Níels Þórarinsson fæddist í Hafnarfirði 8. október 1912. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi í Hafnarfirði 6. maí 2009. Hann var sonur hjónanna Borghildar Níelsdóttur, f. 2. maí 1886, d. 14.7. 1973, og Þórarins Kristins Guðmundssonar, f. 2.8. 1884, d. 29.12. 1954.

Kona Níelsar er Anna Ragnheiður Erlendsdóttir, f. 3.9. 1926. Börn þeirra eru: 1) Steina Borghildur viðskiptafræðingur, f. 18.9. 1964, sambýlismaður Gunnar Níelsson viðskiptafræðingur, f. 9.2. 1963, þau og eiga 2 dætur, Hafdísi Erlu, f. 27.8. 1997, og Önnu Lilju Dögg, f. 19.3. 2004. 2) Jóhanna, f. 1970, d. 1970. Einnig ól Níels upp son Önnu, Víglund Þorsteinsson vélstjóra og bónda, f. 21.5. 1952, en faðir Víglundar, Þorsteinn Víglundsson, frá Höfða í Biskupstungum lést árið 1955. Víglundur giftist Lovísu Maríu Erlendsdóttur, en þau slitu samvistum. Sambýliskona Víglundar er Svava Theodórsdóttir rekstrarfræðingur.

Níels ólst upp í Hafnarfirði og bjó einnig að Selsgarði á Álftanesi stuttan tíma þegar hann var barn að aldri. Eftir það bjó hann lengst af á Reykjavíkurvegi 9, Hafnarfirði. Níels lauk barnaskólaprófi frá Barnaskóla Hafnarfjarðar og byrjaði snemma að vinna fyrir sér eins og tíðkaðist á þeim tíma við fiskbreiðslu og fiskþurrkun. Einnig starfaði hann við afgreiðslustörf í Steingrímsbúð í Hafnarfirði jafnframt því sem hann hóf störf sem kvikmyndasýningarmaður 15 ára gamall. Starfi kvikmyndasýningarmanns gegndi hann í 30 ár samhliða öðrum störfum. Fólust þau störf m.a. í lagningu Sogslínu til höfuðborgarsvæðisins, verkstjórn við byggingu beggja hafnargarðanna í Hafnarfirði, verkstjórn hjá byggingarfélaginu Þór og Dröfn, Hafnarfirði, reisingu álversins í Straumsvík o.fl. stórra byggingarmannvirkja í Hafnarfirði. Árið 1970 réðst svo Níels til starfa sem húsvörður við Víðistaðaskóla í Hafnarfirði, en því starfi gegndi hann í 15 ár, þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Gamlir nemendur skólans minnast Níelsar ennþá með mikilli hlýju, en aldrei þurfti hann að brýna raustina við nemendur. Útgeislun hans var með þeim hætti að þeir hlýddu umsvifalaust án þess að mögla.

Samhliða vinnu og eftir starfslok hélt Níels áfram byggingu húsins við Norðurbrautina og síðar Klettahraunsins sem hann náði að ljúka við, en þar bjó hann uns veikindin tóku yfirhöndina. Þá sinnti hann einnig garðrækt, trjárækt og kartöflurækt alveg til ársins 2007, en það var síðasta árið sem hann setti sjálfur niður kartöflur og tók upp. Honum féll aldrei verk úr hendi og kunni því illa að liggja í rúminu og vera veikur. Níels hjólaði mikið á sínum yngri árum, bæði innanbæjar og inn á hálendið sem þótti nýnæmi á þeim tíma og stundaði tjaldútilegur í þeim leiðöngrum.

Á Sólvangi naut Níels umönnunar frábærs starfsfólks síðustu stundirnar og sérstakar þakkir fær Ólafur Skúli Ingibergsson nýrnasérfræðingur fyrir ómetanlega umönnun í gegnum árin.

„Ég bið að heilsa öllum“ voru síðustu orð Níelsar.

