Ein sú albesta „Ég gekk glaður út þangað til ég áttaði mig á því að [Loach] hafði platað mig til þess að klappa, ítrekað, fyrir leikmanni Manchester United.“ Steve Evets, Ken Loach og Eric Cantona í Cannes.
Ein sú albesta „Ég gekk glaður út þangað til ég áttaði mig á því að [Loach] hafði platað mig til þess að klappa, ítrekað, fyrir leikmanni Manchester United.“ Steve Evets, Ken Loach og Eric Cantona í Cannes. — Morgunblaðið/ Halldór Kolbeins
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ken Loach er illmenni, gott ef ekki djöfullinn sjálfur.

Ken Loach er illmenni, gott ef ekki djöfullinn sjálfur. Hann lítur vissulega út fyrir að vera hinn vænsti maður og myndirnar sem hann hefur leikstýrt síðustu fjörutíu árin vitna allar um þann einlæga ásetning hans að bjarga heiminum, með einni bíómynd í einu. Nú síðast færði hann mér hreint yndislega mynd, eina þá albestu til þessa á Cannes og ég gekk glaður út þangað til ég áttaði mig á því að hann hafði platað mig til þess að klappa, ítrekað, fyrir leikmanni Manchester United.

Ég var ekki einn um að klappa, það gerði salurinn allur, oft í miðri mynd og lengi, lengi í lokin. Umrædd mynd er Looking for Eric og þar er ekki bara átt við Eric Cantona, eða King Eric eins og gestir Old Trafford kalla hann enn þann dag í dag. Aðalpersónan er nafni hans, pósturinn Eric. Hann á stóran og góðan vinahóp úr póstþjónustunni sem reglulega hittist yfir kollu og syngur Cantona-lög á borð við þetta:

What a friend we have in Jesus

He's a saviour from afar

What a friend we have in Jesus

And his name is Cantona...

En þeir taka líka sálfræðitíma saman í boði áhugasálfræðings í hópnum, sem er vel lesinn í nýjustu kenningunum. Þrátt fyrir það á Eric ansi erfitt enda er hann ennþá bálskotinn í æskuástinni, Lily, sem hann dansaði rokkabillí með af miklum móð tuttugu árum fyrr. Samskipti þeirra takmarkast nær eingöngu við að skiptast á um að passa barnabarnið, barn nítján ára dóttur þeirra. Líf Erics tekur hins vegar miklum breytingum þegar nafni hans Cantona fer að venja komur sínar á heimilið, þyljandi óskiljanlega málshætti, stundum á frönsku. Það kann að vekja furðu að Cantona geti birst svona fyrirvaralaust á heimili ókunnugs aðdáanda og einhverjir kynnu að ætla að pósturinn væri farinn að sjá ofsjónir í örvæntingu sinni. En efasemdamönnum er hollt að hafa í huga orð kappans sjálfs í myndinni: „Ég er ekki maður, ég er Cantona.“

Einhverjum kann að þykja Eric Cantona ólíklegur innblástur fyrir sósíalistann Loach. En lykilinn að myndinni má finna í sakleysislegri spurningu póstsins til Cantona: Hvað var besta augnablikið á ferlinum? Cantona gefst ekki tóm til að svara því póstberinn telur upp fjölda gullfallegra marka og spyr: Var þetta augnablikið? Cantona neitar aftur og aftur, jafnvel búinn að steingleyma mörkunum, og svarar svo: „Það var ekki mark, það var sending.“ Fótbolti, rétt eins og lífið, snýst um að treysta samherjunum, vinunum. Jafnvel æskuástinni. Þá fyrst er maður líklegur til að skora.

