, mesta töffaranum í bænum, honum Langa Sela, og hann lánaði mér leðurjakka og rafmagnsgítar. Ég mætti í leðurjakkanum í Hagaskóla og var alveg sama þó að mér væri strítt. Síðan fór ég heim eftir skóla og pósaði með gítarinn fyrir framan spegilinn. Kunni ekkert að spila, bara pósa.

Eftir að ég fullorðnaðist höfum við verið á trúnóstiginu. Það er notalegt að eiga trúnaðarsamband við hana, hún er svo sannur vinur. Og það er gott að tala við hana um blessaðar tilfinningarnar. Hún er frábær vinur. Við tölum um lífið og listina, við fylgjumst með bralli hvort annars og peppum hvort annað upp. Hún er alltaf að hugsa um eitthvað spennandi, sískrifandi og lifir í loftköstulum ímyndunaraflsins. Hún býr til alveg frábæra hluti fyrir börn, hefur alltaf gert. Hún skilur töfra. Man eftir að einu sinni þegar hún var blönk gaf hún mér í jólagjöf spólu þar sem hún las ævintýri og spilaði á blokkflautu. Þetta var uppáhalds barnaplatan.“

Hrekkirnir eldast ekki af henni

„Þegar ég hugsa um systur mína verð ég alltaf spenntur, eins og eitthvert ævintýri sé í uppsiglingu. Hún er svo lifandi og skemmtileg. Það jafnast ekkert á við að hanga með henni og hennar fjölskyldu. Perlustundir.

Sissa er díva með gullhjarta. Hún er díva hún systir mín, það er ekki hægt að neita því. Mamma og systir mín eru dívur. Ég er alinn upp af stórkostlegum konum sem reykja sígarettur með munnstykki í sterkum ljóskösturum. Systir mín er afskaplega skynsöm sem er sjaldgæfur eiginleiki í minni fjölskyldu. En hún er líka mikil tilfinningavera, eilífðar smáblóm og titrandi strá.

Svo er hún ofsalega fyndin. Hefur gaman af því að rugla í börnum. Þegar hún var yngri stundaði hún það að stríða Leif bróður með því að þykjast vera dauð á meðan hún var að passa hann. Hún ruglaði líka heilmikið í mér, en það var ekki alveg jafn brútal. Hún var orðin svo þroskuð þegar ég var lítill. Hún laug að mér að ég héti fullu nafni Ragnar Rófuprump Kjartansson og ýmislegt fleira. Hrekkirnir hafa ekkert elzt af henni. Hún er mjög fyndin, kaldhæðin og skemmtileg. En núorðið fær stríðnin mann einhvern veginn til að líða vel, það er svo mikill kærleikur í þessu öllu.“

Munúðarfulli klósetthreinsitextinn

„Við unnum saman sýningu í Iðnó til heiðurs mömmu á 50 ára leikafmæli hennar. Ég gerði leikmyndina og Sissa leikstýrði mömmu. Dáldið magnað að fylgjast með mæðgunum eiga í leikara/leikstjóra sambandi. Sissa vann þá sýningu af miklum heilindum og eldmóð, það var heiður að fá að vinna með henni. Henni tókst að láta mömmu leika sjálfa sig, alveg í botn. Svo unnum við Sissa saman í Björk of course og það fannst mér alveg frábært. Hún er góður samstarfsmaður. Alveg rosalega góð leikkona. En hún tekur sjálfa sig aldrei of alvarlega, hún tekur bara listina alvarlega. Mér finnst svo gaman hvað hún fær djúsí rullur núna þegar hún er komin á virðulegri aldur...engar Línur, Ronjur og yngismeyjar heldur „Blanche DuBois“ og „Milljarðamærin“... Það er búinn að vera alger galdur að fylgjast með henni á sviðinu síðustu ár.

Einn af skemmtilegustu útúrdúrunum á hennar listferli var þegar hún las inn á „Closan Flush“-auglýsingu fyrir nokkrum árum. Yfirleitt þrábið ég hana að fara með munúðarfulla klósetthreinsitextann. Það er uppáhaldið mitt. En svona grínlaust þá kemur hún til listarinnar full auðmýktar og fífldirfsku sem er alveg hin hárrétta blanda. Hún hefur kennt mér rosalega mikið um hvernig maður á að vera sem listamaður og líka hvernig maður á að láta lífið vera ævintýri.“

Ragnar Kjartansson

Hann fæddist 3. febrúar 1976, sonur leikaranna Guðrúnar Ásmundsdóttur og Kjartans Ragnarssonar. Hann gekk í Melaskóla, Hagaskóla, MR, Hússtjórnarskólann og útskrifaðist frá Listaháskólanum 2001. Hann hefur fengizt við ýmsa miðla; myndbönd, innsetningar, skúlptúr og málverk og gjörningar hans þykja frumlegir og eftirminnilegir. Hann er nú fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum og segir í kynningu frá Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar að hann sé yngsti listamaður sem hafi verið valinn á Tvíæringinn. „Með honum teflir Ísland fram ungum listamanni sem hefur á skömmum tíma byggt upp eftirtektarvert höfundarverk og sýn ingaferil.“

Hann er kvæntur Ásdísi Sif Gunnarsdóttur myndlistarmanni.

Sigrún Edda Björnsdóttir

Hún fæddist 30. ágúst 1958 í Reykjavík, dóttir Guðrúnar Ásmundsdóttur leikara og Björns Björnssonar flugvirkja.

Hún útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1981, starfaði hjá Þjóðleikhúsinu 1981-1985 og 1996-1998 og hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1985-1996 og frá 1998. Leikari hjá Alþýðuleikhúsinu 1982-1984. Hún hefur einnig leikið í sjónvarpsþáttum, sjónvarpsleikritum, útvarpsleikritum og kvikmyndum, hefur leikstýrt verkum á sviði, í útvarpi og sjónvarpi og skrifað handrit fyrir sjónvarp og barnabækur.

Hún hefur hlotið verðlaunatilnefningar fyrir leik og leikstjórn og fyrir hlutverk Láru í Degi vonar var hún valin bezta leikkonan í aðalhlutverki.

Hún er tveggja barna móðir. Eiginmaður hennar er Axel Hallkell Jóhannesson leikmyndahönnuður.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.