Útför Níelsar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 14. maí, og hefst athöfnin kl. 15. mbl.is/minningar

Það var sem tíminn stöðvaðist eitt andartak þegar hringt var í mig og mér sagt að Nilli væri látinn. Nilli var einstakur karakter, hann var ljúfmenni í hvívetna og sá ég hann aldrei bregða skapi. Það var mikið gæfuspor þegar þau móðir mín felldu hugi saman og hófu búskap á Norðurbrautinni í Hafnarfirði. Þau unnu þá bæði hjá Dröfn, sem var með skipasmíðar og húsbyggingar í Hafnarfirði en þar var Nilli verkstjóri. Þau eru nokkur stórhýsin á Strandgötunni og víðar sem Nilli og hans menn byggðu á árum áður. Má þar nefna Sparisjóðshúsið og Venusarhúsið.

Ég var í sveit öll sumur á Sauðafelli í Dölum sem krakki og unglingur. Eitt sinn sem oftar komu mamma og Nilli í heimsókn og var þá steypuvinna fyrirhuguð á bænum. Nilli tók að sér að stjórna lögun steypunnar en þar nutu hæfileikar hans sín, enda kom í ljós ein sú fallegasta steypa sem sést hafði að mati fróðra manna þegar slegið var frá. Það var alltaf gaman þegar Nilli og mamma komu því þá var farið í útilegu með tjald og prímus. Ferðir sem urðu ólgeymanleg ævintýri í huga ungs drengs.

Það er margs að minnast þegar að leiðarlokum er komið. Minningin um góðan og elskulegan fósturpabba mun lifa með mér um ókomin ár. Hafðu þökk fyrir allt það sem þú gafst mér.

Víglundur Þorsteinsson.

Hinn 6. maí sl. andaðist Níels Þórarinsson fyrrum húsvörður Víðistaðaskóla. Hann kom til okkar í Víðistaðaskóla haustið 1970, hljóðlátur og hlýr, traustur og trúr í hverju verki, Þá var skólinn að taka til starfa og var þó enn mörg næstu árin í byggingu.Það var því margt sem á nýráðnum húsverði hvíldi og lán fyrir skólann að fá Níels í starfið, margreyndan í margvíslegum byggingarstörfum hér í Hafnarfirði. Skólinn naut þess, að húsvörðurinn kunni vel til verka á iðnaðarsviðinu og var jafnframt góðgjarn en fastur fyrir í samskiptum sínum við nemendur. Það skiptir miklu máli fyrir allt skólastarf, að sambúð húsvarðar og nemenda takist vel. Í Víðistaðaskóla var sú sambúð með ágætum.Níels Þórarinsson hafði ríka réttlætiskennd. Hann var einn af þessum sönnu og traustu jafnaðarmönnum, meðvitaður um gildi jafnaðarstefnunnar fyrir samfélagið og í samskiptum manna, missti aldrei sjónar tilgangi hennar og markmiðum. Hann hafði því góðan skilning á mannúð og mannrækt og það er gott veganesti í uppeldis- og skólastarfi. Öllu starfsfólki skólans varð fljótlega ljóst, hvílíkur mannkostamaður þessi hægláti en þó um leið ákveðni húsvörður okkar var. Það var gott að vera í návist hans og vinátta varð til sem entist út yfir líf og dauðaÞað er alltaf sárt að kveðja góða vini, en minningarnar lifa og lýsa. Þeir lifa góðu lífi í vitund okkar og verkunum sem unnin eru af trúmennsku og hjartahlýju. Þannig skynjum við Níels Þórarinsson á kveðjustund. Víðistaðaskóli naut huga hans og handar, þegar skólinn steig sín bernskuspor. Fyrir það er þakkað. Skólinn naut líka verka Önnu konu hans, en þau hjónin voru samhent í því að vinna skólanum allt það gagn sem þau máttu. Farðu sæll á guðs þíns fund Níels Þórarinsson og hafðu þökk fyrir störf þín í þágu Víðistaðaskóla og alla samveruna þar. Guð blessi þig og þína á kveðjustund.

Hörður Zóphaníasson, fyrrverandi skólastjóri Sigurður Björgvinsson, núverandi skólastjóri.