Þetta lögmál á ekki síður við um kvikmyndagerð og stundum skora leikstjórar eftir sendingu frá öðrum leikstjórum. Áhorfendur heima hafa nýlega fengið tækifæri til þess að sjá gæðamyndirnar Hleyptu þeim rétta inn ( Låt den rätte komma in ) og Hunger og báðar eiga þær sér andlegar framhaldsmyndir hér á Cannes. Sænska vampírumyndin Hleyptu þeim rétta inn er hápunktur nýlegrar hefðar þar sem vampírur eru sýndar í hversdagslegra og raunsærra ljósi en áður. Leikrænir tilburðir Drakúla greifa eru ekki málið lengur heldur lágstemmdur drungi. Þannig byrjar líka kóreska myndin Þorsti ( Bank-Jwi ). Sanntrúaður og hjartahreinn prestur verður að vampíru og gerir sitt besta til þess að drekka bara blóð af sjúkrahúsinu, hann vill ómögulega drepa neinn. En þegar áður bæld kynhvötin verður óstjórnleg fara vafasamir hlutir að gerast og eftir því sem á myndina líður þá hættir hún að vera sérlega lágstemmd og verður blóði drifin – en þótt hún týni þræðinum örlítið á kafla þá er gullfallegur endirinn, ljóðrænn og gróteskur í senn, klárlega bíómiðans virði.

Loks er franska myndin Spámaðurinn ( Un prophète ) ennþá skilgetnara afkvæmi Hunger . Hunger fjallaði fyrst og fremst um hversu ómennskt umhverfi fangelsi eru; það skiptir engu hvað þessir fangar hafa gert af sér, enginn verðskuldar slíka meðferð. Spámaðurinn fjallar hins vegar um hvernig fangelsi breyta smáþjófum í harðsvíraða og útsjónarsama glæpamenn, betrunarvist aðeins hlálegt orð fyrir hátíðleg tækifæri. Hvort tveggja myndir sem ættu að vera skylduáhorf fyrir fangelsismálayfirvöld allra landa heimsbyggðarinnar.

asgeirhi@mbl.is

Keppa um Gullpálmann

Morgunblaðið kynnir þær myndir sem keppa um Gullpálmann í Cannes. Nú er komið að næstu fimm.

Spámaðurinn (Un prophète)

Leikstjóri: Jacques Audiard.

Smáglæpamaður fer í fangelsi og kemur út útlærður í glæpafræðunum. Þetta nöturlega fangelsisdrama sýnir okkur hvernig fangelsi getur orðið glæpamannaverksmiðja, en þrátt fyrir að myndin sé að flestu leyti frekar raunsæ þá leyfir Audiard þó einum draug að leika stórt hlutverk. Var sigurstranglegasta myndin þangað til Cantona kom.

Vengeance

Leikstjóri: Johnnie To.

Kokkur nokkur kemur til Hong Kong til þess að hefna dóttur sinnar og þá kemur sér vel að hafa starfað sem launmorðingi tuttugu árum fyrr. Fyrrverandi vinnuveitendur hans gruna hann um að vinna fyrir FBI og allt er þetta uppspretta mikils svikavefjar.

Kinatay

Leikstjóri: Brillante Mendoza.

Plottið virðist eiga að snúast um dópsmygl og mannrán. En eiginlega er ekki rétt að tala um plott í þessari filippseysku mynd, frekar en myndatöku eða nokkurn einasta tilgang. Ekkert af þessu er til staðar né annað það sem áhorfanleg bíómynd krefst og sjaldan hefur nokkur leikstjóri borið meira rangnefni en Brilliante. Einfaldlega langversta mynd hátíðarinnar til þessa og óskiljanlegt að henni hafi verið hleypt inn í aðalkeppnina.

Antichrist

Leikstjóri: Lars von Trier.

Charlotte Gainsbourg og Willem Dafoe eru einu persónur þessarar sögu að undanskildu barni sem deyr í upphafi myndar. Þau fara út í skóg til þess að ná áttum en þar fyrst verður fjandinn laus – í bókstaflegri merkingu. Von Trier fer á kostum í hressilegri hrollvekju sem kvikmyndaeftirlit heimsins munu skemmta sér mikið við að banna, enda limlest dýr, limlest kynfæri og lík á hverju strái. Þetta er það sem gerist þegar danski brjálæðingurinn sleppir algjörlega fram af sér beislinu. Maður skynjaði þó mjög mismunandi skoðanir á ræmunni í salnum.

Looking for Eric

Leikstjóri: Ken Loach.

Eric Cantona gefur nafna sínum, póstburðarmanninum Eric Bishop, góð ráð þegar kemur að ástamálum, barnauppeldi og vináttu. Frábær sending frá þeim Loach og Cantona sem gæti vel endað með marki á verðlaunahátíðinni.

Ásgeir H Ingólfsson