Lars Von Trier Er við sama heygarðshornið í Cannes.
Lars Von Trier Er við sama heygarðshornið í Cannes. — Morgunblaðið/ Halldór Kolbeins
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig geturðu útskýrt – og réttlætt – þessa bíómynd?“ Þetta var fyrsta spurningin og þetta eina orð, réttlæta, breytti skyndilega blaðamannafundinum í rannsóknarrétt.

Hvernig geturðu útskýrt – og réttlætt – þessa bíómynd?“ Þetta var fyrsta spurningin og þetta eina orð, réttlæta, breytti skyndilega blaðamannafundinum í rannsóknarrétt. Blaðamaðurinn var Baz Bamigboye, slúðurfréttamaður á Daily Mail, og það var Lars von Trier sem stóð fyrir svörum. Von Trier var nokkuð brugðið og sagðist ekki þurfa að afsaka myndina sína fyrir neinum og við það greip Baz aftur fram í fyrir von Trier og sagði: „Þetta er kvikmyndahátíðin í Cannes, þú komst með myndina þína hingað og þú verður að útskýra af hverju þú gerðir hana.“ Ég veit ekki hvort hann krefur Paris Hilton líka um ástæður fyrir tilvist sinni en þegar þarna var komið sögu fóru sumir blaðamenn að verja von Trier, einn kallaði að von Trier væri listamaður og Baz ekki, því væri kominn tími á að leyfa von Trier að verja sig.

Hægt og rólega náði von Trier sér betur á strik og maður var farinn að kannast við danska brjálæðinginn. „Ég vinn fyrir sjálfan mig, ég gerði þessa mynd fyrir sjálfan mig og skulda engum útskýringu. Ég á aldrei neitt val, hendi Guðs stýrir þessu og ég er besti leikstjóri í heimi – en ég er að vísu ekki jafn viss um að Guð sé besti guð í heimi.“

Guð sjálfur er hins vegar afskaplega fjarlægur í umræddri mynd von Triers, Antichrist , en þó má kannski segja að þarna séu börn hans og djöfulsins að elskast. Willem Dafoe lék jú Krist Scorsese og það þarf ekki að skoða veggspjald myndarinnar lengi til þess að átta sig á hvern Charlotte Gainsbourg leikur. Megnið af myndinni eru þau tvö einu leikarar myndarinnar og hægt og rólega tekur hryllingurinn völdin. Talandi refur með innyflin úti, hreindýr sem hleypur um með dauðann kálf hangandi í rassinum og risafura hverrar rætur fléttast við hundruð nakinna líka eru bara nokkrir af mörgum myndrömmum sem Hieronymus Bosch hefði getað verið fullsæmdur af. Limlest kynfæri og opinskátt kynlíf skýrir ennfremur hvers vegna myndin er jafn umdeild og raun ber vitni og það var alveg ljóst að fjölmargir blaðamenn á fundinum deildu skoðunum Baz á Leiti.

En þótt það kæmi mér lítið á óvart að margir hneyksluðust þá kom mér töluvert á óvart hversu oft það var á þeim forsendum að þeir skildu ekki myndina, vildu fá útskýringar. Von Trier segir þetta draum færðan á tjaldið, órökrétta martröð. En myndin hefur engu að síður nokkuð einfalda og skarpa innri lógík – þetta er einfaldlega antíkristur sjálfur sem Dafoe er að kljást við og hún svífst skiljanlega einskis. Von Trier leikur sér svo skemmtilega með væntingar áhorfandans því þessi kvenkyns antíkristur virðist í raun fyrst og fremst ábyrgur fyrir öllu hinu hroðalega ofbeldi sem konur hafa orðið fyrir í gegnum tíðina, í staðinn fyrir að taka sér ásjónu Jesú eins og í flestum goðsögum tekur hún ásjónu þeirra sem hún kvelur mest – þessi antíkristur er í rauninni antí-konan. Þannig nær þessi afskaplega óhugnanlega mynd ákveðinni dýpt og tilgangi – og gerir líklega meira fyrir kvenréttindabaráttu í heiminum heldur en hlutgerving slúðurblaða Baz og félaga.

Charlotte Gainsbourg

Antíkristur von Triers er úr einhverri merkilegustu tónlistarfjölskyldu Frakka. Charlotte er dóttir Serge Gainsbourg og Jane Birkin söng – og stundi – fyrir Gainsbourg í hinu fræga fullnægingarlagi „Je t'aime ... Jo Moin Plus“. Serge prófaði hinar ólíkustu tónlistarstefnur eins og reggíplatan sem þessi grein er skrifuð undir ber vitni um. Charlotte sjálf hefur sinnt bæði leiklist og tónlist og vakti töluverða athygli með plötunni 5:55 sem hún vann með þeim Jarvis Cocker og félögunum í Air.

Keppa um Gullpálmann

Morgunblaðið kynnir þær myndir sem keppa um Gullpálmann í Cannes. Nú er komið að næstu þremur.

Vincere

Leikstjóri: Marco Bellocchio.

Ida Dalser var fyrsta kona Benitos Mussolinis þótt Il Duce hafi seinna afneitað bæði henni og syni þeirra. Þetta er stórmerkileg saga sem kvikmyndagerðarmennirnir ná því miður sjaldnast að gæða miklu lífi. Þó er merkileg sena þar sem Benito yngri hermir eftir föður sínum fyrir skólafélagana og kannski væri sú saga efni í betri mynd.

Brotin faðmlög

Leikstjóri: Pedro Almodovar.

Lluís Homar og Penelope Cruz eru í aðalhlutverkum í mynd um misheppnaða leikkonu og blindan leikstjóra. Leikstjórinn var þó ekki alltaf blindur og við fáum langt endurlit þegar hann hafði fullkomna sjón og svaf hjá Penelope Cruz. Ágætis mynd en þó alls ekki með betri myndum Almodovars.

Enter the Void

Leikstjóri: Gaspar Noé.

Noé fylgir Irrévercible eftir með sögu af systkinunum Oscar og Lindu sem ferðast til Tókýó. Hann er dópsali og hún strippari en þegar Oscar er skotinn þá neitar sál hans að yfirgefa land hinna lifandi út af gömlu loforði um að vernda systur sína, hvað sem á dynur. Þannig að hún eigrar um Tókýó og fylgir Lindu eftir.

asgeirhi@mbl.is

Ásgeir H Ingólfsson