Cruz Leikur í Brotnum faðmlögum, einnar af tuttugu myndum sem keppa um Gullpálmann.
Cruz Leikur í Brotnum faðmlögum, einnar af tuttugu myndum sem keppa um Gullpálmann.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Verður þetta ekki bara vín og fagrar konur?“ spurði einn kolleginn þegar ég sagði honum að ég væri að fara á kvikmyndahátíðina í Cannes fyrir Moggann.

Verður þetta ekki bara vín og fagrar konur?“ spurði einn kolleginn þegar ég sagði honum að ég væri að fara á kvikmyndahátíðina í Cannes fyrir Moggann. Ég jánkaði vitaskuld, en þótt ég fúlsi seint við áðurnefndu þá verð ég að viðurkenna að aðalástæða fararinnar er engu að síður bíómyndirnar. Hátt í hundrað myndir sem langflestar eru sýndar í fyrsta skipti í heiminum í Cannes, margar stórmerkilegar bíómyndir sem óvíst er að ameríkaníseruð bíóhúsin hér heima sjái sér fært að sýna nokkru sinni – en líka aðrar sem virðast vera hreinræktaðar Hollywood-myndir í besta skilningi þess orðs, draumar frá draumaverksmiðjunni. Að því sögðu útiloka ég samt ekki að ég gæti misst af eins og einni mynd ef Penelope Cruz vill endilega panta aðra rósavínsflösku.

Cruz leikur einmitt í Brotnum faðmlögum ( Los abrazos rotos ) Pedros Almodóvars, einnar af tuttugu myndum sem keppa um Gullpálmann, aðalverðlaun hátíðarinnar. Almodóvar er einn fjögurra fyrri sigurvegara þar, Ang Lee mætir með Taking Woodstock og Íslandsvinirnir Quentin Tarantino og Lars von Trier mæta sömuleiðis. Von Trier sýnir okkur Anti-Christ , biblíuskotna hryllingsmynd sem skartar aðeins tveimur leikurum, báðum góðum, þeim Willem Defoe og Charlotte Gainsbourg. Tarantino er með spagettí-stríðsmyndina Inglorious Basterds og getur vart talist sérstaklega líklegur sigurvegari. Hann var nefnilega nærri því búinn að ráða Isabelle Huppert í myndina en hætti svo við, út af stjörnustælum segir sagan en Huppert sjálf sagðist hreinlega ekki hafa verið nógu spennt fyrir hlutverkinu. Nú er hún hins vegar formaður dómnefndarinnar í Cannes.

Þekktir leikstjórar á borð við hina áströlsku Jane Campion, heimamanninn Gaspar Noé og Bretana Ken Loach og Andreu Arnold keppa einnig um pálmann gyllta og raunar hafa allir leikstjórarnir tekið þátt áður. Það þykir sumum sýna fram á styrk keppninnar í ár en aðrir segja þetta bera merki um skort á ævintýragirni og dirfsku. Sannleikann finnum við væntanlega í bíósalnum.

Það nafn sem kom mér þó mest á óvart í aðalkeppninni var franski leikstjórinn Alain Resnais, einfaldlega af því ég reiknaði með að hann væri dauður eða í það minnsta kominn á eftirlaun, enda fimmtíu ár síðan hann keppti um Gullpálmann með einhverri ljóðrænustu og fallegustu bíómynd sem ég hef séð, Hiroshima mon amour . En sá gamli er enn að þótt hann eigi tæpan mánuð í 87. afmælisdaginn og í Cannes fáum við að sjá ástarsöguna Villigrös ( Les herbes folles ), sem ku gerast í háloftunum þar sem lögmál þyngdaraflsins og ástarinnar rekast hvort á annað.

En þótt flestar helstu myndirnar séu í aðalkeppninni þá eru vissulega einhverjar kanónur fyrir utan hana. Francis Ford Coppola með Tetro , Alejandro Amenabar með Agora , Michel Gondry með Þyrninn í hjartanu ( L'epine dans le coeur ), Sam Raimi með miðnætursýningu á Drag Me to Hell og Terry Gilliam með síðustu mynd Heaths heitins Ledgers, The Imaginarium of Doctor Parnassus . Opnunarmyndin Up kemur frá Pixar og fjallar um þybbinn skátadreng sem heimsækir gamlingja nokkurn í þann mund sem hús þess gamla fer á flug, bókstaflega. Pixar-menn hafa lýst þeim gamla sem blöndu af Spencer Tracy og Walter Matthau, sem eru vissulega gleðitíðindi enda hef ég beðið eftir nýrri Spencer Tracy mynd frá því áður en ég fæddist.

En draumurinn er samt alltaf að uppgötva eitthvað splunkunýtt, leikstjóra sem ekkert okkar þekkir ennþá, stórleikara framtíðarinnar eða jafnvel áður óþekkt kvikmyndaform. Ég læt ykkur vita hvernig gengur í reglulegum Cannes-pistlum hér í blaðinu en þetta verður að duga í bili, ég þarf að fara að pakka jakkafötunum.

asgeirhi@mbl.is

Myndir í aðalkeppninni:

Bright Star e. Jane Campion

Spring Fever e. Lou Ye

Antichrist e. Lars von Trier

Enter the Void e. Gaspar Noé

Andlit (Visages) e. Tsai Ming-liang

Villigrös (Les herbes folles) e. Alain Resnais

Í upphafi (À l'origine) e. Xavier Giannoli

Spámaðurinn (Un prophète) e. Jacques Audiard

Hvíti borðinn (Das weiße Band) e. Michael Haneke

Vengeance e. Johnnie To

The Time That Remains e. Elia Suleiman

Vincere e. Marco Bellocchio

Kinatay e. Brillante Mendoza

Þorsti (Bakjwi) e. Park Chan-wook

Brotin faðmlög (Los abrazos rotos) e. Pedro Almodovar

Map of the Sounds of Tokyo e. Isabel Coixet

Fish Tank, e. Andrea Arnold

Looking for Eric e. Ken Loach

Inglourious Basterds e. Quentin Tarantino

Taking Woodstock e. Ang Lee

Ásgeir H Ingólfsson