Upprennandi Michael Fassbender, Kierston Wareing og Harry Treadaway leika aðalhlutverkin í Fish Tank.
Upprennandi Michael Fassbender, Kierston Wareing og Harry Treadaway leika aðalhlutverkin í Fish Tank. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Raunveruleikinn setti á svið örlítinn leikþátt á götum Cannes í gær, leikþátt byggðan á íslenska bankahruninu og því þegar Róm brann.

Raunveruleikinn setti á svið örlítinn leikþátt á götum Cannes í gær, leikþátt byggðan á íslenska bankahruninu og því þegar Róm brann. Breski böskarinn Trevor er í hlutverki Neró keisara með gítar í fiðlu stað og leikmyndin er yfirgefið útibú Landsbankans hér í Cannes, en það rétt náði að opna kortér í kreppu áður en sjoppunni var lokað. Þar situr Trevor nú og böskar fyrir vegfarendur.

Það er svo rólegt hérna og hljómburðurinn er góður, þetta er eini rólegi staðurinn sem ég fann, þannig að fólk heyri tónlistina,“ segir Trevor mér um þennan minnisvarða góðærisins mitt í ríkasta hluta Evrópu. En hann frétti vissulega af því að við værum farin á hausinn. „Er það rétt að þið kennið Bretum um hrunið? Ekki kenna mér um...“ segir Trevor og ég fullvissa hann um að ég telji bresku þjóðina saklausa af íslenskum axarsköftum þótt ófáir landar mínir séu ekki sérstaklega sáttir við Gordon Brown. „Já, kennum Gordon Brown um þetta. Hann kemur að vísu stundum við hjá mér þegar ég böska í London og gefur mér sex pens,“ segir Trevor og er ánægður með að ég sé tífallt gjafmildari en breski forsætisráðherrann.

Kreppan bítur Cannes vissulega líka. Mér reyndari Cannes-farar segja hátíðina í ár ólíkt fámennari en áður enda er þetta ekki ódýrasta hátíð sem þú finnur í heiminum. En það er engu að síður þétt setið þótt það sé ekki troðið og formlegir gestir hátíðarinnar telja þúsundir. Og kannski gerir kreppan hátíðinni bara gott. Fyrirfram hafði ég vissulega áhyggjur af því að það væri eitthvað til í óhugnanlegustu fréttum sem ég hafði heyrt af hátíðinni og froða, sölumennska og innihaldsrýr glamúr drekktu bíómyndunum en hingað til hefur þetta barasta verið menningarlegt og kósí, þótt ég geti örugglega leitað hitt uppi ef ég reyni. Bíómyndirnar hafa líka verið góðar til þessa, staðan er 5-0 og best að njóta þess áður en vondu myndirnar fara að skora mörk líka.

Það munu vera til tölur sem sýna það að fólk stundi ólíkt meira kynlíf í kreppu. Það á líka við í bíómyndunum hérna. Eftir Up fékk ég ríflegan skammt af kynlífssenum í næstu þremur myndum og fjölbreytnin var mikil – hommakynlíf sem og gagnkynhneigt frá Kína, breskur kynlífsþríhyrningur sem mæðgur blandast í og vampíru- og prestakynlíf frá Kóreu. Kynlífið er mikilvægur drifkraftur í öllum myndunum, það er notað til að sýna bæði nánd og skort á nánd, ást og hatur. Merkilegust er þó kannski höfnun táningsstúlkunnar Miu í Fish Tank á þeim leiða sið hinna fullorðnu að kalla hlutina ekki sínum réttu nöfnum. Hún fer í dansprufur fyrir „kvenkyns listdansara“ í sakleysi sínu, virðist alveg nógu örvæntingarfull til þess að slá til þegar hún sér hvað hangir á spýtunni en neitar að fækka fötum og gengur í burtu þegar hún áttar sig á því hvað sumir fullorðnir meina með listdansi.

Og mitt í félagsblokkunum í Fish Tank uppgötvaði ég fyrstu nýju stjörnuna í Cannes þetta árið, Michael Fassbinder. Ég sá Hunger heima skömmu áður en ég fór út og þar sannaði hann vissulega að þar fer efni í stórleikara, en það fer ekki endilega saman með því að vera stjarna. En í Fish Tank skrúfar hann svo sannarlega frá stjörnuvöttunum, eða svo ég gefi stúlkunum þremur sem sátu bak við mig orðið:

Stúlka 1: „Elska hann.“

Stúlka 2: „Svo heillandi augu.“

Stúlka 3: „Algjör hellisbúi, ég fíla það.“

Fassbinder, sem við munum einnig sjá hér í Cannes í Inglorious Basterds , mun fara létt með að verða stórstjarna – ef hann bara vill það, sem er ekkert víst miðað við hversu sérviskulegt myndavalið hefur verið til þessa, að mestu litlar og oft mjög krefjandi indímyndir sem óvíst er að gangi í fjöldann. En kannski er það einmitt slíkur leikari sem við þurfum í kreppunni, kannski er Fassbinder fyrsta kreppustjarna þessarar kreppu.

asgeirhi@mbl.is

Ásgeir H. Ingólfsson

Keppa um Gullpálmann

Í Morgunblaðinu í gær voru tvær keppnismyndir kynntar. Nú er röðin komin að næstu þremur.

Hvíti borðinn

Das Weisse Band

e. Michael Haneke.

Við erum stödd í smábæ í norðurhluta Þýskalands um það leyti sem heimsstyrjöldin fyrri er að skella á. Skólakórinn fer hægt og rólega að lenda í hremmingum sem verða óhugnanlegri og óhugnanlegri. Hægt og rólega fer okkur svo að gruna hver sé á bak við ósköpin – svona fyrir utan Haneke sjálfan og þetta nöturlega andrúmsloft sem fylgir flestum hans myndum.

Andlit

Visage e. Tsai Ming-Liang.

Þessi mynd hefur ansi alþjóðlegt andlit, leikstjórinn er malasískur og hann er að gera mynd um taívanskan leikstjóra sem er að gera mynd í Louvre-safninu hér í Frakklandi. Gallinn er bara sá að leikstjórinn taívanski talar hvorki frönsku né ensku, það veldur skiljanlega vandamálum en þeir hefðu bara átt að sjá hversu greiðlega er leyst úr slíkum tungumálaerfiðleikum á blaðamannafundum hér í Cannes. En hingað til hefur þó vantað ödipíska draugaganginn sem blandast inn í mynd Ming-Liang.

Þorsti

Bak-Jwi e. Park Chan-Wook.

Kóreski presturinn Sang-Hyun smitast af holdsveiki og verður svo vampíra í kjölfarið. Það þýðir vitaskuld að þessum áður skírlífa presti er alveg ómögulegt að bæla kynhvötina lengur og þegar gömul æskuvinkona og kyndug fósturfjölskylda hennar kemur í spilið þá er fjandinn laus. Falleg mynd og grótesk til skiptis – og stundum á sama tíma, sérstaklega í lokaatriðinu. Hún sver sig í nýlega hefð jarðbundinna vampírumynda sem skoða innra líf vampíranna frekar en að búa til hreinræktaða hrollvekju – eins og til dæmis hin sænska Hleyptu þeim rétta inn .